Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir
Eftir Vigdísi Hauksdóttur: "Íslenskir Evrópusambandssinnar standa rökþrota gagnvart þeirri staðreynd að landsmenn vilja ekki sjá að ganga í Evrópusambandið."
Illa er komið fyrir mínum gamla góða samvinnuskóla í meðförum doktors Eiríks Bergmanns í Fréttatímanum helgina 4.-6. nóvember sl. Eiríkur Bergmann er dósent og forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst og titlar sig svo í greinarskrifum sínum umrædda helgi. Háskólinn á Bifröst ber því ábyrgð á Evrópusambandssinnanum sem sakar íslenskan stjórnmálaflokk um hatur á útlendingum. Eftirtektarvert var að á þeirri fréttasíðu sem Eiríkur lagði undir sig þessa helgi og var nr. 46 – þá var einmitt auglýsing frá Háskólanum á Bifröst. Velkomin á Bifröst – nýir tímar í fallegu umhverfi. Þetta er einstök tilviljun – ef um tilviljun er að ræða – hallast ég heldur að því að Bifröst hafi fengið þessa auglýsingu ókeypis – á þessum stað í blaðinu út á andlit og skoðanir doktors Eiríks Evrópusambandssinna í gegnum sjóð þann sem sér um að greiða doktornum laun og uppihald í Evrópuáróðrinum. Þau eru ekki beitt Evrópusverðin sem notuð eru til innlimunar Íslands í Evrópusambandið ef þetta er beittasti hnífurinn í skúffunni. Íslenskir Evrópusambandssinnar standa rökþrota gagnvart þeirri staðreynd að landsmenn vilja ekki sjá að ganga í Evrópusambandið. Allt hefur verið reynt, örvæntingin er algjör og spuninn keyrður í botn. Hafa háskólamennirnir doktor Eiríkur og Icesave-drottningin Þórólfur Matthíasson farið þar fremstir. Evrurökin halda ekki, heiftarlega hefur verið ráðist að bændum, hætt er að minnast á hagstætt verð á matarkörfum í ESB-ríkjum, kostnaður við aðlögunarferlið fæst ekki ræddur. Það stendur ekki steinn yfir steini og segja má að rök andstæðinga Evrópusambandsins hafi öll komið fram og ræst. Meira að segja er viðurkennt af erlendum sérfræðingum að ESB ásælist auðlindir okkar fyrst og síðast. Evrópusambandssinnar hafa æst sig máttlausa hingað til yfir þessum staðreyndum og harðneitað þeim. Fólk er ekki fífl, doktor Eiríkur Bergmann. Þið Evrópusambandssinnar eruð orðnir svo þjáðir af örvæntingu vegna þess að þið vitið jafn vel og við Evrópusambandsandstæðingar að af inngöngu Íslands í ESB verður aldrei. Þið eruð því farnir að gera mistök í örvæntingu ykkar – eða við skulum segja – þið notið öll meðul. Grein þín í Fréttatímanum liðna helgi er til marks um það – að grípa til þeirra bragða sem þú notaðir þar – ætti að vera ástæða til að vísa þér úr starfi í Háskólanum á Bifröst. Þar ferðu yfir öfgahreyfingar í Evrópu og á Norðurlöndunum og lýsir hatri þeirra á innflytjendum. Þú ferð einnig yfir hin hræðilegu Úteyjarmorð og berð þetta svo allt saman við Framsóknarflokkinn og telur hann hafa breyst í þessa átt hin allra síðustu ár. Ég fyllist viðbjóði, doktor Eiríkur, á samlíkingunni og afþakka slíkar samlíkingar fyrir mína hönd og framsóknarmanna allra. Ég skora á skólastjórn Háskólans á Bifröst og rektor skólans að fara yfir hegðun doktors Eiríks sem starfsmanns ríkisstyrkts háskóla. Ekki doktorsins vegna – heldur vegna orðstírs Háskólans á Bifröst.

Höfundur er lögfræðingur og alþingismaður Framsóknarflokksins í Reykjavík.