Oddur Björnsson fæddist í Ásum í Skaftártungu 25. október 1932. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 21. nóvember 2011. Foreldrar hans voru Guðríður Vigfúsdóttir, húsmóðir frá Flögu í Skaftártungu, f. 2.6. 1901, d. 12.4. 1973, og séra Björn O. Björnsson, f. 21.1. 1895, d. 29.9. 1975. Systkini: Ingibjörg Ragnheiður, f. 14.9. 1925, Vigfús, f. 20.1. 1927, d. 6.1. 2010, Sigríður, f. 5.11. 1929, Sigrún, f. 11.11. 1942. Fyrsta eiginkona Odds var Borghildur Thors, f. 27.5. 1933. Þau skildu. Oddur og Borghildur áttu börnin Hilmar, f. 19.1. 1957, og Elísabetu Álfheiði, f. 13.7. 1958. Hilmar á með Þóreyju Sigþórsdóttur, f. 25.11. 1965, börnin Heru, f. 27.12. 1988, og Odd Sigþór, f. 7.9. 2001. Elíasabet Álfheiður á með Ómari Jóhannssyni, f. 22.3. 1948, börnin Odd, f. 3.1. 1993 og Arnar, f. 1.11. 1994. Önnur eiginkona Odds var Bergljót Halldórsdóttir, f. 22.4. 1936. Þau skildu. Unnusta Odds frá árinu 1983 er Bergljót Gunnarsdóttir, f. 27.1. 1940. Hún var áður gift Stefáni Ólafssyni, f. 27.2. 1938, d. 2.12. 1970. Þau áttu Gunnar, f. 30.8. 1957. Hann kvæntist Önnu Reynisdóttur. Þau skildu. Dætur þeirra eru Selma Björk Isabella, börn hennar Ágústa, Mikael og óskírð, og Stefanía, barn hennar Ísabella. Seinni kona Gunnars er Arna Kristín Garðarsdóttir. Þau eiga Hildi Ýri. Arna á frá fyrri sambúð Mariu Liv Arnardóttur. Hrefna, f. 16.2. 1961, á með Eiríki Stefánssyni (látinn) Stefán, Brynju og Eirík. Hanna, f. 9.2. 1964, gift Hirti Sigurðssyni. Börn þeirra eru Bergljót, Sigurður og Jóna Kristín. Bergljót á frá fyrri sambúð, með Ólafi Jónssyni, Elínu Jónínu, f. 21.10. 1976. Hún er gift Rúnari Sigurbjörnssyni, synir þeirra eru Rúnar Breki og Sindri Hrafn. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri nam Oddur leikhúsfræði við Háskólann í Vínarborg 1954-1956. Hann starfaði sem bókavörður við Borgarbókasafn Reykjavíkur og kennari við Iðnskólann í Reykjavík. Hann vann um árabil fyrir Þjóðleikhúsið og var leikshússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar 1978-1980. Oddur starfaði mestallan starfsferil sinn sem rithöfundur og leikstjóri, m.a. við Þjóðleikhúsið, Leikfélag Akureyrar og Ríkisútvarpið. Þá var hann um skeið leikhúsgagnrýnandi. Oddur skrifaði fjölda leikrita fyrir leiksvið, útvarp og sjónvarp og hafa mörg þeirra verið gefin út á bók. Meðal leikrita Odds má nefna Amalíu, Jóðlíf, Hornakóralinn 1967, Dansleik 1972, Meistarann 1977 og 13. krossferðina 1993. Auk þess skrifaði hann tvö barnaleikrit. Meðal útvarpsleikrita Odds má nefna Einkennilegan mann frá 1963, Kirkjuferðina frá 1966, Brúðkaup furstans af Fernara frá árinu 1970, Skemmtigöngu frá 1973 og K 421 frá 1984. Útvarpsleikrit eftir Odd hafa verið flutt við erlendar útvarpsstöðvar, m.a. BBC. Oddur skrifaði handritin að sjónvarpsleikritunum Postulíni og Draugasögu. Auk þess hafa nokkur leikrita hans verið endurunnin fyrir sjónvarp. Hann skrifaði skáldsöguna Kvörnina 1967 og barnabók tveimur árum síðar. Hann myndskreytti barnabækur, m.a. svonefndar „strákabækur“ Vigfúsar Björnssonar bróður síns. Hann skrifaði gagnrýni um útgefna tónlist í Morgunblaðið um árabil. Oddur fékk menningarverðlaun DV árið 1981 fyrir leikstjórn á Beðið eftir Godot eftir Samuel Beckett og heiðursverðlaun Grímunnar – íslensku leiklistarverðlaunanna í júní á þessu ári fyrir framlag sitt til íslenskra sviðslista. Útför Odds fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 30. nóvember 2011, og hefst athöfnin kl. 15.

Elsku Oddur bróðir minn. Ég rændi frá honum sæti litla barnsins með því að fæðast. Hann var nýorðinn tíu ára og nú næstyngstur fimm systkina. Mér er sagt hann hafi arkað um allar götur með köttinn í barnavagninum áður en ég fæddist. Og þegar mamma tók léttasóttina sagði hann: Vertu róleg mamma mín, ég held ég þekki þessa verki!  Stundum stríddi hann mér agnarpínulítið, en ekki þegar ég flúði inn til hans undan lækninum með sprautuna sem ætlaði að bólusetja mig. Hann tróð mér í rúmfataskúffuna undir dívaninum, sveiflaði dívanteppinu yfir og sat eins og engill við borðið að læra, þegar hurðinni var hrundið upp. Þá áttum við heima í Bjarkarlundi í Blesugróf. En á Hálsi í Fnjóskadal þegar Oddur, sautján ára, æddi um húsið óskaplega áhyggjufullur yfir að vera ekki búinn að semja neina sinfóníu. Mendelssohn hefði verið búinn að semja bæði sinfóníur og þennan undursamlega forleik að Jónsmessunæturdraumi 17 ára! Oddur hlaut lítið eða ekkert formlegt nám í tónlist, en ólst upp við hlustun á klassík á heimilinu. Á unglingsaldri var hann djúpt sokkinn í þá iðju, frá barokk-meisturunum til þeirra síðrómantísku og ekki á allra færi að slá hann út í þekkingu í þeim fræðum.  Annars héldum við að hann yrði myndlistarmaður. Hann var feiknafær teiknari og síteiknandi.  Snjallar kola- og túskteikningar, fullar af frásögn og húmor. Málaði líka. En sneri sér alfarið að ritæfingum um tvítugt.

Hann var ákaflyndur ungur maður, hrifnæmur og djúpur. Líka geislandi glettinn.  Fór í fíluna í HÍ. Nokkrum mánuðum seinna skrifaði hann norður, að hann hefði hitt svo óskaplega yndislega stúlku að hann væri ákveðinn í að biðja hennar. Þetta var nýstúdentinn Borghildur Thors sem var orðin konan hans áður en október var liðinn. Nokkrum dögum seinna voru þau sigld til Vínarborgar. Kannski einu sinni í mánuði komu þykk bréf frá þeim hjónum. Ég vona að þessi bréf séu einhvers staðar til. Þvílík veisla! Eftir tvö ár komu þau heim. Enda von á Hilmari. Beta komin rúmu ári seinna. Við vorum flutt suður og ég á leiðinni í menntaskóla. Samgangurinn mikill. Úr skólanum var komið við á Víðimel hjá Oddi og Borghildi. Krakkakrúsirnar á móti manni og músikin.  Eftir hvern er þetta, Sigrún mín? reyndi Oddur mig.

Ég vildi sjá allar leiksýningar. Alltaf hlustað á laugardagsleikritin í sveitinni. Mátti af engu missa. En krakkar í skóla eru blankir. Það vissi Oddur. Ef ekki gerðist það öðruvísi sá Oddur til þess ég kæmist í leikhúsið.

Tíminn líður hratt og áður en varði var ég gift honum Ragnari mínum, sem var náttúrlega tónlistarmaður. Hann passaði  Hilmar og Betu með mér meðan foreldrarnir fóru í bíó. Oddur og Ragnar urðu strax miklir vinir. Við hætt að passa, í staðinn farin að skemmta okkur saman, þessi fjögur. Áhugamálin féllu líka saman. Fórum í útilegur. Fylgdumst náið með störfum hvers annars.  Oddur las oft fyrir okkur frumdrög verka sinna. Svo var skeggrætt og skoðað.  Ja, í nærfellt 20 ár! - Svo skildu leiðir Odds og Borghildar. Við Oddur misstum hana mömmu okkar góðu, svo hann pabba okkar.  Ekki auðveldur tími. En stundum eru erfiðir tímar frjósamir tímar. Leikritin streymdu frá Oddi. Hann giftist Bergljótu Halldórsdóttur. Þau skildu eftir ár. Oddur  orðinn fimmtugur. Einn sunnudag kíkti hann í mat til okkar Ragnars. Hann var svo svakalega drjúgur með sig að ég spurði hvort hann væri búinn að ná sér í konu.

Ertu hissa á því?! Fær maður kannski að sjá hana? Já, ef þú vilt!  Og það næsta sem ég man er flott kona í dragt sitjandi í stofunni hjá okkur. Bergljótt Gunnarsdóttir. Konan sem varð hans góða kona og gæfa, stoð og stytta æfi hans á enda. Síðan eru liðin 28 ár. Við Ragnar áttum margar gleðistundir með þeim Oddi og Beggó. Vestur á Bildudal. Suður á Spáni. Í ferðalögum hér og þar. Á þeirra fallega heimili. Hjá okkur Ragnari í Grundarlandi. Uppí Sumó. Svo fyrir rúmum 13 árum missti ég elsku Ragnar minn. Ekki lengur fjögur. En mikill kærleikur og gott að hittast. Já, allt hefur sinn tíma. Kínaár Odds og Beggóar urðu 5 . Komu alltaf heim á milli og maður naut samvistanna. Held það sé um hálft annað ár síðan þau komu alkomin heim. Heilsa Odds sem lengst af var sterk hafði látið nokkuð undan síga. Mér hefur verið þetta ómetanlegur tími. Að eiga yndislegar stundir á spjalli við Odd á sólpallinum þeirra. Fá tækifæri til að fara með þeim um átthaga móður okkar austur í Skaftártungu á liðnu sumri og alla leið austur í Jökulsárlón var einstök upplifun. Líka ferðin með þeim á frumsýningu Töfralautunnar í Hörpu og ræða málin á eftir. Oddur kynnti mér  Töfraflautuna þegar ég var14 ára. Hafði séð hana og hlustað á hana í mörgum frægum uppfærslum. Sagði er við Beggó þóttumst geta gagnrýnt:

Ég skemmti mér alveg dásamlega alveg frá upphafi til enda.

Oddur veiktist alvarlega 12. nóvember. Á spítala í níu daga. Var allur. Ef einhver maður var umvafinn ást og kærleika á banabeði, var það Oddur. Bergljót kona Odds, börnin hans Hilmar og Beta, stjúpbörnin hans, makar þeirra, börn og systur hans gömlu, voru hjá honum til skiptis. Þau sem höfðu sinnt honum mest og best, Bergljót  og Hilmar voru hjá honum þegar andlátsstundin kom. Og í faðmi Bergljótar hvarf hann af þessum heimi í friði og öryggi.

Guð blessi elsku Odd minn og taki hann í faðm sinn. Og styrki og styðji Bergljótu mágkonu mína, börnin hans og aðra ástvini.

Sigrún Björnsdóttir.