„Þessi tengsl við náttúruna hafa alltaf verið til staðar, virðingin fyrir náttúrunni, enda veit ég hvað hún getur auðveldlega drepið mann,“ segir Sigurður.
„Þessi tengsl við náttúruna hafa alltaf verið til staðar, virðingin fyrir náttúrunni, enda veit ég hvað hún getur auðveldlega drepið mann,“ segir Sigurður. — Morgunblaðið/Einar Falur
„Bókmenntatexti er vefnaður, þessi bók er vefnaður,“ segir Sigurður Pálsson um nýja bók sína, Bernskubók. Í henni fjallar Sigurður um uppvöxt sinn á Skinnastað í Axarfirði og er skynjun barnsins mikilvægur þáttur í verkinu. Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is
Bernskubók Sigurðar Pálssonar hefst á svipmynd af pilti sem ræðst í það verk í handavinnu að saga út Ísland úr krossviði. Það tók hann veturinn að saga vestur fyrir land og dag var tekið að lengja þegar hann var kominn inn á Norðurland og hann braut ekki sagarblað fyrr en í Axarfirði, „fyrir algjöran klaufaskap þegar ég leit uppúr verkinu, horfði út um gluggann og hugsaði: ég er að saga hérna útifyrir og sveigði blaðið ógætilega um leið“.

Sigurður fæddist í Öxarfirði, eða Axarfirði eins og hann segir, á Skinnastað þar sem faðir hans var prestur. Það var hitabylgja þennan júlídag, eins og lesendur fræðast um í frásögn þar sem fjallað er um bernskuna og uppgötvanir barnsins; uppvöxtinn til fjórtán ára aldurs í tiltölulega afskektri sveit fyrir norðan. Þá hélt Sigurður í skóla suður til Reykjavíkur og hvörf urðu í sögu hans.

„Þetta er vefnaður,“ segir Sigurður þegar hann er spurður um efni Bernskubókar , en hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2007 fyrir Minnisbók sem fjallar um námsár hans í Frakklandi. “Mér fannst merkilegt að átta mig á því að texti er af sömu rót og orðið textíll - textus á latínu. Bókmenntatexti er vefnaður, þessi bók er vefnaður. Eitt af einkennum bókarinnar eru tengsl og tengingar, ég reyni að tengja. Tengja hið smáa einhverju stærra, jafnvel hinu allra stærsta, tengja eitt atvik alheiminum, og allt þar á milli. Tenging er lykilorðið.“

Foreldrarnir magnaðar persónur

Í bókinni bregður Sigurður upp myndum frá uppvexti sínum, með eldri systkinum og foreldrunum Páli Þorleifssyni og Guðrúnu Elísabetu Arnórsdóttur.

„Hvorugt foreldra minna var Þingeyingur og pabbi hafði aldrei komið í Þingeyjasýslur þegar hann kom í fyrsta skipti norður sem prestur, árið 1926. Þessi fjarlægð í tíma er svo furðuleg því pabbi var fimmtugur þegar ég fæddist og mamma 43 ára. Hvaðan var hann að koma 1926? Jú, frá París! Og þar áður var hann í framhaldsnámi í Þýskalandi. Hann hafði sótt um Skinnastað af rælni, ætlaði að vera þar í tvö ár en var í fjörutíu.

Í föðurætt minni eru ekkert nema Skaftfellingar eins langt og rakið verður, og þar endum við í landnáminu á manni sem var Íri, frjáls maður, og hét Ketill fíflski. Hann var kallaður það vegna þess að hann var kristinn, það fannst norrænu snillingunum frekar fíflalegt,“ segir Sigurður og brosir.

„Mamma var hins vegar Borgfirðingur og ýmislegt fleira gott. Þau giftu sig á Alþingishátíðinni 1930, mamma flutti norður og þar var þeirra líf. Foreldrar mínir voru bæði magnaðar persónur, passlega ólík og hentuðu vel hvort öðru. Og ákaflega góðir kennarar bæði tvö, ekki bara pabbi en hann var annálaður kennari. Þó svo að ég hafi ekki verið í skóla fyrr en ég kom í landspróf í Reykjavík 14 ára, þá fékk ég frábæra einkakennslu hjá þeim heima. Þess utan var ég tvisvar hálfan vetur í skólanum í Lundi og þar voru líka afburða kennarar, Arnþrúður mágkona mín og Lína í Seli.“

Öll börn eru listamenn

Það hefur aldrei verið á stefnuskrá Sigurðar Pálssonar að skrifa ævisögu. Minnisbók er um minnið, segir hann, en hér tekst hann á við bernskuna.

„Það er skrítin reynsla að marinerast svona lengi í þessu viðfangsefni,“ segir Sigurður hugsi. „Ég er að reyna að finna sjónarhorn barnsins; þegar ég fann það fóru hlutirnir að ganga upp. Þá fór ég að endurlifa. Skynjun barnsins er mikilvægur þáttur í verkinu, öll börn eru listamenn, þau hafa einhvers konar skáldlega skynjun. Ég er mikið að fjalla um skynjunina og hvernig hún mótast. Skynjun á ekki minni hlutum en höfuðskepnunum eins og þær birtast barninu og síðan tungumálinu.

Mig minnir það það hafi verið hið magnaða portúgalska skáld, Fernando Pessoa, sem sagði eitthvað á þessa leið: Í lífinu er skynjunin eini raunveruleikinn, í listum er vitund um skynjun eini raunveruleikinn. Það er mikill munur á þessu.

Með þessu ferðalagi aftur í bernskuna má segja að höfundurinn sé að reyna að átta sig á þessari vitund um skynjun. Fyrst fer barnið að nota skynfærin en síðan öðlast það vitund um skynjun. Þá fyrst verður til einhver einstaklingsvitund. Það er vitundin um náttúruna í sinni víðustu merkingu, um vatnið, eldinn, loftið, jörðina, og síðan tungumálið. Ekki bara tungumálið heldur þann vefnað sem býr okkur til, allan texta veraldarinnar.“

Sigurður heldur áfram að ræða um veraldartextann og minnist á nálægð Biblíunnar en hún hafi augljóslega verið fyrirferðarmikil í uppvextinum þar eð faðir hans hafði atvinnu af því að koma textum hennar til skila.

„Í okkar menningarheimi er Biblían alls staðar, við vitum ekki alltaf af því. Síðan eru fornbókmenntir okkar undirliggjandi í landslaginu, raunverulegu og huglægu. Þessir textar og tilfinning fyrir tungumálinu eru afar mikilvæg í persónumótuninni.“

Svo fer hann að tala um „skrásetningarbrjálæðið“. Í Bernskubók kemur fram að Sigurður var rétt farin að skrifa þegar hann var farinn að skrá niður allt mögulegt og ómögulegt í umhverfinu: veðurfar, nöfn á öllum kindum á Skinnastað, dagbækur og þeir Arnór Lárus, bróðir hans, skrifuðu greinargerðir um heila uppdiktaða sveit sem var álíka fjölmenn og Axarfjörður. Sigurður fór meira að segja að skrifa líkræður um lifandi sveitunga, en eyddi þeim áður en nokkur komst að því.

„Já, þetta skrásetningarbrjálæði byrjaði snemma,“ segir hann kíminn. „Ég held það sé ekki bara skaftfellskt, samanber Þórbergur Þórðarson frændi minn, heldur séríslenskt. Ég hef á tilfinningunni að hér á landi sé skrásetningarþrá almennari en annarsstaðar. Enda hefur lestur verið meiri almenningseign lengur hér en í öðrum löndum. Hér voru menn stautfærir og párandi einhverjar staðreyndir, skrásetningar á eigin lífi.“

Gullsmiður, listmálari, rithöfundur

Sigurður fjallar um sjóndeildarhringinn eins og hann blasir við frá Skinnastað, „þennan sjóndeildarhring sem mótaði mig, þennan hring sem býr innra með mér til eilífðar,“ sjóndeild innri augna sinna til æviloka.

„Það er langt síðan ég gerði mér grein fyrir því hvað þessi sjóndeildarhringur á Skinnastað hefur mótað mig rosalega sterkt. Þarna eru miklar andstæður. Annarsvegar bullandi gróðursæld, og paradísartenging, og síðan beinlínis vitnisburður um eyðingarafl Jökulsár á Fjöllum, sem eru Sandarnir. Þessi díalektík hefur mótað mig. Það er ekki bara að ég kunni þennan sjóndeildarhring utan að, heldur hefur hann skotið afar djúpum rótum í alla sjálfsverund mína.“

- Drengurinn var rétt kominn til vits þegar hann ákvað hvað hann vildi verða og það var alltaf þrennt: gullsmiður, listmálari og rithöfundur.

„Já, svo langt sem ég man var það ætlunarverkið. Fimm ára man ég fyrst eftir þessu. Hvernig það mótaðist er mér hulið. Þetta þrennt varð mantra, byrjaði alltaf á gullsmið! Þetta var alltaf svarið þegar ég var spurður hvað ég ætlaði að verða. Það var ekki fyrr en séra Sigurbjörn Einarsson læddi nýrri spurningu inn, hvort ég ætlaði að verða prestur eins og pabbi, sem ég fór að efast. Eða sá eftir því að hafa ekki gripið öngulinn sem hann rétti mér.“

Í fjölskyldu Sigurðar voru málarar nærtækar fyrirmyndir, en gullsmiður eða rithöfundur?

„Ef barn þarf að hafa einhverjar fyrirmyndir til að láta sér detta svona í hug, þá var listmálarinn tiltölulega augljós fyrirmynd. Jón Þorleifsson bróðir pabba var listmálari og í móðurætt var Þórarinn B. Þorláksson bróðir afa. Þar fyrir utan var Sveinn Þórarinsson úr næstu sveit og úr hinni sveitinni Kristján Friðriksson og málverk eftir báða voru heima.

Rithöfundur? Ég vissi af Þórbergi frænda mínum, en ég vissi reyndar ekki af Helga Hálfdanarsyni í móðurætt, þó hann væri á Húsavík. Það var ekki fyrr en hann stoppaði mig á götu og ávarpaði mig: Sæll frændi! Ég er ekkert tiltakanlega vel að mér í ættfræði.

Gullsmiður? Hef ekki hugmynd. Kannski var það það vegna þess að ég heillaðist sem barn af víravirki, af gulli sem var búið að vinna svona rosalega eins og í skautbúningi mömmu.

Á táningsárunum reyndi að hugsa sem minnst um þetta. Í menntaskóla byrjaði ég að yrkja ljóð en það hafði ég hafði aldrei gert áður, ég skrifaði aldrei ljóð í bersku minni. Einungis prósa, heilu bálkana, og svolítið af leikritum. Síðar var það meðvituð ákvörðun að læra leikhúsfræði því ég vildi skrifa fyrir leikhús. Þá var þessi sirkus farinn af stað.“

Náttúran getur allt

Bókinni lýkur þegar Sigurður heldur til Reykjavíkur og sest þar á skólabekk, 14 ára gamall. Þar urðu afgerandi skil - hann steig inn í annan heim.

„Og mig langaði ekki aftur norður,“ segir hann. „Ég fór einn suður í Hagaskóla, bjó reyndar í sama húsi og bróðir minn og var með herbergi hjá tengdarforeldrum hans þannig að ég ver ekki aleinn í veröldinni, en foreldrar mínir voru ennþá fyrir norðan þar til ég var á síðasta ári í Menntaskólanum. Þá strax og ég kom hingað til Reykjavíkur var ég í raun farinn þaðan, þó ég væri heima á sumrin. Síðan hef ég aldrei búið í sveit.“

En sveitin er með honum.

„Nákvæmlega. Mér nægir að labba út í garð í Hlíðunum til að tengja mig við náttúruna – einhvern veginn þekki ég hana svo vel, finn svo sterk hughrif, kannski bara frá einu tré, það getur nægt til þess að ég verði hrærður.“

Sigurður segir að sem skáld hafi náttúran sem hann kynntist sem barn fylgt honum, borgarskáldinu, „hún hverfur ekki,“ segir hann.

„Þessi tengsl við náttúruna hafa alltaf verið til staðar, virðingin fyrir náttúrunni, enda veit ég hvað hún getur auðveldlega drepið mann.“

Þar vísar hann í frásögn af því þegar hann sem drengur var nánast orðinn úti.

„Það er mjög sterk skynjun að næstum verða úti í norðaustan báli, á ekkert óhóflega langri leið neðan úr fjárhúsum og heim. Veðrið brestur á með ólýsanlegu afli, hótar að drepa þig. Náttúran getur allt.“