Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir auðveldri leið til að skapa mikinn fjölda starfa

Eftir að hafa tekið sjávarútvegsmálin út úr þeim sáttafarvegi sem þau voru komin í og fært þau yfir í nefnd stjórnarflokkanna, þar sem hún átti sjálf sæti, segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, nú að stóra kvótafrumvarpið hafi verið gallað þegar það var lagt fram. Stjórnarflokkarnir breyttu frumvarpinu til að þjóna eigin duttlungum og forsætisráðherra lagði áherslu á að málið næði fram að ganga, en veikleikar í stjórnarmeirihlutanum urðu að lokum til þess að málið kláraðist ekki.

Út af fyrir sig er rétt hjá Jóhönnu að frumvarpið var gallað eins og margítrekað var bent á án þess að hún gerði nokkuð til að laga gallana eða stöðva málið. En það að hún hafi reynt að knýja málið í gegnum Alþingi þrátt fyrir galla þess sem hún nú viðurkennir sýnir ótrúlegt ábyrgðarleysi. Um er að ræða mikilvægasta undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar og forsætisráðherra landsins getur ekki leyft sér að leika sér að svo mikilvægum þjóðarhagsmunum.

Nú er málið komið á byrjunarreit. Ætli stjórnarmeirihlutinn sér að halda því áfram þarf að semja nýtt frumvarp og leggja fyrir þingið með allri þeirri óvissu sem slíku fylgir fyrir sjávarútveginn, tengdar greinar og þar með þjóðina alla. Þetta er ótæk leið sem mundi ekkert gera annað en staðfesta illan hug ríkisstjórnarinnar til sjávarútvegsins og framlengja þá erfiðu stöðu sem hann hefur verið settur í.

Nú er mál að linni. Kominn er tími til að ríkisstjórnin veiti sjávarútveginum starfsfrið með því að hætta við þær breytingar sem hún hefur áformað. Með því gæti ríkisstjórnin stuðlað að því að hleypa fjárfestingu í sjávarútveginum af stað aftur sem mundi á skömmum tíma skapa fjölda nýrra starfa. Séu yfirlýsingar Jóhönnu um að ríkisstjórnin leggi sig alla fram í atvinnumálum eitthvað annað en orðin tóm er þetta augljós kostur. Miklu líklegra er þó að duttlungarnir fái áfram að ráða ferðinni.