Miðbærinn Egilshús er næst elsta varðveitta húsið í Stykkishólmi og setur það fallegan svip á miðbæinn.
Miðbærinn Egilshús er næst elsta varðveitta húsið í Stykkishólmi og setur það fallegan svip á miðbæinn. — Morgunblaðið/ Gunnlaugur Auðun Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLíFiNU Gunnlaugur Auðun Árnason Stykkishólmur St. Fransiskusspítali hefur verið einn stærsti vinnustaður í sveitarfélaginu. En þar hefur orðið breyting á. Starfsfólki hefur fækkað síðustu ár með sífellt lækkandi framlögum frá ríkisvaldinu.

ÚR BÆJARLíFiNU

Gunnlaugur Auðun Árnason

Stykkishólmur

St. Fransiskusspítali hefur verið einn stærsti vinnustaður í sveitarfélaginu. En þar hefur orðið breyting á. Starfsfólki hefur fækkað síðustu ár með sífellt lækkandi framlögum frá ríkisvaldinu. Starfsfólki sjúkrahússins var sagt frá því á dögunum að enn yrði haldið áfram á sömu braut. Lagður er til 30 milljóna króna niðurskurður á rekstri spítalans á næsta ári. Fyrir ekki stærri stofnun hefur það mikil áhrif. Hólmarar eru að vonum áhyggjufullir yfir þessum tíðindum og finnst furðulegt að endalaust skuli skorið niður í þeim málaflokki sem flestir landsmenn eru sammála um að standa skuli vörð um. Starfsemi sjúkrahússins hefur mikla þýðingu fyrir íbúa svæðisins og áhrif á búsetuþróun. Það er mál að linni.

Körfuboltabærinn Stykkishólmur státar af keppnisliðum í úrvalsdeild bæði karla og kvenna. Karlaliðinu hefur ekki gengið nógu vel að undanförnu og hefur liðið ekki skilað þeim árangri sem vonast var til. Það er dýrt að halda úti liðum í efstu deild Íslandsmótsins. Leikmenn hafa lagt hart að sér við fjáraflanir. Að undanförnu hafa þeir ásamt stuðningsmönnum séð um allt niðurrif innandyra í Egilshúsi til að afla tekna. Mögulegt er að þar hafi of mikil vinna verið lögð á leikmenn með annarri vinnu þeirra. Síðasti leikur fyrir jól er í Hólminum á morgun, sunnudag, gegn Grindavík.

Kvennaliði Snæfells hefur gengið mun betur í úrvalsdeildinni og er liðið í 5. sæti.

Síldveiðar á Breiðafirði hafa gengið vel í haust. Enn finnst mikil síld fyrir utan bæjardyrnar. Stóru skipin eru flest hætt veiðum enda síldarkvóti þeirra búinn. Í haust fengu minni bátar í fyrsta sinn leyfi til síldveiða. Frá Hólminum hafa 5 litlir bátar stundað reknetaveiðar. Mestum afla hefur Sandvík SH landað, um 35 tonnum.

Egilshús var byggt 1865. Húsinu fylgir því löng saga og nú bætist nýr kafli í sögu þess. Húsið er komið í hendur nýrra eigenda sem ætla að breyta því í 10 herbergja gistiheimili. Kaupandinn er Gistiver ehf sem hefur áhuga á að hasla sér völl í ferðaþjónustu í Hólminum. Unnið er að endurbótum innan dyra samkvæmt nútímakröfum. Verkið þarf að ganga vel því von er á fyrstu gestum í maí á næsta ári.

Aðventusamkoma verður í Stykkishólmskirkju á morgun, sunnudag, kl. 17. Það sem vekur mesta eftirvæntingu er að hlusta á nýja pípuorgelið sem leikið verður á í fyrsta sinn í kirkjunni. Starfsmenn Klais, þýska orgelframleiðans hafa undanfarnar 6 vikur unnið að uppsetningu og stillingu á orgelinu. Þeir hafa lokið störfum og orgelið er tilbúið til notkunar. Þar með rættist langþráður draumur Hólmara og annarra velunnara kirkjunnar um að eignast betra tónlistar- og menningarhús.