Í áramótaávarpi sínu 1965 sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra: „Við, sem höfum séð dýrðarhjúpinn falla af manninum með geitarostinn og þúsund ára ríkið verða að brunarústum, vitum, að þrátt fyrir allt, sem á skortir, þá erum við samt á...

Í áramótaávarpi sínu 1965 sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra: „Við, sem höfum séð dýrðarhjúpinn falla af manninum með geitarostinn og þúsund ára ríkið verða að brunarústum, vitum, að þrátt fyrir allt, sem á skortir, þá erum við samt á réttri leið, þeirri leið, sem liggur til farsældar íslensku þjóðarinnar.“

Allir þekkja þúsund ára ríki Hitlers. En hver var maðurinn með geitarostinn? Hann var Jósep Stalín, einræðisherra Ráðstjórnarríkjanna, sem Krústsjov afhjúpaði eftirminnilega í leyniræðu sinni á útmánuðum 1956 við lítinn fögnuð íslenskra stalínista. Sú saga gekk, að eina nesti Stalíns út í heiminn hefði verið geitarostur.

Jóhannes úr Kötlum kvað 1943 um Stalín, þar sem hann sat í Kremlkastala að kvöldlagi og lagði á ráðin um stríðsreksturinn:

En inn um gluggann sérðu rólegt

andlit vökumanns;

Þar situr Jósef Dzhúgashvílí,

sonur skóarans.

Þar situr hann, er ungur valdi

einn hinn þyngsta kost,

og lagði út í þennan heim

með lítinn geitarost.

Stalínistinn Gunnar Benediktsson skrifaði bók um átrúnaðargoð sitt, Bóndinn í Kreml , sem kom út sama dag og fimmta þing Sósíalistaflokksins var sett 8. nóvember 1945. „Persónuleg saga Stalíns er helst þess eðlis,“ sagði Gunnar þar, „að Friðrik Hallgrímsson dómprófastur gæti auðveldlega sagt hana börnum sem dæmi þess, hvað hægt er að komast áfram í heiminum með iðjusemi og trúmennsku.“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is