Jóhanna Í Kastljósi.
Jóhanna Í Kastljósi. — Morgunblaðið/Ómar
Símatímar útvarpsstöðva hafa undanfarið einkennst af fádæma dónaskap of margra sem þangað hringja. Það er eins og hinn almenni borgari líti á það sem staðfastan rétt sinn að ausa svívirðingum yfir aðra.

Símatímar útvarpsstöðva hafa undanfarið einkennst af fádæma dónaskap of margra sem þangað hringja. Það er eins og hinn almenni borgari líti á það sem staðfastan rétt sinn að ausa svívirðingum yfir aðra. Þannig eru ákveðnir þingmenn Sjálfstæðisflokks kallaðir glæpamenn, stuðningsmenn Evrópusambandsins eru landráðamenn og ríkisstjórnin er upp til hópa hyski. Svo fáein dæmi séu tekin.

Fjölmiðlafólk sem stýrir þessum símaþáttum er ekki duglegt við að stoppa þetta orðbragð, segir kannski: Uss, uss, svona má ekki tala, en það er ekki sérlega mikill strangleiki í tóninum.

Þegar maður frétti að Jóhanna Sigurðardóttir myndi svara spurningum áhorfenda í Kastljósi átti maður satt að segja von á því að þessi fádæma vondi munnsöfnuður myndi blossa upp hjá þeim sem hringdu. En svo varð ekki. Allt fór þetta ljómandi snyrtilega fram. Sumir sem komust að hafa reyndar þann sið að hringja nær daglega í símatíma útvarpsstöðvanna og gátu auðvitað ekki stillt sig um að hringja líka í Kastljósið til að viðra skoðanir sem þeir hafa rætt ótal sinnum áður. En þátturinn fór vel fram, sem er aðalatriðið, og Jóhanna stóð sig vel.

Kolbrún Bergþórsdóttir