Bókargróði Allir virðast græða á bókinni – nema Assange.
Bókargróði Allir virðast græða á bókinni – nema Assange. — Reuters
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, á ekki aðeins í útistöðum við útgáfufyrirtæki, sem hefur gefið út ævisögu hans í óþökk hans, heldur á hann einnig í þrætu við lögmenn sína.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, á ekki aðeins í útistöðum við útgáfufyrirtæki, sem hefur gefið út ævisögu hans í óþökk hans, heldur á hann einnig í þrætu við lögmenn sína. Assange sakar verjendur sína um að hafa sett upp alltof hátt verð fyrir málsvörnina og segir þá hafa sölsað undir sig fyrirframgreiðslur sem hann hafi átt að fá fyrir bókina. Hermt er að umræddar greiðslur nemi 412.000 pundum, sem svarar rúmum 75 milljónum króna.

Skoska útgáfufyrirtækið Canongate er sagt hafa samið við Assange um að greiða honum alls 600.000 pund (110 milljónir króna) fyrir útgáfuréttinn, þar af 250.000 pund (46 millj. kr.) við undirritun samningsins. Gefa átti bókina út sem sjálfsævisögu en annar maður, Andrew O'Hagan, var fenginn til að skrifa hana á laun. Canongate samþykkti að greiða laun O'Hagans fyrirfram, en talið er að þau nemi 100.000 pundum (18,4 millj. kr.).

Assange hafði einnig samið við bandarísku bókaútgáfuna Knopf um útgáfuréttinn í Bandaríkjunum. Hermt er að Knopf hafi þegar greitt 250.000 dollara, eða tæpar 30 milljónir króna. Knopf hefur ákveðið að rifta útgáfusamningnum og krefst þess að fyrirframgreiðslan verði endurgreidd.

Breska dagblaðið The Guardian segir að fyrirframgreiðslur útgáfufyrirtækjanna hafi verið lagðar inn á bankareikning í vörslu aðalverjanda hans hjá lögmannastofunni Finers Stephens Innocent (FSI) í Lundúnum. Assange haldi því fram að hann hafi talið að hann fengi þjónustu lögmannanna án endurgjalds. Lögmannastofan segir hins vegar að aðeins fyrsta ráðgjöfin hafi verið án endurgjalds og hermt er að reikningar hennar fyrir málsvörnina séu orðnir hærri en fyrirframgreiðslurnar. Mark Stephens, verjandi Assange, þvertekur fyrir að lögmannastofan hafi okrað á skjólstæðingi sínum.

Sögð full af villum

The Guardian segir að svo virðist sem deilan um fyrirframgreiðslurnar hafi orðið til þess að Assange reyndi að rifta útgáfusamningnum í júní eftir að hafa lesið handrit að bókinni. „Nokkrir heimildarmenn blaðsins telja að eftir að Assange mistókst að selja réttinn til að kvikmynda ævisöguna í Hollywood hafi hann áttað sig á því að lögmenn hans myndu gleypa allar greiðslurnar sem hann átti að fá fyrir bókina,“ segir The Guardian .

Julian Assange neitar þessu og sakar skoska útgáfufyrirtækið um peningagræðgi og óheiðarleika. „Þetta snýst um gamaldags tækifærismennsku og undirferli – að svindla á fólki til að græða peninga,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Assange.

Hann viðurkennir að bókin byggist á 50 klukkustunda viðtölum hans við O'Hagan en segir að hún sé full af villum sem hann hafi ekki fengið tækifæri til að leiðrétta.