Ajax Kolbeinn Sigþórsson vonast til að geta mætt Manchester United.
Ajax Kolbeinn Sigþórsson vonast til að geta mætt Manchester United. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is „Ég mun reyna að gera allt sem ég get til þess að ná leikjunum á móti Manchester United. Ég vil alls ekki missa af þeim og þessi dráttur hvetur mig áfram.

Fótbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

„Ég mun reyna að gera allt sem ég get til þess að ná leikjunum á móti Manchester United. Ég vil alls ekki missa af þeim og þessi dráttur hvetur mig áfram. Ég mun leggja enn harðar að mér til að verða orðinn leikfær þegar að leikjunum kemur,“ sagði landsliðsmaðurinn Kolbeinn Sigþórsson, framherji hollenska meistaraliðsins Ajax, við Morgunblaðið í gær en Ajax dróst á móti Englandsmeisturum Manchester United í 32-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA í gær

Kolbeinn hefur verið frá keppni síðan í byrjun október en þá kom í ljós að hann var með álagsbrot í ökklanum. Hann hafði byrjað ferilinn hjá Hollandsmeisturunum með miklum glæsibrag og skorað fimm mörk í átta leikjum með því í deildinni þegar ólánið reið yfir. Reiknað hefur verið með því að Kolbeinn verði búinn að jafna sig af meiðslunum í febrúar en Ajax tekur á móti United hinn 16. febrúar og leikur síðan á Old Trafford hinn 23.

Batinn skjótari en reiknað var með

„Þetta lítur bara vel út og ef eitthvað er hefur batinn verið skjótari en menn reiknuðu með. Ég hef undanfarnar vikur æft stíft efri líkamann og nú styttist í að ég missi gifsfótinn og þá get ég farið að gera miklu fleiri æfingar. Ég verð vonandi tilbúinn fyrir stóru leikina á móti Manchester United en það verður tæpt. Þetta er kannski ekki besta liðið að mæta til að eiga möguleika á að komast áfram en það verður meiriháttar ef ég næ því að spila á móti þessu stórliði. Manchester United er eitt af stærstu félögum í heimi og það yrði frábært að fá að spila á Old Trafford,“ sagði Kolbeinn.

Kolbeinn heldur jólin heima á Íslandi en strax eftir áramótin tekur við stíft prógramm í Hollandi. Hann fer ekki með Ajax-liðinu í æfingaferð til Brasilíu í janúar en þess í stað verður hann í sérmeðferð hjá sjúkraþjálfurum Ajax.