[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Tölurnar tala sínu máli. Fyrir hverja 2.770 íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem eru sextán ára eða eldri er ein líkamsræktarstöð, heilsurækt án stórs tækjasalar eða sjúkraþjálfun með æfingasal.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Tölurnar tala sínu máli. Fyrir hverja 2.770 íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem eru sextán ára eða eldri er ein líkamsræktarstöð, heilsurækt án stórs tækjasalar eða sjúkraþjálfun með æfingasal. Sé æfingaaðstöðu íþróttafélaga bætt við fækkar íbúum á hverja stöð sem náð hafa þessum aldri.

Margir eru því um hituna en íbúafjöldinn er fenginn af vef Hagstofu Íslands og miðast við árið 2011. Fjöldi íbúa kann þó að gefa ófullnægjandi mynd af fjölda mögulegra viðskiptavina þar sem sumar æfingastöðvar bjóða hótelgestum í sama húsnæði þjónustu sína.

Sundlaugar og tækjasalir

Eins og sýnt er á kortinu hér til hliðar eru 57 æfingastöðvar í áðurgreindum þremur flokkum á höfuðborgarsvæðinu og eru þá sjúkraþjálfunin Ásmegin og líkamsræktarstöðin Hress á Ásvöllum í Hafnarfirði taldar sem ein stöð.

Tuttugu sundlaugar eru á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt vefnum sundlaugar.is, og eru þær laugar hér undanskildar þar sem aðeins er að finna nokkur æfingatæki, svo sem við laugarbakkann í Sundhöll Reykjavíkur við Barónsstíg.

Sé æfingaaðstöðu íþróttafélaga, ásamt stöðvum fyrir sjúklinga og fólk með skerta hreyfigetu, bætt við listann má ætla að fjöldi einstaklinga 16 ára og eldri á hverja stöð minnki og fari að nálgast 2.000. Jafngildir það til dæmis því að tvær stöðvar væru á Seltjarnarnesi.

Stöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu eru misstórar og þyrfti eflaust margar þeirra til að jafnast á við þá stærstu, útibú World Class við Laugardalslaug í Reykjavík.

Hinn mikli fjöldi æfingasala vitnar um að heilsurækt veltir orðið háum fjárhæðum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi fjölgun er hins vegar óplægður akur hvað snertir rannsóknir í heilsuhagfræði, að sögn Tinnu Laufeyjar Ásgeirsdóttur, lektors í heilsuhagfræði við Háskóla Íslands.

Nýliði á markaðnum

Aðstandendur nýrrar líkamsræktarstöðvar í Holtagörðum í Reykjavík, Reebok Fitness, koma inn á þéttsetinn markað. Er stöðin skammt frá væntanlegri æfingastöð Boot Camp í Elliðaárdal, sem ekki er sýnd á kortinu á þessari síðu. Stendur til að opna stóran æfingasal í Elliðaárdal snemma á næsta ári.

Einn eigenda Reebok Fitness, Guðmundur Ágúst Pétursson, gjarnan kenndur við G.Á.P., þekkir vel til rekstrar líkamsræktarstöðva eftir þátttöku í útrás til Danmerkur.

Er þar átt við kaup Guðmundar Ágústs og Björns Leifssonar, framkvæmdastjóra World Class, á danska fyrirtækinu Equinox, í félagi við Straum-Burðarás. Kaupin fóru fram árið 2006 og fór svo að þau steyttu á skeri efnahagshrunsins. Verða eftirmál útrásar World Class ekki frekar rakin hér.

Félagar gerast keppinautar

Haustið 2011 eru félagarnir fyrrverandi, Björn og Guðmundur Ágúst, komnir í harða samkeppni í heilsuræktinni í íbúðahverfunum vestan Sæbrautar. Forvitnilegt er að skoða leigusala viðskiptafélaganna fyrrverandi.

Guðmundur Ágúst og félag í eigu fjölskyldu hans, Sportmenn ehf., leigja húsnæðið af Reitum.

Eignabjarg ehf. fer með 42,67% eignarhlut í Reitum en þar er á ferð félag í eigu Arion banka. Þá á Horn Fjárfestingarfélag ehf. 29,57% hlut í Reitum en til stendur að setja félagið á markað og þar með úr eigu Landsbankans, að því er fram kemur á vef bankans. Segir þar að Reitir hafi nýverið verið seldir úr félaginu til Landsbankans. Loks á þrotabú Landic Property hf. 15,88% hlut í Reitum.

Eiga tveir af stóru bönkunum þremur því óbeinna hagsmuna að gæta þegar rekstur Reebok Fitness er annars vegar í gegnum leigutekjur Reits.

Reitir í samkeppni við Reiti

Reitir tengist þannig einnig rekstri World Class með því að leigja keðjunni húsnæði í Kringlunni og í Ögurhvarfi í Kópavogi.

Það þýðir að Landsbankinn og Arion banki eiga óbeinna hagsmuna að gæta af rekstri líkamsræktarstöðva sem verða að teljast í harðri samkeppni á markaði þar sem margir bjóða fáum þjónustu sína.

Björn, framkvæmdastjóri World Class, var bjartsýnn á gott gengi nýju stöðvanna í Kringlunni og Ögurhvarfi er hann ræddi fyrirhugaða opnun þeirra í samtali við Morgunblaðið í febrúar sl.

Kvaðst Björn þá sannfærður um að þörf væri fyrir þessa þjónustu, enda væri allt fullt í Laugum. Staðsetningin væri mjög góð í Kringlunni og stöðin við Ögurhvarf myndi þjóna 40.000 manna byggð.

Mikið framboð af þjálfun

Eins og áður er getið er hér ekki gerð tilraun til að áætla fjölda æfingasala hjá íþróttafélögum. Ljóst má vera að salirnir eru margir og nægir þar að vísa til vefjar Íþróttafélags Reykjavíkur um fjölda félaga í borginni.

Alls eru 73 félög skráð á síðunni og taldi heimildarmaður blaðsins óhætt að áætla að minnst 15 þeirra hefðu æfingasali fyrir félaga sína. Eru salir félaga í hinum sveitarfélögunum ótaldir.

FJÖLSKRÚÐUGUR MARKAÐUR

Árskortin eru misdýr

Það er til merkis um þann þroska sem heilsuræktarmarkaðurinn hefur tekið út að þar er nú í boði fjölbreytt og misdýr þjónusta.

Dæmin sem hér eru útlistuð í töflu eru valin af handahófi og byggjast tölurnar á upplýsingum sem aflað var á vefjum stöðvanna sem um er að ræða. Ítrekað skal að þjónustan og þar með gæðin eru mismunandi eftir æfingasölum.

Leiðrétting 20. desember - Hægt að kaupa stakan mánuð

Líkamsræktarstöðin Hreyfing gerir athugasemd við umfjöllun Morgunblaðsins sl. laugardag um verðskrá nokkurra líkamsræktarstöðva, nánar tiltekið upplýsingar er varða Hreyfingu. Vilja forsvarsmenn Hreyfingar koma því á framfæri að hægt sé að kaupa mánaðarkort á 10.900 kr., staðgreiða árskort á 71.172 kr. og kaupa áskrift á verði frá 4.990 á mánuði. En í umfjöllun Morgunblaðsins sagði að ekki væri hægt að kaupa stakan mánuð og að árskort kostaði 79.080 kr. Er beðist velvirðingar á mistökunum.