Átök Bók Sigurðar Más Jónssonar varpar ljósi á Icesave-málið.
Átök Bók Sigurðar Más Jónssonar varpar ljósi á Icesave-málið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigurð Má Jónsson. Almenna bókafélagið, 239 bls. ób.

Átökin um hvort íslenskir skattgreiðendur ættu að ábyrgjast Icesave-innistæður Landsbankans eru án efa þau hatrömmustu á seinni tímum, enda hefði ríkisábyrgðinni fylgt stjarnfræðileg skuldsetning íslenska ríkisins í erlendri mynt og hefðu til að mynda vaxtagreiðslurnar vegna fyrsta samningsins að öllum líkindum leitt til greiðslufalls fyrr frekar en síðar. Að ekki sé minnst á aðra áhættuþætti á borð við gengis- og endurheimtuáhættu sem hefði getað aukið kostnað ríkisins vegna samningsins um hundruð milljarða, fyrir utan grundvallarspurningar á hvaða lagalegu skyldu ríkisábyrgðin átti að hvíla.

Eins og glöggt kemur fram í ágætri bók Sigurðar Más Jónssonar þá virðast þeir sem véluðu um málið fyrir Íslands hönd í fyrstu formlegu samningaviðræðunum við bresk og hollensk stjórnvöld aldrei hafa áttað sig á hversu miklir hagsmunir lágu undir fyrir þjóðarhag. Jafnvel er hægt að draga þá ályktun af lestri bókarinnar að þeir Svavar Gestsson, formaður fyrstu íslensku samninganefndarinnar, og Indriði G. Þorláksson, sem lék lykilhlutverk í samningaviðræðunum, hafi yfirhöfuð ekki kært sig um að átta sig á hvaða hagsmunir voru í húfi fyrir íslensku þjóðina og skeyttu lítt um að halda uppi vörnum í viðræðunum. Hafi þekking á því verið til staðar innan fyrstu samninganefndarinnar sá Svavar til þess, samkvæmt frásögn Sigurðar, að nefndarmenn gátu ekki áttað sig á þeirri heildarmynd sem búið var að draga upp og gátu þar með ekki afstýrt þeim afglöpum sem menn gerðust sekir um.

Ennfremur virðist hin pólitíska forysta látið málið sig lítið varða. Steingrímur J. Sigfússon, fjár-málaráðherra, virðist alfarið hafa treyst hæfileikum Svavars til þess að leysa úr flóknum milliríkjadeil-um. Jóhanna Sigurðardóttir, for-sætisráðherra, lét málið sig nánast ekkert varða og setti sig aldrei inn í þá afleitu samninga sem gerðir voru fyrir Íslands hönd.

Flestir þekkja þessa sögu ágæt-lega og sumir jafnvel betur en þeir kæra sig um. Bók Sigurðar Más varpar hinsvegar heildarsýn á fram-göngu málsins og er hún dregin upp með þeim vandaða hætti sem hafa einkennt störf höfundar til þessa í blaðamennsku. Þessi sýn er því mið-ur nöturleg enda er framganga stjórnvalda í málinu gjörsamlega óskiljanleg. Undirtitill bókarinnar er „afleikur aldarinnar“ og þar ekki of sterkt að orði kveðið. Bók Sigurðar vekur upp fleiri spurningar en hún svarar enda eru ekki enn öll kurl komin til grafar í þessu ömurlega máli. Hinsvegar er nauðsynlegt að svör fáist á endanum við þeim áleitnu spurningum sem vakna upp við lesturinn og bók Sigurðar því ágætis upphafsstef að umræðu sem brýn nauðsyn er að fari fram.

Örn Arnarson