Ingvi Sveinbjörn Guðmundsson fæddist í Reykjavík 14. maí 1932. Hann lést á krabbameinslækingadeild Landspítalans 16. nóvember 2011.

Ingvi var jarðsunginn frá Víðistaðakirkju 24. nóvember 2011.

Ingvi Guðmundsson, heiðursfélagi UMF Stjörnunnar, er látinn. Ingvi er í raun hálfgerð goðsögn innan Stjörnunnar. Hann var einn af eldhugunum sem gerðu félagið okkar að órjúfanlegum hluta bæjarlífsins í Garðabæ. Hann var formaður og framkvæmdastjóri Stjörnunnar á árunum 1967-1973. Það má segja að hann hafi lagt allt undir í bókstaflegri merkingu, ekki bara allar sínar tómstundir heldur fór stór hluti starfsins fram á heimili hans og Ellenar, vistarverur heimilisins voru notaðar undir fundi og sem búningsklefar ef svo bar undir.

Ungmennafélagið Stjarnan á Ingva skuld að gjalda. Hann var einn af örlagavöldum félagsins og fyrir hans tilstilli varð fyrsti alvöru knattspyrnuvöllurinn til í Garðabæ, með mörkum sem hann smíðaði sjálfur. Völlurinn stóð fyrir framan eldhúsgluggann hjá Ingva og Ellen og þætti sjálfsagt í dag barn síns tíma. Það var því að vonum stór stund bæði fyrir Stjörnuna og Ingva þegar hann tók fyrstu skóflustunguna að glæsilegu vallarhúsi við Stjörnuvöll 7. febrúar 2003. Það má því með sanni segja að aðstaða félagsins hafi tekið stakkaskiptum á þessari rúmu hálfu öld sem liðin er frá stofnun félagsins. Ingvi Guðmundsson er stór hluti þeirrar sögu.

Á seinni árum fékkst Ingvi m.a. við fluguhnýtingar, eftir hann liggja mörg meistaraverk á því sviði, m.a. „Stjörnuflugur“ sem hnýttar voru bæði með hefðbundnum hætti og einnig með merki félagsins og í litum þess, til þess að bera til skrauts.

Ingvi sýndi Stjörnunni alltaf mikla ræktarsemi og bar hag félagsins ávallt fyrir brjósti. Hann var duglegur að mæta á leiki, sérstaklega í knattspyrnu. Það var mikill gleðidagur í herbúðum Stjörnunnar nú í lok sumars þegar stelpurnar okkar í meistaraflokki kvenna í knattspyrnu urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn. Ingvi tók þátt í þeirri gleði með okkur og við sáum ekki betur en að það blikaði tár á hvarmi þegar hann faðmaði stelpurnar, bæði ungar og gamlar og óskaði þeim til hamingju með árangurinn.

Ungmennafélagið Stjarnan færir Ellen eftirlifandi eiginkonu Ingva, börnum þeirra og öðrum afkomendum innilegar samúðarkveðjur á sorgarstund. Höfðingjanum sjálfum þökkum við samfylgdina.

Blessuð sé minning Ingva Guðmundssonar.

F.h. UMF Stjörnunnar,

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður. Páll Grétarsson framkvæmdastjóri.

Fallinn er frá enn einn ástvinur af kynslóð foreldra okkar systkinanna. Í þetta sinn er það ástkær móðurbróðir okkar. Hann kvaddi lífið sáttur við Guð og menn, að sögn Dagmarar dóttur hans, en ekki án þess að berjast nánast til síðasta dags. Krabbameinið, þessi fjandi sem hefur slegið og fellt of marga ástvini mína, vægir engum. Það var engin uppgjöf í Ingva frænda þegar ég hitti hann í síðasta sinn fyrir nokkrum vikum og átti ég yndislegar stundir með honum og Ellen sem ég mun ævinlega minnast með hlýhug og þakklæti.

Ingvi var lengi tengdur Stjörnunni í Garðabæ og fjórir bræður mínir stunduðu íþróttir þar undir vökulum augum hans. Lengst áttu sennilega Ingvi og Tóti bróðir heitinn samstarf og ég er þess fullviss að nú munu þeir félagar taka upp þráðinn að nýju á nýjum stað. Mamma og hann munu örugglega eiga mörg samtöl ásamt Kristvini bróður þeirra og öðrum bræðrum sínum en eftirlifandi af systkinahópnum er nú bara Rakel systir þeirra.

Ingvi frændi var mikilvægur í lífi okkar systkinanna alla tíð og náið samband var á milli hans og mömmu, Auðbjargar, þótt stundum hafi geisað smáskoðanaágreiningur á milli þeirra systkina en þau voru bæði mjög skaprík og gáfu stundum seint eftir. Pabbi og Ellen sátu oft nálægt og sögðu fátt en höfðu jafnvel gaman af. Systkinin gátu verið hörð og óvægin en samt var enginn með stærra hjarta og meiri samúð en þau þegar á reyndi. Það var engin lognmolla í kringum þau og þeirra verður sárt saknað af afkomendum, öðrum ástvinum og vinum.

Okkur þótti báðum gaman að því að eiga það sameiginlegt að hafa sungið í kirkjukór. Hann hafði mjög fallega söngrödd sem tenór og átti gleðiríkar minningar um söngstundir á sínum yngri árum með kórnum sínum og rifjaði þær eitt sinn upp með mér. Ég mun minnast hans sérstaklega þegar ég syng með mínum kór.

Það verður afar tómlegt án Ingva en áfram munum við eiga minningarnar, sterkar og lifandi, um góðan frænda sem fylgdist vel með öllum systkinabörnum sínum og fjölskyldum þeirra og vildi alltaf hag okkar sem bestan. Ég og fjölskylda mín sendum Ellen, börnum, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum okkar dýpstu samúð og megi góður Guð ætíð gefa ykkur styrk og kærleik sinn.

Sigrún Bryndís.

Með örfáum orðum langar okkur feðga að minnast mæts manns, Ingva Guðmundssonar, sem nú er fallinn frá.

Ingvi var frumherji á sviði íþróttamála í Garðabæ. Hann var einn þeirra sem stóðu að stofnun Stjörnunnar og var félagið honum afar kært. Lóð þau sem hann lagði á vogarskálar hins unga íþróttafélags í árdaga þess munu aldrei verða réttilega mæld eða honum fullþökkuð. Eftir stofnun félagsins einhenti Ingvi sér í að hrinda því í framkvæmd sem gera þurfti, þjálfa, dæma, merkja fótboltavelli, þrífa búninga, sjá um stjórnunarstörf; ekkert starf fyrir Stjörnuna var of stórt vexti þannig að hann tæki það ekki að sér og ekkert starf of smátt þannig að það tæki því ekki að hrinda því í framkvæmd fyrir Stjörnuna. Fyrir brautryðjendastarf Ingva Guðmundssonar þakka allir Stjörnumenn, stórir og smáir – ungir og gamlir. Ef ekki hefði verið fyrir hans tilstuðlan hefði staða félagsins ekki verið eins glæsileg og raun ber vitni .

Ingvi var mikill hagleiksmaður – tók m.a. upp á því að hnýta veiðiflugur í litum íslenskra íþróttafélaga og honum þótti ákaflega vænt um að heyra þegar stórlax hafði verið dreginn að landi á „Stjörnuna“. Okkur feðgum áskotnaðist fyrir nokkrum árum brjóstnæla Stjörnuflugunnar sem við erum ávallt með í barminum við veiðar. Þetta barmmerki – Stjörnuna – munum við nú bera af enn meira stolti en áður, til heiðurs minningu þessa góða félaga.

Ingvi var ekki bara Stjörnumaður í orði, heldur líka á borði. Hann mætti vel á leiki Stjörnunnar og studdi liðið sitt með ráðum og dáð – var leiður yfir töpuðum stigum en gladdist mjög yfir sætum sigrum. Eftir alla þá áratugi sem Ingvi fylgdi liðinu sínu verður ekki annað sagt en að liðið hans hafi kvatt hann með stæl eftir alla þá fjölmörgu leiki sem hann sótti síðastliðið sumar, miðað við eftirtekjur sumarsins. Meistaraflokkur kvenna hampaði Íslandsmeistaratitli og meistaraflokkur karla vann marga glæsta sigra og spilaði leiftrandi skemmtilega knattspyrnu sem var Ingva að skapi. Þá var Ingvi að sjálfsögðu mættur á völlinn þegar 3. flokkur karla lék til úrslita á Íslandsmótinu á haustdögum og gladdist yfir Íslandsmeistaratitli Stjörnunnar í þeim flokki – örugglega ekki síður en hann gladdist yfir fyrsta kappleik Stjörnunnar, hvernig svo sem hann nú fór.

Minningu Ingva Guðmundssonar mun verða haldið hátt á lofti um ókomna tíð – það gerir æska Garðbæinga dagsins í dag og morgundagsins í gegnum Stjörnuna. Brautryðjendurnir og heiðursfélagar Stjörnunnar þeir Ingvi og sr. Bragi Friðriksson ganga nú um nýjar lendur og fylgja örugglega félaginu sínu eftir hér eftir sem hingað til.

Eftirlifandi eiginkonu, börnum, afabörnum og öðrum ættingjum færum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi Guð blessa minningu Ingva Guðmundssonar.

Ingvi! Við treystum svo að þú eigir víst gott sæti á næsta leik.

Lúðvík Örn Steinarsson.

Steinar J. Lúðvíksson.

Ég kynntist Ingva Guðmundssyni fyrst sem ungur drengur í knattspyrnuleik milli Reynis Sandgerði og Stjörnunnar frá Garðabæ líklega um 1967-1968. Mér er það ávallt minnisstætt frá þessum leik að búningsaðstaðan var heima í stofu hjá Ingva og hans fjölskyldu skammt frá núverandi aðalvelli i Garðabæ.

Síðar lágu leiðir okkar saman í gegnum fótboltann og í áratugi áttum við ógleymanlegar stundir saman, félagar mínir og makar úr Knattspyrnudeild Grindavíkur á ársþingum KSÍ þar sem okkar maður var þingritari lengst allra. Á tímabili brást það ekki þegar KSÍ-þingin voru haldin að Ingvi var mættur fyrstur á Hótel Loftleiðir ásamt Ellen eiginkonu sinni og beið okkar félaganna úr Grindavík á hótelinu og sagði skemmtilegar sögur.

Ingvi lagði stund á fluguhnýtingar og hnýtti fyrir knattspyrnudeildina í Grindavík glæsilegar flugur með merki félagsins í og þáði fisk í staðinn sem honum líkaði vel. Helst vildi hann saltfiskinn úr Grindavík.

Eftir lifir minningin um góðan félaga sem við söknum sárt og þökkum samfylgdina. Vottum fjölskyldu hans okkar dýpstu samúð. Guð geymi ykkur og varðveiti.

Jónas Karl Þórhallsson,

formaður Knattspyrnu-deildar UMFG.

Þegar athafnamaðurinn Ingvi Guðmundsson hverfur á braut kemur svo margt upp í hugann og ekki síst hans óeigingjarna starf fyrir íþróttahreyfinguna. Hann var glímumaður og vann mikið fyrir Glímusambandið en einnig var hann mikill unnandi knattspyrnunnar og vann í mörg ár á Laugardalsvellinum. Ingvi var formaður Stjörnunnar í Garðabæ fyrstu ár félagsins.

Alltaf var hægt að leita til Ingva hvort sem það var til að iðka íþróttir eða til að koma íþróttinni á framfæri við ráðamenn bæjarins. Þjálfara- og dómaramál voru honum líka hugleikin. Ingvi var alltaf tilbúinn að hlusta og koma málum áfram og gafst aldrei upp. Fastur þingfulltrúi var hann á þingum UMSK, KSÍ og UMFÍ og var oftar en ekki fenginn til að vera þingritari og ritaði hann beint af ritaraborði en þá voru engar tölvur til.

Ingvi bjó í Ásgarði 4 í Garðabæ ásamt eiginkonu sinni og var heimili þeirra alltaf opið Stjörnufólki. Fyrstu árin hans sem formaður Stjörnunnar, þegar félagið spilaði knattspyrnuleik þá opnuðu þau hjónin Ingvi og Ellen heimili sitt og gerðu forstofuna að búningsherbergi. Aldrei heyrði maður annað en þetta væri sjálfsagt mál. Fyrstu ár Ingva sem formaður Stjörnunnar var hann hvatamaður í öllu starfi félagsins en Ingvi var hugsjónamaður eins og þeir gerast bestir.

UMSK þakkar Ingva fyrir öll þau störf sem hann vann fyrir sambandið en Ingvi hlaut allar þær viðurkenningar sem sambandið veitir félagsmönnum sínum fyrir vel unnin störf.

Við vottum Ellen og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

F. h. stjórnar Ungmennasambands Kjalarnesþings,

Valdimar Leó Friðriksson.