Bjarni Randver Sigurvinsson
Bjarni Randver Sigurvinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Bjarna Randver Sigurvinsson og Pétur Pétursson: "Ástæða er til að gera athugasemd við það hvernig lífsskoðunarfélög eru skilgreind og aðgreind frá trúfélögum í drögum frumvarps til laga."
Á núverandi löggjafarþingi verður lagt fram frumvarp til laga um breytingar á skráningu trúfélaga þar sem samkvæmt fyrirliggjandi drögum verður m.a. heimiluð skráning svonefndra lífsskoðunarfélaga til jafns við trúfélög að uppfylltum vissum skilyrðum. Þessi breyting er fyrir löngu orðin tímabær og ber að fagna henni. Engu að síður er ástæða til að gera athugasemd við það hvernig lífsskoðunarfélög eru skilgreind og aðgreind frá trúfélögum í drögum frumvarpsins.

Öll skráð trúfélög hér á landi eiga það sameiginlegt að (1) byggja á siðferði og lífsskoðunum, (2) tengja megi þau við þekkt hugmyndakerfi í heimspeki og siðfræði, (3) miða starfsemi sína við siðferðisgildi og mannrækt, (4) eiga sér sögulegar eða menningarlegar rætur, (5) fjalla um siðfræði og þekkingarfræði með ákveðnum og skilgreindum hætti, (6) bjóða upp á tilteknar félagslegar athafnir og (7) vera lífsskoðunarfélög.

Ekkert af þessu getur talist sérkenni þeirra lífsskoðunarfélaga sem kjósa að skilgreina sig út frá hvers kyns trú og trúarsetningum á forsendum þröngrar túlkunar á trúarhugtakinu. Þrátt fyrir þetta er það að sjálfsögðu fullur réttur lífsskoðunarfélaga sem það kjósa að aðgreina sig frá hvers kyns trú í þrengri skilningi þess hugtaks.

Í trúarbragðafræðum er það algengt sjónarmið að flokka skuli hvers kyns skipulagðar hreyfingar sem trúarlegar sem taka afstöðu til trúarlegra viðfangsefna á borð við tilvist Guðs og handanveruleika og tilgang lífsins. Í þessu sambandi skiptir ekki máli hvort sú afstaða er jákvæð, neikvæð eða í formi efahyggju, aðeins ef viðkomandi hreyfingar taka einhvers konar afstöðu til þessara viðfangsefna teljast þær sjálfkrafa trúarlegar enda grundvallist afstaðan á forsendum sem hvorki verða sannaðar né afsannaðar með aðferðum raunvísinda. Af þeim sökum eru samtök guðleysingja á borð við siðræna húmanista flokkuð sem trúarleg í fræðibókum á borð við Encyclopedia of American Religions eftir bandaríska trúarbragðafræðinginn J.G. Melton en ritverk hans um þessi efni hafa verið kennd í áraraðir í trúarbragðafræðum við guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ. Þess eru líka dæmi að slík félög guðleysingja skilgreini sig sem trúarleg og hafi notið þeirra réttinda sem því fylgja í einstökum ríkjum Bandaríkjanna.

Trúarbragðafræðingar eru þó ekki á einu máli um það hvernig skilgreina beri trúarhugtakið og er sömu sögu að segja af fjölda hreyfinga sem kenndar hafa verið við trúarbrögð í trúarbragðafræðum. Þannig eru menn ekki á einu máli hvort t.d. búddismi, hindúismi, jógahreyfingar eða jafnvel sjálfur kristindómurinn séu trúarbrögð. Nauðsynlegt er að lög um skráningu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga taki mið af þessum mismunandi sjálfsskilningi skipulagðra hreyfinga sem sækjast eftir skráningu hér á landi og þeim réttindum sem því fylgja.

Siðmennt hefur a.m.k. tvisvar sótt um skráningu hjá ríkisvaldinu til að öðlast jafna stöðu við skráð trúfélög hér á landi en verið hafnað í bæði skiptin á þeirri forsendu að ekkert í landslögum heimili slíka skráningu lífsskoðunarfélaga yfirlýstra trúleysingja. Auðvelt er að sýna fram á út frá forsendum trúarbragðafræða að Siðmennt geti flokkast sem trúfélag enda hefur hugmyndafræði þess félags, siðrænn húmanismi, bæði sögulegar og menningarlegar rætur meðal trúarbragða mannkyns (sbr. t.d. Melton). Ekkert í núverandi lögum um skráningu trúfélaga ætti heldur að standa í vegi fyrir því að Siðmennt geti hlotið skráningu sem trúfélag. Það er aðeins í greinargerð með lagafrumvarpi núverandi laga sem finna má athugasemd þess efnis að skilgreining hugtaksins trúfélag rúmi ekki lífsskoðunarfélög sem boði trúleysi. Engu að síður eru fordæmi fyrir því að félög sem boði trúleysi í einni eða annarri mynd, einkum búddísk, hafi fengið skráningu á þeirri forsendu að þau leggi að mati ýmissa trúarbragðafræðinga stund á átrúnað eða trú sem tengja megi við trúarbrögð mannkyns sem eigi sér sögulegar eða menningarlegar rætur. Enda þótt það ætti að vera hægðarleikur að veita Siðmennt skráningu trúfélags hér á landi er sjálfsagður hlutur að taka tillit til sjálfsskilnings þess félags að það sé aðeins lífsskoðunarfélag aðgreint frá öllu sem það skilgreinir sem trú.

Þar sem aðgreiningin milli trúfélaga og lífsskoðunarfélaga í drögum þess lagafrumvarps sem nú hefur verið kynnt er gölluð er ástæða til að mæla með eftirfarandi breytingu þar sem 1. mgr. 3. gr. núverandi laga hefur verið sameinuð viðbót draganna: „Skilyrði fyrir skráningu trúfélags eða lífsskoðunarfélags er að um sé að ræða félag sem byggir á siðferði og lífsskoðunum sem taki skilgreinda afstöðu til trúar og trúarsetninga. Þá er það jafnframt skilyrði fyrir skráningu að um sé að ræða félag sem miðar starfsemi sína við siðferðisgildi og mannrækt, á sér sögulegar eða menningarlegar rætur í trúarbrögðum mannkyns eða öðru heimspekilegu hugmyndakerfi og fjallar um siðfræði og þekkingarfræði með ákveðnum og skilgreindum hætti. Það er ennfremur skilyrði að félagið bjóði upp á tilteknar félagslegar athafnir á borð við útfarir, giftingar, nafngjafir og fermingar.“

Bjarni Randver er stundakennari við HÍ og Pétur er prófessor við HÍ.