Kossaflens Ástin blossar oft á fjöllum og hér kyssast hjónin innilega.
Kossaflens Ástin blossar oft á fjöllum og hér kyssast hjónin innilega. — ljósmyndir/Þórður Ingi Marelsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hreyfing og fjallgöngur hafa alla tíð verið lífsstíll hjónanna Þórðar Inga Marelssonar og Fríðar Halldórsdóttur. Þau hafa margoft gengið á helstu fjöll í nágrenni Reykjavíkur og búa við Esjurætur.

Hreyfing og fjallgöngur hafa alla tíð verið lífsstíll hjónanna Þórðar Inga Marelssonar og Fríðar Halldórsdóttur. Þau hafa margoft gengið á helstu fjöll í nágrenni Reykjavíkur og búa við Esjurætur. Þórður Ingi er jógakennari og nuddari og Fríður íþrótta- og heilsufræðingur. Þau samtvinna þetta og reynslu sína í fjallaferðum Fjallavina sem hefja munu göngur á fjöll í byrjun næsta árs.

María Ólafsdóttir

maria@mbl.is

Hjónin Þórður Ingi Marelsson og Fríður Halldórsdóttir hafa séð um skipulagðar gönguferðir fyrir hópa frá árinu 2007, en þau eru líka dugleg að fara með fjölskylduna í bæði hjóla- og gönguferðir.

Jóga og nudd á fjalli

„Ég segi nú gjarnan að það eru ekki einungis fjöllin sem fólk sækist eftir heldur líka samneytið við annað fólk. Við reynum því að stilla okkar gönguferðum upp út frá því að þetta sé félagslegt, skemmtilegt og heilsueflandi. Ég sem jógakennari og nuddari nota líka þá tækni og blanda jóga og nuddi inn í gönguferðirnar. Þegar lagt er af stað eða komið niður eru axlirnar teknar og slípaðar til og menn eru sem nýir á eftir,“ segir Þórður Ingi. Þau hjónin sáu um hópferðir fyrir Ferðafélagið í nokkur ár en ákváðu um mitt ár að stofna sitt eigið fyrirtækið. Það kallast Fjallavinir og mun hefja starfsemi í byrjun næsta árs en þar munu Þórður Ingi og Fríður leiða fólk í heilsubætandi fjallgöngur.

Tekið föstum tökum

„Við ætlum okkur að hafa göngurnar tvískiptar. Annars vegar verðum við með hóp sem við köllum Fjöllin okkar. Við áætlum að sá hópur gangi á rúmlega 50 fjöll en þeirra á meðal eru fjöll eins og Úlfarsfell, Akrafjall, Grímmannsfell og Hvannadalshnjúkur. Aðaláherslu leggjum við á fjöll sem þægilegt er að komast á í næsta nágrenni við borgina. Við hugsum þetta þannig að fólk geti byrjað í janúar, trappað sig upp og strax í maímánuði ætti fólk að vera tilbúið að fara á Hvannadalshnjúk ef þetta er tekið föstum tökum og menn gera samning við sjálfa sig um að þetta sé forgangurinn og það sem þeir ætli að gera. Þeir sem voru að byrja í hópunum hjá okkur litu á það sem fjarlægt takmark að komast á þessi stærri fjöll en fljótlega er fólk farið að biðja um meira. Hinn hópurinn áætlum við að fari af stað í febrúar og gangi á ein 18 fjöll. Sá hópur verður ætlaður reyndara göngufólki og ef veðrið verður gott mun fólki gefast kostur á að ganga hraðar með fremsta manni á meðan hinir fara hægar. Annars reynum við yfirleitt að hafa gönguhraðann tiltölulega hægan og rólegan. Í lok maí mun 18 fjalla hópurinn síðan halda í þriggja daga ferð inn í Skaftafell. Þar verður farið á skemmtilega staði þó það séu ekki endilega hæstu fjöllin,“ segir Þórður Ingi. Þau hjónin hafa sjálf margoft klifið fjöllin í kringum Reykjavík en hafa einnig fengið til liðs við sig reyndan mannskap af þeim svæðum sem þau þekkja minna til. Þórður Ingi segir útivist og hreyfingu vera ákveðna tröppu. Fólk byrji að hreyfa sig og svo fylgi mataræði með. Fríður er íþrótta- og heilsufræðingur og leggur mikla áherslu á heilsueflingu, gott mataræði, hreyfingu og góðar teygjur. Þórður Ingi leggur líka áherslu á heilsan sé betri ef fólk hreyfi sig reglulega og brosi almennt meira af því að draga í sig fjallaloftið. Það er því kannski ekki að undra að ástin kvikni stundum á fjöllum. „Fríða vill alltaf vera að kyssa mig á fjöllum og þetta smitar út frá sér,“ segir Þórður Ingi í léttum dúr og bætir við að lundarfar fararstjóra skipti miklu máli. Það sé mikilvægt að góður andi og góð stemning sé í hópnum.

Konfekt á fjalli

Fyrsta ganga Fjallavina verður farin á Esjuna sunnudaginn 4. desember. Hún er hugsuð sem kynningarganga fyrir þá sem vilja koma og prófa. Öll fjölskyldan getur komið þar saman og verður stutt ganga upp í Esjuhlíðar. Síðan verður nóg af konfekti handa göngugörpunum og nokkrir heppnir munu verða dregnir úr potti og fá konfektkassa með sér heim.

„Það hefur komið fólki skemmtilega á óvart hvað það er í raun og veru gaman að ganga að vetrarlagi. Auðvitað þurfa menn að vera með rétta útbúnaðinn og kynnast aðeins veðrinu. Ganga í vetarfærð er meiri áskorun en á móti kemur að þegar það kemur gott veður, sama hvort það er vetur eða sumar, verða allir svo glaðir að sjá þetta mikla útsýni. Mér finnst einna skemmtilegast að ganga á Esjuna en við búum á Kjalarnesinu rétt við Esjurætur. Ég segi nú stundum að ég skreppi þarna upp til að gá til veðurs á morgnana,“ segir Þórður Ingi og hlær.

Fjölskylda á Laugaveginum

Þau Þórður Ingi og Fríður hafa líka tekið börnin með sér í göngu. Fjölskyldan gekk saman Laugaveginn fyrir nokkrum árum og nú í sumhjóluðu þau yfir Kjöl með þrjá yngstu krakkana sem eru á aldrinum 11-14 ára. Auk þess að ganga á fjöll reyna þau líka að hjóla, fara í ræktina af og til og fara út að ganga með hundinn.

Hægt verður að skoða Fjallavini á Facebook í næstu viku og heimasíða verður opnuð í kringum 10. desember. Kynningarfundur verður síðan 10. janúar og hefst starfsemin nokkrum dögum síðar.