Verkbann Leikmenn NBA-liðanna fást við ýmislegt þessa dagana þegar körfuboltinn er ekki á dagskrá. Steve Nash, hinn reyndi leikstjórnandi Phoenix Suns, er meðeigandi í kanadíska knattspyrnufélaginu Vancouver Whitecaps, sem Teitur Þórðarson þjálfaði til skamms tíma. Nash brá sér á æfingu með Whitecaps og sýndi ágæta tilburði.
Verkbann Leikmenn NBA-liðanna fást við ýmislegt þessa dagana þegar körfuboltinn er ekki á dagskrá. Steve Nash, hinn reyndi leikstjórnandi Phoenix Suns, er meðeigandi í kanadíska knattspyrnufélaginu Vancouver Whitecaps, sem Teitur Þórðarson þjálfaði til skamms tíma. Nash brá sér á æfingu með Whitecaps og sýndi ágæta tilburði. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NBA Gunnar Valgeirsson í Los Angeles gval@mbl.is Forráðamenn NBA-deildarinnar í körfuknattleik tilkynntu um síðustu helgi að æfingabúðum og æfingaleikjum liðanna yrðu frestað að minnsta kosti til 15.

NBA

Gunnar Valgeirsson

í Los Angeles

gval@mbl.is

Forráðamenn NBA-deildarinnar í körfuknattleik tilkynntu um síðustu helgi að æfingabúðum og æfingaleikjum liðanna yrðu frestað að minnsta kosti til 15. október vegna verkbanns eigenda í deilu þeirra við stéttarfélag leikmanna. Verkbann eigenda hefur nú staðið í tæplega þrjá mánuði og virðast viðræður þessara aðila hafa strandað á undanförnum tveimur vikum. Ef ekki leysist úr þessum hnút á næstu vikum, mun deildakeppnin ekki hefjast á réttum tíma og það gæti þess vegna leitt til þess að engir leikir færu fram á keppnistímabilinu.

Eigendur NBA-liðanna halda því fram að síðasta samkomulag þeirra við stéttarfélag leikmanna fyrir sex árum hafi leitt til þess að 23 af 30 liðum deildarinnar hafi tapað samtals 300 milljónum dala á síðasta keppnistímabili – fullyrðing sem leikmenn draga réttilega í efa – og að gera þurfi meiriháttar breytingar á dreifingu tekna deildarinnar, liðunum í hag. Leikmenn telja hinsvegar að núverandi kerfi virki vel og eru nú einungis tilbúnir að samþykkja minni breytingar.

Vilja lækka launin

Eins og staðan er í dag vilja eigendur að leikmenn samþykki stórfellda launalækkun til að bregðast við þessari stöðu. Þeir vilja einnig að reglur um svokallað launaþak liðanna – sem sett er upp til að jafna hversu mikið hvert lið getur greitt leikmannahópi sínum – verði hertar þannig að ekkert lið geti farið upp úr þakinu eins og nú er. Núverandi reglur leyfa liðum að rjúfa þakið með því að borga 100% skatt sem dreift er á hin liðin fyrir hvern dal sem lið eyðir í laun umfram launaþakið. Þetta hefur gert liðunum á stærri sjónvarpsmörkuðunum (s.s. Los Angeles, New York og Chicago) kleift að laða betri leikmenn til sín, en skapað um leið ójöfnuð milli liðanna.

Eigendur ættu að gera betur

Samkvæmt núverandi samningi fá leikmenn 57% af svokölluðum „körfuknattleikstekjum liðanna“ (s.s. af miðasölu, sjónvarpstekjum, búningasölu, bílastæðisgjöldum, og auglýsingatekjum) og þeir hafa þegar samþykkt lækkun á því í 53%.

Leikmenn halda því einnig fram að til að bregðast við fjárhagstapi liða, ættu eigendur sjálfir að gera betur í að skipta „sértekjum félaganna“ (t.d. tekjum frá sjónvarpsstöðvum borganna – hér fær Los Angeles Lakers til dæmis þrjá milljarða dala næstu tíu árin fyrir sjónvarpsréttinn frá Time-Warner kapalstöðinni hér í Los Angeles til að sjónvarpa leikjum liðsins hér í borg) til að jafna tekjumun þeirra.

Eigendur í betri stöðu

Eigendur NBA-liðanna eru sjálfsagt í betri stöðu í þessari deilu eins og nú stendur. Þeir hafa lagt til langtímasamning (tíu ár) þar sem núverandi leikmenn myndu halda vel í þær tekjur sem þeir nú hafa, en að hlutfall leikmanna af sameiginlegum „körfuknattleikstekjum“ myndu minnka verulega eftir því sem á samningstímabilið liði. Þessi tillaga er augljóslega gerð í þeim tilgangi að fá þá leikmenn sem vilja standa fast á að halda í núverandi kerfi, að hugsa til þess að fórna kannski stórum fjárhæðum í launamissi til að vernda leikmenn framtíðarinnar – jafnvel þá sem nú eru í barnaskóla.

Án launa í allt að ár

Verkbann eigenda skaðar eigendur einnig minna en leikmenn. Leikmenn verða nú án launa í nokkrar vikur eða mánuði – jafnvel heilt ár. Eigendur sögðu hinsvegar upp stórum hluta starfsfólks síns eftir lok síðasta keppnistímabils og bera mun minni kostnað á meðan engir leikir fara fram.

Þeim er einnig lofað hluta af sjónvarpstekjum þótt engir leikir fari fram.

Vegna stutts starfsferils leikmanna (fimm ár að meðaltali) munu þeir tapa hlutfallslega meira eftir því sem þessi deila dregst á langinn. Þeir eru einnig undir meiri þrýstingi frá auglýsendum og umboðsmönnum að hefja leik sem fyrst að nýju. Á endanum mun sjálfsagt koma upp spenna milli þeirra leikmanna sem eru þegar orðnir fjárhagslega vel stæðir (s.s. Kobe Bryant og Tim Duncan) og þeirra sem horfa fram á stórfellt fjárhagstap á stuttum ferli.

Samstaða fram í nóvember?

Undirritaður hefur verið spurður nokkuð um þessa stöðu af vinum hér vestra og ef ég þekki rétt til leikmanna mun verða erfiðara og erfiðara fyrir forráðamenn stéttarfélags þeirra að halda einingu meðal þeirra eftir því sem yngri leikmenn missa af fleiri kaupávísunum. Sú staða kemur hinsvegar ekki upp fyrr en í nóvember, þannig að búast má við að leikmenn standi vel saman þar til þá.

Eigendur eru því hér í mun betri stöðu til að takast á við frestun á byrjun keppnistímabilsins. Ef leikmenn standa hinsvegar saman og gefa ekki eins mikið eftir og flestir eigendur vilja, standa eigendurnir einnig frammi fyrir erfiðari stöðu.

Á meðan eru áhangendur NBA-boltans eins og börn fullorðinna í sambandsslitum. Þeir vilja bara að mamma og pabbi hætti að slást!

Stjörnurnar til Evrópu?

Nú er spurning hvort margir leikmenn NBA-liðanna ganga tímabundið til liðs við körfuboltafélög í Evrópu á meðan allt er í hnút vestanhafs. Í gær skýrði ítalska félagið Bologna frá því að það hefði náð munnlegu samkomulagi við sjálfan Kobe Bryant, leikmann Los Angeles Lakers, um að leika með liðinu á meðan verkfallið í NBA-deildinni stendur yfir.

Að sögn Associated Press-fréttastofunnar mun Kobe fá 3 milljónir dollara fyrir samning sem gildir í 40 daga en sú upphæð jafngildir 353 milljónum íslenskra króna.

Bryant dvaldi mikið á Ítalíu sem krakki og talar ítölsku en faðir hans, Joe Bryant, lék með ítölsku liðunum Rieti, Reggio Calabria, Pistoia og Reggiana á árunum 1984-91.