Svín að störfum Málefni svínabúa hafa verið fyrirferðarmikil í fréttum að undanförnu, meðal annars vegna úrskurðar eftirlitsaðila með samkeppnismálum.
Svín að störfum Málefni svínabúa hafa verið fyrirferðarmikil í fréttum að undanförnu, meðal annars vegna úrskurðar eftirlitsaðila með samkeppnismálum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Eigendur svínabúsins að Brautarholti fara fram á að Samkeppniseftirlitið beiti sér fyrir opinberri rannsókn á yfirtöku Stjörnugríss á búinu • Saka Arion banka um að hafa keyrt búið í þrot og heimilað Stjörnugrís hf.

• Eigendur svínabúsins að Brautarholti fara fram á að Samkeppniseftirlitið beiti sér fyrir opinberri rannsókn á yfirtöku Stjörnugríss á búinu • Saka Arion banka um að hafa keyrt búið í þrot og heimilað Stjörnugrís hf. að slátra bústofninum í Brautarholti þrátt fyrir að samruninn væri til skoðunar hjá samkeppnisyfirvöldum • Arion segir að yfirtakan og gjaldþrot búsins hafi verið óumflýjanleg í ljósi erfiðra aðstæðna

Viðtal

Örn Arnarson

ornarnar@mbl.is

Brautholtsbúið, félag í eigu bræðranna Kristins Gylfa, Ólafs og Björns Jónssona, hefur farið fram á það við Samkeppniseftirlitið að opinber rannsókn verði gerð á yfirtöku Stjörnugríss á svínabúinu að Brautarholti af Arion banka sumarið 2010. Ennfremur fara þeir fram á að framkvæmd samrunans verði skoðuð sem og aðgerðir sem gripið var til við rekstur búanna eftir samrunann.

Þeir Brautarholtsbræður bera alvarlegar sakir á Arion. Þeir segja bankann hafa keyrt svínabú þeirra í þrot eftir að hafa tekið fyrirtækið yfir og heimilað Stjörnugrís hf. að slátra bústofninum í Brautarholti þrátt fyrir að samruninn væri til skoðunar hjá samkeppnisyfirvöldum. Auk þess telja þeir einsýnt að þessir aðilar hafi jafnframt verið búnir að semja um hvernig áhættu og fjárhagsuppgjöri skyldi háttað ef samruninn yrði ógiltur eins og raunin varð. Þeir fullyrða ennfremur að í úrskurði Áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 8. nóvember síðastliðnum sé tilvist slíks samkomulags staðfest.

Samkeppninni slátrað með vilja og vitund Arion banka

Bræðurnir segja að með því að skera niður allar gyltur í Brautarholti hafi Stjörnugrís hf. verið að slátra samkeppni frá svínabúinu í Brautarholti og það telja þeir að hafi verið gert með vitund og vilja Arion banka og þar með tryggt algera yfirburði á svínakjötsmarkaðnum hvort sem samruninn gengi eftir eða ekki.

Kristinn Gylfi Jónsson, framkvæmdastjóri Brautarholtsbúsins, segir því farir þeirra bræðra ekki sléttar í samskiptum við Arion. Forsagan er sú að eftir að svínabú þeirra varð gjaldþrota árið 2004 þá hafi viðskiptabanki þeirra, Kaupþing, gert við þá samkomulag um að þeir gætu keypt reksturinn til baka. Það samkomulag var efnt vorið 2008 en þá keyptu bræðurnir búið aftur. Voru kaupin að stærstum hluta fjármögnuð með erlendum lánum frá bankanum. Kaupþing tók veð í fasteignum og bústofni en auk þess tók hann veð í landareignum í eigu fjölskyldunnar í Brautarholti.

Eins og önnur fyrirtæki sem voru með tekjur í krónum á móti erlendum lánum lenti svínabúið í miklum erfiðleikum vegna gengishruns krónunnar á árinu 2008. Að sögn Kristins var upphafleg skuldsetning vegna kaupanna og reksturs búsins tæpar 600 milljónir en um haustið voru skuldirnar komnar yfir 900 milljónir. Lán Kaupþings voru svo færð inn í Arion við skiptingu bankanna tveggja og í ársbyrjun 2010 ákveður bankinn að gjaldfella þau og í framhaldinu tók hann yfir stjórn og daglegan rekstur búsins. Félagið er svo sett í þrot í mars sama ár og í framhaldinu kaupir svo Arion fasteignir og rekstur svínabúsins af skiptastjóra þess.

Stóð ekki til boða sömu úrræði og önnur skuldsett fyrirtæki

Kristinn Gylfi segir að þeim bræðrum hafi ekki staðið til boða nein af þeim úrræðum sem Arion hefur boðið skuldsettum fyrirtækjum eftir hrun áður en það var tekið yfir og sett í þrot. Hann segir að eigendur svínabúsins hafi verið reiðubúnir til þess að leggja því til aukið hlutafé áður en það hafi verið keyrt í þrot en tilboðum um slíkt hafi ekki verið svarað. Greint var frá þessum ásökunum Kristins í Morgunblaðinu í sumar og rétt er að taka fram að í þeirri umfjöllun kom fram að bankinn vísar þeim algerlega á bug. Í yfirlýsingu bankans í tengslum við þá umfjöllun segir orðrétt: „Í raun má gagnrýna bankann og forvera hans um að hafa í of langan tíma fjármagnað taprekstur á viðkomandi svínabúum.“

Þrátt fyrir það stendur Kristinn Gylfi fast á því að þessi yfirlýsing bankans eigi ekki við um svínabúið í Brautarholti og bankinn hafi brotið á þeim bræðrum með yfirtökuna á svínabúinu. Hann bendir á að yfirtakan hafi verið gerð á grundvelli gjaldfellingar á erlendum lánum sem nú hafa verið dæmd ólögleg og segir að svínabúið hefði átt rétt á sambærilegum úrlausnum og mörg önnur fyrirtæki í skuldavanda fengu eftir hrun á borð við Beinu brautina svokölluðu. Kristinn segir að þrátt fyrir að búið hafi ekki þurft á neinni nýrri lánafyrirgreiðslu frá bankanum að halda eftir að það var keypt sumarið 2008 og að eigendurnir hafi verið reiðubúnir að setja 35 milljónir króna inn sem nýtt hlutafé veturinn 2009-2010 í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu hafi Arion ekki verið reiðbúinn til samstarfs.

Segir Arion hafa legið á að yfirtaka svínabúið

Að þessu sögðu segir Kristinn ljóst að bankanum hafi verið í mun að yfirtaka félagið. Aðspurður hvaða hagsmuni bankinn kynni að hafa af því að gera viðskiptavin sem er greiðslufær gjaldþrota bendir Kristinn á tvær útskýringar: Í fyrsta lagi feli samkomulagið sem fjármálaráðherra gerði við kröfuhafa gömlu bankanna um yfirtöku á þeim nýju mikinn hvata til slíkra gerninga. Í tilfelli svínabús þeirra bræðra segir hann augljósan hag fyrir bankana að ganga að fyrirtækinu þar sem miklar eignir hafi verið í spilinu auk verðmætra trygginga utan efnahagsreiknings á borð við þær landareignir sem voru veðsettar á sínum tíma. Í annan stað fullyrðir Kristinn að í ársbyrjun hafi verið tekin ákvörðun í bankanum um að vinna eftir tillögu að bankinn myndi enda snögglega viðskiptasambönd sín við eigendur og rekstraraðila búanna í Brautarholti og á Hýrumel og bjóða síðan þessi bú til sölu í einu lagi og það án seljendaláns. Kristinn telur jafnframt að í raun hafi bankinn ákveðið haustið 2009 að ná til sín eignunum í Brautarholti og halda ekki áfram viðskiptum sínum við þá bræður þrátt fyrir að aðeins rúmt ár hafi verið liðið frá því að bankinn fjármagnaði kaup þeirra á búinu. Þetta kom meðal annars fram í því að þrátt fyrir að hafa lagt upp með vel útfærðar tillögur frá ráðgjöfum um fjárhagslega endurskipulagingu á svínabúinu í Brautarholti í nóvember 2009 þá hafi einu tillögur bankans verið að bræðurnir yrðu að koma með nýjar 250 milljónir inn í félagið sem rynnu allar til bankans án þess að hann gæfi upp hve mikið skuldir myndu lækka á móti. Þegar bræðurnir höfnuðu því lækkaði bankinn tillögur sínar niður í 150 milljóna króna framlag. Í raun hefði bankinn alveg eins getað nefnt 500 milljónir. Það var ljóst að þær tillögur sem að mati ráðgjafa okkar voru raunhæfar og á eðlilegum viðskiptalegum forsendum samrýmdust ekki þeim hugmyndum sem bankinn hafði um það hvernig hann kæmi sem best út úr málinu.

Þeir Brautarholtsbræður krefjast ennfremur að Samkeppniseftirlitið rannsaki aðgerðir Stjörnugríss eftir að tilkynnt var um kaup þess. Samkeppniseftirlitið heimilaði ekki undanþágu frá lögum sem banna framkvæmd samruna meðan eftirlitið fjallaði um hann en hinsvegar var tekið fram að heimilt væri að grípa til nauðsynlegra ráðstafana í samræmi við lögbundnar reglur og kröfur Matvælastofnunar og héraðsdýralæknis en ástand búsins var þá sagt mjög bágborið samkvæmt upplýsingum sem borist höfðu Samkeppniseftirlitinu.

Fyrri eigendur Brautarholtsbúsins segja að ástand búsins hafi verið gott þegar bankinn tók það yfir í lok febrúar 2010 og hafi dýralæknar og eftirlitsaðilar staðfest það.

Kristinn Gylfi segir að það sé hinsvegar leitt að vita til þess að eftir að starfsmenn Arion banka voru búnir að reka búið í um fjóra mánuði og þegar Stjörnugrís hf. tekur við búinu hinn 9. júlí sama ár þá sé ástand búsins talið bágborið.

Slátrað í skjóli blekkinga

Eftir að hafa rætt við eftirlitsaðila og fyrrum starfsmenn er störfuðu á þessum tíma á svínabúinu telja bræðurnir ljóst að engar forsendur hafi verið fyrir því að slátra bústofninum út. Stjörnugrís hf. hafi hreinlega vísvitandi blekkt Samkeppniseftirlitið og Matvælastofnun með það að yfirskini að ástand stofnsins væri slæmt og því yrði að slátra honum en um leið náði Stjörnugrís að grafa undan samkeppni skyldi samruninn ekki ná fram að ganga. Þá gagnrýna Brautarholtsbræður Arion banka einnig harðlega fyrir að hafa alls ekki farið eftir tilmælum Samkeppniseftirlitsins frá 12. nóvember 2008 til banka og stjórnvalda um framtíð fyrirtækja á samkeppnismörkuðum. Þar segir m.a.: „Ef tvær eða fleiri ráðstafanir, sem tengjast endurskipulagningu fyrirtækja, koma til greina sé sú leið valin sem eflir samkeppni eða raskar henni minnst.“ Arion banki hf. hafi valið alversta kostinn í stöðunni að mati þeirra bræðra, að selja bæði svínabúin til aðila sem var fyrir með markaðsráðandi stöðu í slátrun svína jafnframt því að vera stærsti svínakjötsframleiðandi landsins.

Að lokum vilja þeir bræður koma því á framfæri að á sama tíma og Arion banki hf. og fleiri fjármálastofnanir voru að aðstoða bændur og búvöruframleiðendur við að halda jörðum sínum og búum í rekstri þannig að ekki yrði röskun á framleiðslu innlendra matvæla þá voru fjölskyldurnar í Brautarholti og á Hýrumel hraktar frá búum sínum.

„Við vitum ekki um önnur sambærileg dæmi og það er ljóst að bændur hafa ekki setið allir við sama borð,“ segja þeir bræður í

í Brautarholti telja að málum þeirra og Arion banka hf. sé fjarri því lokið.

ARION OG BRAUTARHOLTSBÚIÐ

Verklag yfirfarið án athugasemda

Ásakanir Brautarholtsbræðra voru bornar undir Arion banka sem sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu um málið: „Arion banki starfar samkvæmt verklagsreglum við endurskipulagningu fyrirtækja. Eftir þeim reglum var farið við yfirtöku svínabúanna að Brautarholti og Hýrumel í Borgarfirði. Eftirlitsnefnd með sértækri skuldaaðlögun hefur yfirfarið verklag bankans í þessu tiltekna máli án athugasemda.

Í verklagsreglum bankans felst m.a. að lífvænleg félög fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og unnið er með eigendum félaganna hafi þeir verðmæti fram að færa til rekstrarins og njóta trausts. Hins vegar hefur bankinn í undantekningartilfellum þurft að yfirtaka félög vegna mjög svo erfiðrar stöðu þeirra.

Á þeim tíma er umrætt félag var tekið yfir var hin svokallaða Beina braut ekki komin til sögunnar. Hins vegar vann Arion banki að endurskipulagningu fjölda fyrirtækja samkvæmt verklagsreglum bankans sem síðar urðu grunnurinn að Beinu brautinni. Rekstur svínabúanna og skuldastaða var með þeim hætti að félagið var ekki talið lífvænlegt, óháð því hvort lán þess voru í erlendri mynt eða íslenskum krónum.

Það er ekki ætlun né vilji Arion banka að reka svínabú, yfirtakan og gjaldþrot var óumflýjanlegt í ljósi erfiðra aðstæðna. Bankinn seldi umrædd bú eins fljótt og auðið var og í góðri trú. Búin voru seld eftir lokað útboð þar sem öllum þeim aðilum sem þekkingu höfðu á svínarækt hér á landi bauðst að gera tilboð. Ekki barst tilboð í eignirnar frá fyrrverandi eigendum. Í upphafi hlaut sala bankans á svínabúunum til Stjörnugríss samþykki Samkeppniseftirlitsins, en þeirri ákvörðun var á síðari stigum snúið við.

Arion banki getur ekki tjáð sig um einstök atriði í samskiptum starfsmanna bankans við fyrri eigendur svínabúanna né um einstök atriði er snerta rekstur svínabúanna fyrir yfirtöku bankans.“