Verðbólga Verðbólga mældist 3% á evrusvæðinu í september.
Verðbólga Verðbólga mældist 3% á evrusvæðinu í september. — Reuters
Örn Arnarson ornarnar@mbl.is Verðbólga á evrusvæðinu var 3% á ársgrundvelli í september og hefur hún ekki mælst meiri frá því í október árið 2008. Um er að ræða umtalsverða aukningu milli mánaða, en verðbólgan mældist 2,5% í ágúst.

Örn Arnarson

ornarnar@mbl.is

Verðbólga á evrusvæðinu var 3% á ársgrundvelli í september og hefur hún ekki mælst meiri frá því í október árið 2008. Um er að ræða umtalsverða aukningu milli mánaða, en verðbólgan mældist 2,5% í ágúst. Aukninguna má að stærstum hluta rekja til hækkandi verðlags á fatnaði og á orku. Ljóst er að verðbólgumælingin setur Evrópska seðlabankann í umtalsverðan vanda, en stjórnendur bankans hafa látið í veðri vaka að vaxtalækkun kynni að vera nauðsynleg vegna vaxandi hættu á að evrusvæðið sé að renna inn í nýtt samdráttarskeið. Bankinn tekur í næstu viku ákvörðun um stýrivexti á evrusvæðinu.

Ekki dregið úr væntingum um vaxtalækkun seðlabankans

Fram kemur í umfjöllun Financial Times um verðbólgumælinguna að hún hafi samt sem áður ekki dregið úr væntingum á markaði um að Evrópski seðlabankinn lækki vexti fljótlega, þrátt fyrir að verðbólgan hafi haldist yfir 2% verðbólgumarkmið bankans undanfarin misseri. Bankinn hefur nú þegar hækkað stýrivexti á evrusvæðinu tvisvar í ár, án þess að það hafi slegið á verðbólgu, en fyrr í þessum mánuði lýsti Jean-Claude Triceht, seðlabankastjóri, yfir áhyggjum sínum yfir hagvaxtarhorfum á evrusvæðinu.

Þverrandi slagkraftur

Frá því að seðlabankastjórinn lét þessi ummæli falla hafa hagtölur gefið til kynna að slagkrafturinn í efnahagslífi evrusvæðisins fari þverrandi, auk þess sem að vandamál vegna skuldakreppunnar eru farin að íþyngja raunhagkerfum aðildarríkjanna í vaxandi mæli.