Um miðja tuttugustu öld spillti svokallað eiðrofsmál samstarfi sjálfstæðis- og framsóknarmanna.

Um miðja tuttugustu öld spillti svokallað eiðrofsmál samstarfi sjálfstæðis- og framsóknarmanna. Þetta mál snerist um það, að ráðherrar Framsóknarflokksins í þjóðstjórninni svonefndu töldu sig í ársbyrjun 1942 hafa fengið loforð um það frá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal Ólafi Thors, að ekki skyldi á næstunni hreyft við kjördæmaskipan, sem var Framsóknarflokknum mjög í hag.

Þótt Sjálfstæðisflokkurinn fengi jafnan miklu fleiri atkvæði í kosningum en Framsóknarflokkurinn, hafði hann færri þingmenn. Því olli meðal annars, að Framsóknarflokkurinn hlaut báða þingmennina í nokkrum tvímenningskjördæmum, sem þá voru til, þótt Sjálfstæðisflokkurinn hefði litlu minna fylgi í þeim kjördæmum flestum.

Vorið 1942 bar Alþýðuflokkurinn óvænt fram tillögu um að breyta þessari skipan. Sjálfstæðismenn töldu sig verða að samþykkja hana, enda gerðu þeir sér vonir um að fá annan manninn af tveimur í sex tvímenningskjördæmum, þar sem Framsóknarflokkurinn hafði haft báða. Sagði einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins, dr. Magnús Jónsson prófessor, í útvarpsumræðum í maílok 1942: „Sjálfstæðismenn geta ekki hafnað sex steiktum gæsum, sem koma fljúgandi upp í munninn.“ Framsóknarmenn töldu sig illa svikna. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins kváðust hins vegar aðeins hafa lofað að hafa sjálfir ekki frumkvæði að breytingum á kjördæmaskipaninni. Þeim væri frjálst að samþykkja tillögur annarra.

Kosið var samkvæmt hinni breyttu kjördæmaskipan haustið 1942. Þá brá svo við, að sjálfstæðismenn unnu aðeins annan manninn í fjórum af þessum sex kjördæmum. Eysteinn Jónsson hélt öðru sætinu í Suður-Múlasýslu og Páll Zóhóníasson öðru sætinu í Norður-Múlasýslu. „Steiktu gæsirnar“ urðu því aðeins fjórar, en ekki sex, og þeir Eysteinn og Páll voru kallaðir gæsabanar fyrir vikið. (Ég hef áður rætt það hér, hvers vegna flokksbróðir þeirra, Hermann Jónasson, var kallaður kollubani).

Eiðrofsmálið hafði hins vegar þær afleiðingar, að framsóknarmenn neituðu að sitja í ríkisstjórn undir forystu Ólafs Thors næstu ellefu árin, fram til 1953.

Því er við að bæta, að orðtakið að „steiktar gæsir komi fljúgandi upp í munninn“ á að hafa komið fyrir þegar í verkum grísks gamanleikjaskálds, Telekleidesar, á 5. öld fyrir Krists burð.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is