Tengdafaðir minn, Pétur Sigurðsson, forseti Alþýðusambands Vestfjarða, er áttræður á morgun. Hann á að baki merkan feril sem forystumaður í íslenskri verkalýðshreyfingu um hálfrar aldar skeið. Hann leiddi „síðasta stóra verkfallið“ sem svo hefur verið nefnt, verkfallið á Vestfjörðum 1997 sem stóð í sjö vikur og lyktaði með svokölluðum „Vestfjarðasamningum“. En Pétur hefur einnig markað spor í íþróttahreyfinguna sem formaður knattspyrnufélagsins Vestra í tvo áratugi.

Pétur er af alþýðufólki kominn og íslenskri alþýðu hefur hann helgað starfskrafta sína alla ævi. Hann fæddist á Ísafirði 18. desember 1931, sonur hjónanna Sigurðar Péturssonar vélstjóra og Gróu Bjarneyjar Salómonsdóttur verkakonu.

Ungur kynntist Pétur kjörum og hlutskipti verkafólks. Um fermingaraldur hófust kynni hans af sjómennsku. Hann byrjaði sem hjálparkokkur á síldarbáti og stundaði síðar sjómennsku á vélbátum og togurum meðfram vélstjórnarnámi. Hann vann í Vélsmiðjunni Þór á Ísafirði og lærði þar vélvirkjun. Starfaði síðar hjá Rafmagnsveitum ríkisins á Vestfjörðum sem línumaður og vélstjóri til 1970 og leysti þá af á sumrin stöðvarstjórana við virkjunina í Mjólká í Arnarfirði.

Pétur lék í marki með Knattspyrnufélaginu Vestra á Ísafirði og einnig með úrvalsliði ÍBÍ. Hann varð formaður í Vestra aðeins 23 ára gamall og stýrði félaginu frá 1954-1977. Sérstaklega lét hann sér annt um öflugt uppbyggingarstarf við yngri flokka félagsins. Ásamt Fylki Ágústssyni byggði Pétur upp sunddeild Vestra, sem síðar varð sérstakt sundfélag og heldur nafni Vestra á lofti enn þann dag í dag. Þá hefur hann verið þátttakandi í hinu árlega Stóra púkamóti á Ísafirði frá upphafi þess árið 2005 og er fyrsti og eini „atvinnumaður“ mótsins. Athygli vakti á fyrsta mótinu þegar Pétur, þá 74ra ára gamall, sveif milli markstanga og varði vítaskot sem margir ungir markverðir hefðu verið fullhertir af. Átti hann eftir að leika þá list oftar svo eftir var tekið.

Pétur hafði afskipti af stjórnmálum um tíma og var varaþingmaður Alþýðuflokksins í Vestfjarðakjördæmi 1991-1995. Meginþunginn í ævistarfi Péturs hefur verið helgaður baráttunni fyrir bættum kjörum verkafólks. Hann hóf snemma afskipti af íslenskri launþegabaráttu og hefur sett mark sitt á sögu verkalýðshreyfingarinnar og þróun kjarasamninga. Hann var kjörinn forseti Alþýðusambands Vestfjarða 1970 og gegndi því starfi óslitið þar til Verkalýðsfélag Vestfirðinga var stofnað árið 2002 og leysti af hólmi hlutverk ASV. Pétur var formaður VerkVest frá stofnun og leiddi það fyrstu fimm árin, til 2007.

Vorið 1997 urðu hörðustu verkfallsátök sem almenn verkalýðsfélög hafa háð á síðustu árum, þegar 800 félagsmenn sjö verkalýðsfélaga innan Alþýðusambands Vestfjarða (ASV) fóru í sjö vikna langt verkfall.

Pétur Sigurðsson var á þessum tíma forseti ASV og formaður stærsta félagsins innan sambandsins, Verkalýðsfélagsins Baldurs á Ísafirði. Pétur stóð í stafni þeirra sem sættu sig ekki við að taxtar verkalýðsfélaganna drægjust aftur úr launaþróun í landinu. Með stóran hóp karla og kvenna starfandi í fiskvinnslu og fleiri greinum að baki sér, steig Pétur ölduna í ólgusjó verkfallsátaka. Órofa samstaða verkafólks í félögunum sjö á Vestfjörðum vakti mikla athygli og samúð launafólks um allt land. Krafa Vestfirðinga var að lágmarkslaun miðuðust við framfærslu: 100 þúsund krónur á mánuði. Dagsbrún og Verkamannasambandið höfðu þá samið um 70 þúsund krónur en Vestfirðingar höfnuðu þeim samningi. „Topparnir treysta sér ekki í meira,“ sagði Pétur af því tilefni í blaðaviðtali og átti þar við verkalýðsforystu stóru félaganna fyrir sunnan. „Það er ábyggilegt að verkafólk hefur ekki verið spurt að þessu.“

Pétur blés til sóknar. „Í Karphúsinu skrifuðu menn undir ekki neitt, samninga sem hafa ekkert innihald,“ sagði hann er hann brýndi sitt fólk. „Við höfum lítinn stuðning, en eins og allir aðrir, þá verðum við að treysta á sjálfa okkur.“

Verkfallið skall á þann 21. apríl 1997 og nú fóru í hönd hörð verkfallsátök með líkamlegum ryskingum og harðorðum yfirlýsingum á báða bóga. Þeim lauk sjö vikum síðar með umtalsvert betri samningi en þeim sem stóru félögin höfðu sætt sig við, svo til einhvers var unnið. „Menn hafa sýnt og sannað að hér er samtakamáttur hjá fólki, sem getur gert hvað sem er,“ sagði vestfirski verkalýðsforinginn þegar átökin voru yfirstaðin.

Pétur er nú sestur í helgan stein eftir langa og farsæla starfsævi. Hann er kvæntur Hjördísi Hjartardóttur, fv. deildarstjóra hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þau hjónin eru búsett á Ísafirði og sinna nú hugðarefnum sínum, bóklestri, ferðalögum, garðrækt og stórfjölskyldu. Þau hafa ævinlega verið börnum sínum og barnabörnum öruggt skjól og fyrirmynd, ástrík og umhyggjusöm. Ég vil á þessum tímamótum þakka fyrir áratugina þrjá sem ég hef verið tengdadóttir þeirra hjóna um leið og ég árna þeim báðum allra heilla og blessunar.

Ólína Þorvarðardóttir.