Stundum er eins og menn fái ekki flúið meinleg örlög, sem þeim eru búin og þeir hafa jafnvel sjálfir grun um. Eru mörg dæmi þess í Íslendinga sögum. En þetta gerist líka á okkar dögum. Umberto I., konungi Ítalíu, var sýnt banatilræði í nágrenni Rómar...

Stundum er eins og menn fái ekki flúið meinleg örlög, sem þeim eru búin og þeir hafa jafnvel sjálfir grun um. Eru mörg dæmi þess í Íslendinga sögum. En þetta gerist líka á okkar dögum.

Umberto I., konungi Ítalíu, var sýnt banatilræði í nágrenni Rómar 22. apríl 1897. Hann mælti þá af karlmannlegu æðruleysi: „È un incidente del mestiere.“ Þetta fylgir starfsgreininni. En þremur árum síðar, 29. júlí 1900, vó bandarísk-ítalski stjórnleysinginn Gaetano Bresci konung. Þetta fylgdi vissulega starfsgreininni.

Víkur þá sögunni til Íslands. Eitt kunnasta kvæði Sigurðar Sigurðssonar frá Arnarholti heitir „Í dag“. Það var ort árið 1912 og er um gamalkunnugt stef, fallvaltan auðinn. Eitt erindið hefst á þessum orðum:

Í dag er ég ríkur — í dag vil ég gefa

demanta, perlur og skínandi gull.

Upphaf annars erindis hljóðar svo:

Í dag er ég snauður og á ekki eyri,

ölmusumaður á beiningaferð.

Þetta kvæði lýsir einkennilega óliðinni ævi skáldsins sjálfs. Hann var næsta áratug efnaður lyfsali í Vestmannaeyjum, en síðar fátækur drykkjumaður í Reykjavík.

Ekki verður heldur annað sagt en Lev Trotskíj hafi reynst sorglega sannspár, þegar hann sagði 1936 beisklega um Josíf Stalín: „Hann reyndi ekki að ráðast á hugmyndir andstæðinga sinna, heldur hauskúpur.“ Stalín sendi flugumann að nafni Ramon Mercador á heimili Trotskíjs í Mexíkó, þar sem hann hafði leitað hælis, og hjó Mercador í höfuð honum með exi, svo að hann hlaut bana af.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is