Maðurinn sem sýknaður var í Hæstarétti á fimmtudag var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu eina milljón króna í miskabætur. Með sýknunni var bótakröfunni vísað frá dómi.

Maðurinn sem sýknaður var í Hæstarétti á fimmtudag var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu eina milljón króna í miskabætur. Með sýknunni var bótakröfunni vísað frá dómi. Réttargæslumaður stúlkunnar hyggst hins vegar sækja um bætur henni til handa hjá bótanefnd.

Meðal gagna málsins var votttorð hjúkrunarfræðings á geðsviði Landspítala. Þar segir að sálrænu eftirköstin af árásinni hafi þróast fljótt yfir í áfallastreituröskun og hafi einkennin aukist jafnt og þétt eftir árásina. Árásin hafi haft mikil áhrif á allt hennar daglega líf, t.d. dregið úr athöfnum sem hún tók þátt í áður og skert lífsgæði hennar. Þá kemur fram að þessi einkenni hafi haft áhrif á nám hennar. Óvíst er hvort eða hvenær sálrænu einkennin ganga til baka og hugsanlegt þykir að hún þurfi á lyfjameðferð að halda til að takast á við kvíðaeinkenni.

Á rétt á miskabótum

Ljóst er að ráðist var á stúlkuna og hún á því rétt á miskabótum. Kveðið er á um aðstæður líkt og þær sem komnar eru upp í umræddu máli í 9. grein laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Þar segir: „Greiða skal tjónþola bætur samkvæmt lögum þessum þótt ekki sé vitað hver tjónvaldur er, hann sé ósakhæfur eða finnist ekki.“

Samkvæmt upplýsingum frá bótanefnd er þriðjungur útgreiddra bóta vegna óupplýstra brota og oftar en ekki vegna líkamsárása.