Hversu oft halda ráðamenn þjóðarinnar að þeir geti gengið á bak orða sinna?

Nú er það að vísu ekki svo að hægt sé að fullyrða með öruggri vissu að loforð sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra gáfu Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins í vikunni verði svikið. Hitt er annað mál að engum dettur í hug að taka því loforði með þeim hætti sem loforðum almennt er tekið, það er að segja að þeir sem það veita hafi fullan hug á að halda það.

Í bréfi sem þau Jóhanna og Steingrímur sendu þessum tveimur samtökum segir að þau heiti því að taka tillit til greiðslu lífeyrissjóðanna á sérstökum vaxtaniðurgreiðslum þegar ákvarðanir verði teknar um jöfnun lífeyrisréttinda.

Allt of mörg dæmi eru um svikin loforð þessarar ríkisstjórnar til að orð af þessu tagi hafi nokkra merkingu. Snemma á ferli sínum gabbaði ríkisstjórnin þessa sömu aðila til að taka þátt í stöðugleikasáttmála, en svo fór að sviksemi ríkisstjórnarinnar við sáttmálann varð til þess að bæði ASÍ og SA neyddust til að segja sig frá honum.

Ríkisstjórnin lofaði einnig að vinna að sátt í sjávarútvegi og í trausti þess að eitthvað væri að marka loforðið var unnið að sátt og út úr miklu nefndarstarfi kom sameiginlegt álit þar sem allir höfðu gert sitt ýtrasta til að sátt gæti náðst. Ríkisstjórnin gerði ekkert með þá sátt og ákvað að fara allt aðra leið og hefur allar götur síðan haldið þessum undirstöðuatvinnuvegi í fullkominni óvissu um framtíðina.

Ennfremur má nefna að Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands töldu sig hafa loforð ríkisstjórnarinnar um tiltekna hækkun bóta, en eins og nýlega hefur komið fram fór eins fyrir því loforði og mörgum öðrum. Velferðarráðherra gaf þá skýringu að menn yrðu að ganga betur frá orðalagi samninga og augljóst var að ríkisstjórnin taldi klækjabrögð í orðalagi sleppa henni frá því að standa við þetta loforð sitt. Bætur voru því ekki hækkaðar eins og um hafði verið samið.

Og nú hafa forystumenn ríkisstjórnarinnar sem sagt eina ferðina enn gefið þessum sömu aðilum loforð. Og þetta loforð er ofan á allt annað með afar óskýru og óljósu orðalagi. Dettur einhverjum í hug að ætlunin sé að standa við þetta loforð? Og dettur forsætisráðherra og fjármálaráðherra í hug að einhver telji að sú sé í raun ætlunin?