[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Línur eru lítið farnar að skýrast með tengingu Vestfjarða við þjóðvegakerfið í gegn um Gufudalssveit.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Línur eru lítið farnar að skýrast með tengingu Vestfjarða við þjóðvegakerfið í gegn um Gufudalssveit. Sveitarstjórnirnar á svæðinu og meginhluti íbúanna sætta sig ekki við annað en láglendisleið en innanríkisráðherra hefur ekki fallið frá tillögu sinni um að halda veginum á hálsunum þótt hann hafi opnað fyrir umræðu um jarðgöng. Það eru jafnframt skoðanir nokkurra íbúa sem einangrast við færslu vegarins, landeigenda við Teigsskóg og náttúruverndarsamtaka.

Tveir slæmir kaflar eru eftir á Vestfjarðavegi nr. 60. Annars vegar er vegarkafli í Múlasveit. Vegagerðin er að ljúka umhverfismati á nýjum vegi sem meðal annars felur í sér þverun Mjóafjarðar og samhliða er unnið að breytingum á aðalskipulagi. Stefnt er að því að bjóða þá framkvæmd út, að minnsta kosti að hluta, fyrir áramót. Lagning vegarins tekur tvö til þrjú ár og það er sá tími sem stjórnvöld og heimamenn hafa til að koma sér niður á lausnir um framhaldið, þrætukaflann um Gufudalssveit.

Hálsaleiðin stöðvuð

Sveitarstjórnirnar á svæðinu hafa verið nokkuð samstiga í afstöðu sinni um vegalagningu um Gufudalssveit, þótt hagsmunir fari ekki að öllu leyti saman vegna þess að umræddur vegur þjónar einnig sem innansveitarvegur í Reykhólasveit.

Gústaf Jökull Ólafsson, hreppsnefndarmaður í Reykhólahreppi, segir afstöðu sveitarstjórnar skýra. Hún muni ekki gefa út framkvæmdaleyfi nema fyrir veg á láglendi. Þegar af þeirri ástæðu eru hugmyndir Ögmundar Jónassonar um að halda sig við Hálsaleiðina, sem heimamenn hafa margoft hafnað, óframkvæmanlegar. Vestari hálsinn, Ódrjúgsháls, er lægri, um 160 metrar yfir sjávarmáli, og þar væri hægt að gera nýjan veg yfir en heimamenn hafa slæma reynslu af gamla veginum og vilja ekki heyra minnst á vegi yfir hálsana tvo. Innanríkisráðherra gaf undir fótinn með jarðgöng í Hjallaháls á hitafundum með Vestfirðingum, með því að bjóðast til að láta gera rannsóknir á jarðlögum á vori komanda þannig að hægt verði að meta betur kostnað við gangagerð. Hann treysti sér þó ekki til að tímasetja göng. Það getur sjálfsagt enginn stjórnmálamaður gert því búið er að skera illilega niður fjárframlög til vegagerðar og jarðgöng víða um land hafa verið sett í forgang. Á þessu átta heimamenn sig og treysta ekki á að göng komi á næstu árum. Varla er raunhæft að ætla að þarna fáist vegur á tveimur hæðum, það er að segja að jarðgöng verði boruð fljótlega eftir að nýr vegur kemur yfir hálsinn.

Þarna er stál í stál. Ljóst er að fulltrúar heimamanna og stjórnvöld verða að setjast niður og finna lausn. Í umræðunni hafa komið fram hugmyndir að ýmsum útfærslum. Rannsaka þarf hvort þessar leiðir eru raunhæfar og áhrif þeirra á umhverfið.

Ljóst er að leiðin sem heimamenn og stjórnvöld komu sér saman um á sínum tíma, svokölluð B-leið, er eðlilegsta láglendisleiðin, þegar landakort er skoðað. En fleira kemur þar til. Hún felur í sér þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar og lagningu nýs vegar við norðanverðan Þorskafjörð þar sem farið er eftir endilöngum Teigsskógi. Þessi framkvæmd myndi hafa áhrif á umhverfið, eins og raunar allar aðrar nýjar leiðir. Mest umtöluð er skerðing Teigsskógar. Landeigendur á Gröf og Hallsteinsnesi og náttúruverndarsamtök fengu umhverfismati hnekkt fyrir dómstólum. Sá dómur nær yfir alla leiðina. Því er ekki hægt að þvera firðina á meðan verið er að hugsa um framhaldið í Teigsskógi eða jarðgöng. Fara þarf í nýtt umhverfismat alla leið.

Margir Vestfirðingar efast um gildi Teigsskógar, í samanburði við hagsmuni samfélagsins af greiðari og öruggari samgöngum, og benda á skógi- og kjarrivaxnar hlíðar um allan fjórðunginn. Við ramman reip er að draga vegna þess að Teigsskógur er orðinn tákn í náttúruverndarbaráttunni sem erfitt verður að fella af stalli.

Á að standa á B-leiðinni?

Í tali heimamanna er áberandi áhersla á að setja stefnuna á leið B, þrátt fyrir það sem á undan er gengið, annaðhvort með nýju umhverfismati eða samþykkt sérlaga um að heimila lagningu vegar um Teigsskóg. Ögmundur Jónasson hefur sagt að það yrði mjög tafsöm vinna og alls óvíst um niðurstöðuna. Fram kom á fundi hans á Patreksfirði að hann teldi raunar meiri líkur á að hún yrði óvilhöll. Hann vísaði til andstöðu náttúruverndarfólks og stofnana og hugsanlegra málaferla.

Hægt væri að óska eftir því að umhverfisráðuneytið endurskoðaði úrskurð sinn um umhverfismat sem dæmdur var ógildur en pólitíski veruleikinn er sá að ráðuneytið hefur skipt um skoðun og leggst hart gegn skerðingu Teigsskógar. Ekki er útilokað að láta gera nýtt umhverfismat fyrir leiðina, samkvæmt nýjum lögum um umhverfismat. Þá þarf væntanlega að vera hægt að benda á nýjar upplýsingar eða breyttar forsendur. Annars yrði afstaða Skipulagsstofnunar sú sama og við fyrra umhverfismatið, þar sem lagst var gegn framkvæmdinni. Samkvæmt nýju lögunum getur sveitarfélagið gefið út framkvæmdaleyfi, gegn áliti Skipulagsstofnunar, en það er kæranlegt og búast má við að allt þetta taki langan tíma vegna þeirrar andstöðu sem er við skerðingu Teigsskógar og raunar fleiri atriði á þeirri leið. Þá er spurningin hvort menn vilja standa á þessari leið, eins og hundar á roði, eða athuga aðra möguleika.

Beint yfir?

Oddur Guðmundsson, sem rekur ferðaþjónustuna í Bjarkalundi, hefur talað fyrir nýrri útfærslu á B-leiðinni sem hann kallar áætlun B á leið B. Hún hefur raunar komið til umræðu áður. Leiðin byggist á því að fara út með Þorskafirði að sunnanverðu og þvera fjörðinn utar en áformað hefur verið. Þá myndi vegurinn koma inn á áformaða leið B utan við Teigsskóg. Ekki hefur verið metið hversu dýr framkvæmd þetta yrði. Ljóst þykir að þverun svo utarlega yrði mun dýrari framkvæmd en þverun við Kinnarstaði. Mismunur á kostnaði yrði þá það verð sem samfélagið þarf að greiða fyrir verndun Teigsskógar.

Þó telja sumir, ekki síst íbúar í Reykhólahreppi, skynsamlegra að stíga skrefið lengra og taka upp hugmyndir um þverun Þorskafjarðar frá Stað á Reykjanesi beint yfir að Skálanesi. Með því yrðu firðirnir þrír þveraðir í einu lagi. Þessi leið hefur verið í umræðunni í áratugi, kannski vegna þess að menn vita að fjörðurinn rennur að mestu í tiltölulega þröngum ál, kannski um 300 metra breiðum, og steinar sjást standa upp úr á fjöru meginhluta leiðarinnar. Þessi leið er lengri en svokölluð B-leið en hefur í för með sér að Reykhólar kæmust í þjóðleið, ef farið yrði þeim megin Reykjaness. Það yrði ekki hægt nema með lagfæringum á veginum. Þess vegna getur allt eins komið til greina að fara með veginn um sunnanverðan Þorskafjörð og út að Árbæ. Þverunin kostar á annan tug milljarða og ýtti Vegagerðin þessari leið út af borðinu af þeim sökum. Umhverfisáhrif voru því ekki metin. Síðan hafa komið fram hugmyndir um að nýta mannvirkið fyrir sjávarfallavirkjun. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps, telur sjálfsagt að gera format á þessari leið, til að fá upp á borðið helstu upplýsingar.

Vegagerðin lét gera umhverfismat fyrir svokallaða C-leið sem felur í sér þverun Gufufjarðar og veg inn með Djúpafirði að vestanverðu. Framkvæmdinni var hafnað við úrskurði stjórnvalda um umhverfismat vegna arnarhreiðurs sem er nálægt væntanlegu vegstæði. Sveitarfélögin hafa í umræðunni nú lagt til að þessi leið verði skoðuð á ný og þá í tengslum við göng undir Hjallaháls. Önnur útfærsla er að þvera báða firðina og fara inn með Djúpafirði að austan.

Þrjú ár til stefnu

Þótt innanríkisráðherra hafi ekki fallið frá því að sannfæra íbúana um ágæti þess að fara Hálsaleiðina hefur hann ekki útilokað aðrar leiðir. Hann verður þó að horfa til kostnaðar enda lítið fé ætlað til nýframkvæmda.

Sveitarstjórnirnar á svæðinu og áhugafólk eru þessa dagana að fara yfir kostina. Haft verður samband við Vegagerðina og ráðherrann.

Ekki er ólíklegt að reynt verði að ná samkomulagi um tvær til þrjár útfærslur á leiðum og koma þeim í farveg. Stefnan þarf að vera klár innan þriggja ára þannig að hægt verði að halda áfram með Vestfjarðaveg nr. 60 þegar stórum áfanga í Múlasveitinni verður náð.

Hálsaleiðin leyfð í umhverfismati en ekki skipulagi

Vegagerðin bar saman þrjár veglínur um Gufudalssveit í umhverfismati, leiðir B, C og D. Leið B varð fyrir valinu en hún gerir ráð fyrir þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar og vegi um Teigsskóg í Þorskafirði. Hún styttir leiðina um 12 kílómetra. Úrskurði um að heimila þá leið, að loknu umhverfismati, var hnekkt fyrir dómstólum. Leið C gerir ráð fyrir þverun Gufufjarðar en að vegurinn liggi síðan inn Djúpafjörð og yfir Hjallaháls. Þeirri leið var hafnað að loknu umhverfismati. Eina leiðin sem hefur samþykkt umhverfismat er endurbætur á núverandi vegi yfir Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Endurbæturnar myndu stytta leiðina um 6 kílómetra. Þess ber þó að geta að ekki er gert ráð fyrir Hálsaleiðinni í nýlegu aðalskipulagi Reykhólahrepps og ekki er vilji til að heimila hana. Þverun Þorskafjarðar við Kinnarstaði hlaut samþykki þegar Hálsaleiðin stóðst umhverfismat og gert er ráð fyrir henni á skipulagi. Er því heimilt að hefja framkvæmdir þar. Sú framkvæmd mun stytta leiðina um 10 km til viðbótar.

Ekki verður farið í framkvæmdir við aðrar leiðir en núverandi veg án undangengins nýs umhverfismats.

Umræða er hafin um aðrar leiðir, til dæmis að færa veginn úr Teigsskógi suður yfir Þorskafjörð og þvera fjörðinn utar. Þá er gamla hugmyndin um þverun Þorskafjarðar frá Stað yfir að Skálanesi aftur komin í umræðuna. Loks má nefna að innanríkisráðherra hefur lýst yfir vilja til að hefja rannsóknir vegna jarðganga í Hjallahálsi.