<strong>Hljóðupptökur</strong> Vaxhólkarnir fundust í þessari tösku, en hún hefur verið í sama húsinu á Siglufirði frá árinu 1906
Hljóðupptökur Vaxhólkarnir fundust í þessari tösku, en hún hefur verið í sama húsinu á Siglufirði frá árinu 1906
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Róbert B. Róbertsson robert@mbl.is Næstelstu varðveittu hljóðupptökur á Íslandi fundust á Siglufirði í sumar. Upptökurnar eru frá árabilinu 1906-1909, og eru því liðin rúm 100 ár frá því þær voru gerðar.

Sviðsljós

Róbert B. Róbertsson

robert@mbl.is

Næstelstu varðveittu hljóðupptökur á Íslandi fundust á Siglufirði í sumar. Upptökurnar eru frá árabilinu 1906-1909, og eru því liðin rúm 100 ár frá því þær voru gerðar. Jafnframt er talið að á upptökunum sé að finna elstu upptöku af dægurlagi á Íslandi.

Hljóðupptökurnar fundust hjá Theódóri Eggertssyni á Siglufirði, en hann erfði þær, ásamt hljóðupptökutækinu, eftir afa sinn. Afi Theódórs var Theódór Pálsson, en hann og kona hans, Ólöf Þorsteinsdóttir, fluttu til Kanada í kringum aldamótin 1900. Þar eignuðust þau tvö börn, sem dóu í fæðingu. Í kjölfarið fengu þau ótrú á Vesturheimi og fluttu aftur til Íslands og var upptökutæki með í för ásamt vaxhólkum, en lögin voru tekin upp á þá.

Næst er vitað af tækinu í grein sem birtist í Alþýðublaðinu árið 1960. Í greininni er talað um gamlar upptökur frá Siglufirði og þar eru nafngreindir sem flytjendur þeir séra Bjarni Þorsteinsson, Kristján Möller, lögregluþjónn, Þorleifur Þorláksson frá Siglunesi og Ásgrímur Þorsteinsson.

Sigurður Ægisson, prestur á Siglufirði, er maðurinn sem hafði upp á upptökunum og segir hann að leit hafi hafist að upptökunum í tilefni af 150 ára afmæli séra Bjarna Þorsteinssonar.

,,Þegar farið var að huga að undirbúningi 150 ára afmælis sr. Bjarna Þorsteinssonar fyrir tveimur árum, kom í ljós að í Alþýðublaðinu þann 2. og 3. nóvember 1960 var getið um að rödd hans hefði verið til á vaxhólkum,“ sagði Sigurður í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. ,,Í framhaldinu var ákveðið að reyna að finna hólkana. Það var síðan ekki fyrr en tveimur árum eftir að við hófum leit, eða í júní á þessu ári, að upptökurnar, ásamt upptökutækinu, komu í leitirnar.“

Vaxhólkarnir reyndust vera 27 talsins, en á 6 af þeim er að finna upptökur. Á upptökunum heyrist meðal annars maður kveða rímur, sá er talinn vera Þorleifur Þorleifsson frá Siglunesi, og maður að syngja gamanvísur, en það mun vera Kristján Möller, sem var þekktur fyrir slíka iðju. Að lokum heyrist maður syngja bæn og segist Sigurður vera sannfærður um að þarna heyrist rödd séra Bjarna. Sama rödd syngur síðan lagið Það liggur svo makalaust ljómandi á mér og segir Sigurður að talið sé að þarna sé komin elsta upptaka af dægurlagi á Íslandi.

Búið er að gera afrit af upptökunum, en Árnastofnun hefur vaxhólkana til varðveislu.

UPPTÖKUTÆKNIN

Hljóðritinn er frá 1877

Árið 1877 fann bandaríski uppfinningarmaðurinn Thomas Alva Edison upp hljóðritann. Sú tækni var síðan þróuð frekar og ekki leið á löngu uns smíðuð voru hljóðritunartæki þar sem notaðir voru vaxhólkar til upptöku og afspilunar. Þessi tækni hafði mikil áhrif á menningu og daglegt líf um heim allan. Undir lok 19. aldar hófst fjöldaframleiðsla á þessari tegund hljóðritunartækja, sem byggð er á vaxhólkatækninni.

Elstu varðveittu hljóðrit, sem gerð voru hér á landi, eru frá árinu 1903, en það ár hóf Jón Pálsson merkilegt brautryðjandastarf við að hljóðrita á vaxhólka ýmiss konar efni sem hann taldi til menningarverðmæta.