Nemendur Rannsóknir benda til þess að drengir eyði mun meiri tíma í tölvunotkun heldur en stúlkur og að tölvur séu frekar hluti af menningarheimi drengja en stúlkna. Námsleiða hjá strákum gætir strax í 2. bekk grunnskóla.
Nemendur Rannsóknir benda til þess að drengir eyði mun meiri tíma í tölvunotkun heldur en stúlkur og að tölvur séu frekar hluti af menningarheimi drengja en stúlkna. Námsleiða hjá strákum gætir strax í 2. bekk grunnskóla. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjörtur J. Guðmundsson hjorturjg@mbl.is Mikilvægt er að kennarar kynnist þeim heimi margmiðlunartækni sem orðinn er stór og vaxandi hluti af heimi barna og unglinga í dag.

Hjörtur J. Guðmundsson

hjorturjg@mbl.is

Mikilvægt er að kennarar kynnist þeim heimi margmiðlunartækni sem orðinn er stór og vaxandi hluti af heimi barna og unglinga í dag. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu starfshóps á vegum Reykjavíkurborgar um námsárangur drengja í skólum. Greina þurfi hverju þurfi helst að miðla til kennara í þeim efnum, kostum þess og göllum og hvernig þau eigi í samskiptum í gegnum hana „til að kennarar geti átt skilningsrík samskipti við og unglinga um þennan breytilega heim“.

Þetta eigi einkum við um drengi en í skýrslunni er meðal annars vitnað í rannsóknir sem benda til þess að drengir eyði mun meiri tíma í tölvunotkun heldur en stúlkur. Tölvunotkun sé ennfremur fremur hluti af menningarheimi drengja en stúlkna og að þeir leiti í tölvur og aðra margmiðlunartækni ekki síst vegna þess að ekki sé komið nægjanlega til móts við áhuga þeirra í þeim efnum í skólum.

Höfðar ekki til þeirra

Fram kemur í skýrslunni að 23% 15 ára drengja geti ekki lesið sér til gagns og 9% stúlkna. Þá kemur ennfremur fram að strax í 2. bekk grunnskóla sé farið að gæta námsleiða hjá strákum og þeir farnir að dragast aftur úr í læsi. „Við höfum ekki fundið skýringu á þessu en annaðhvort er þarna á ferðinni líffræðilegur munur eða að þetta höfðar bara ekki til þeirra,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður starfshópsins.

Líklegt er að tölvunotkun og margmiðlunartækni hafi veruleg áhrif í þessu sambandi að hennar mati. „Ég held að strákar sjái einfaldlega ekki tilganginn í því að lesa bækur þegar þeir geta nálgast allar þessar upplýsingar á netinu og skólarnir eru enn í fyrirlestraformi. Þetta hefur verið í gangi síðustu áratugina síðan sjónvarpið varð eins öflugur miðill og það hefur síðan verið og síðan hefur tölutæknin tekið við og þá hefur þetta aukist gríðarlega. Þetta er að mínu mati mjög áhugaverð hlið á þessu máli.“

Þekkja ekki þennan heim

Meðal þeirra sem starfshópurinn ræddi við voru fulltrúar tölvuleikjaframleiðandans CCP sem heldur úti netleiknum EVE Online en þar kom meðal annars fram að af um 600 þúsund notendum leiksins væru einungis 5% konur. „Það var alveg ótrúleg upplifum fannst mér að sjá hvað skólafólkið þekkti ekkert þennan heim,“ segir Þorbjörg Helga.

Þetta er tekið sem dæmi um það að æskilegt sé að kennarar og skólastjórnendur kynnist betur margmiðlunarheimi nemenda sinna og notkun þeirra á honum enda sé um að ræða samkeppni um tíma og athygli þeirra.

Í skýrslunni er meðal annars vitnað í rannsókn frá 2010 þar sem segir að tölvubyltingin sé að breyta skynjun barna og unglinga á annan hátt en skólastofan geri ráð fyrir. Tölvutæknin veiti þeim mun meiri möguleika á að hafa áhrif á umhverfi sitt.

Hugsa málið upp á nýtt

Nauðsynlegt er að nýta margmiðlunartækni eins og myndabandavefinn YouTube, sem er vinsæll á meðal barna og unglinga, í náminu að mati Þorbjargar Helgu og höfða þannig betur til þeirra með því að færa námsefnið meira í slíka miðla sem þau þekki og noti mikið. Til að mynda í formi fyrirlestra á netinu í stað þess að þeir fari fram í kennslustofunni.

„Það sem þessi tækni býður upp á er líka að þeir nemendur sem þurfa að hlusta aftur á efnið geta það en ef þeir sitja í tíma geta þeir það hins vegar ekki. Það þarf að hugsa þetta alveg upp á nýtt.“

Margmiðlun
» Mikilvægt að kennarar kynnist þeirri margmiðlunartækni sem er orðin stór hluti af heimi barna og unglinga og samkvæmt skýrslu starfshóps.
» Fram kemur í skýrslu hópsins að 23% 15 ára drengja geti ekki lesið sér til gagns og 9% stúlkna samkvæmt rannsóknum sem vísað er til í henni.

FORMAÐUR SKÓLAFÉLAGS MENNTASKÓLANS VIÐ SUND

Hvort á að laga að hverju?

„Ég tók það saman eina vikuna að ég eyði rúmlega tveimur þriðju af vökutíma mínum í tölvunni eða að horfa á sjónvarpið. Mestallur tíminn fór samt í að gera eitthvað „næstum“ merkilegt,“ segir Ásgrímur Hermannsson, ármaður Skólafélags Menntaskólans við Sund, í pistli sem birtist á heimasíðu félagsins síðastliðinn fimmtudag.

„[V]ið eyðum öllum okkar tíma fyrir framan tölvuna og sjónvarpið en erum svo skylduð til þess að mæta í skólann, sett niður með bók fyrir framan okkur og kennara sem blaðrar áfram og áfram um ágæti einhvers og það nennir enginn að hlusta. Við erum zapping-kynslóðin, kynslóðin sem er það ofhlaðin aðgengi að upplýsingum að við erum nánast hætt að fylgjast með einhverju einu því að það er alltaf eitthvað annað í boði líka [...] Ég er ekki að segja að þetta sé eitthvað heilbrigðasti lífsstíllinn en þetta er engu að síður lífsstílinn okkar, og hvort er betra að laga kerfið að okkur eða laga okkur öll að kerfinu. Ég veit að ég er ekki einn um að finnast þetta og langt því frá sá síðasti.“