Einar Birgir Kristjánsson
Einar Birgir Kristjánsson
Eftir Einar Birgi Kristjánsson: "Fjarðabyggð er sveitarfélag sem varð til við sameiningu og var fyrir nokkrum árum sex sjálfstæð sveitarfélög."

Fjarðabyggð er sveitarfélag með um fimm þúsund íbúa sem flytur út um fjórðung af útflutningsvörum Íslendinga. Hér býr fólk sem vinnur yfirleitt langan vinnudag og hefur ágætis laun. Það er skortur á starfsfólki í ákveðnum greinum auk þess sem talsvert er af viðskiptatækifærum í sveitarfélaginu.

Laun í Fjarðabyggð eru hærri en á flestum öðrum stöðum og þar af leiðandi greiðir fólk hér hærri skatta en annars staðar auk þess sem að við hækkuð laun eykst framlag vinnuveitenda í atvinnutryggingasjóð og er að líkindum með því hæsta per íbúa á landinu.

Ég tel að í Fjarðabyggð vanti um það bil 1500 íbúa til að fullmanna þau atvinnu- og viðskiptatækifæri sem hér eru.

Af hverju er ekki fullt af fólki sem býður við bæjarmörkin til að flytja hingað þar sem næg vinna er og ekki hefur orðið vart við kreppu nema úr fréttum fjölmiðla? Svarið við því er ekki einfalt en þó má leiða líkum að því að það sé vegna þess stjórnvöld og ríkisstofnanir virðast líta á okkur íbúana hér sem skítugu börnin sem vinna við erlenda stóriðju og vel rekin sjávarútvegsfyrirtæki. Það vinna fáir hér við tískufyrirbærið ferðaþjónustu, sem að vísu skilar mjög litlu til samfélagsins. Það virðist henta vel að svæfa umræðu um þessi blómlegu byggðarlög og lágmarka fjárframlög hingað austur og hafa sterkan einstefnuloka á peningarennslinu héðan suður.

Nýjasta dæmið hjá þessari ríkisstjórn er að slá nánast út af borðinu Norðfjarðargöng og þar með eðlilega íbúaþróun í sveitarfélaginu. Þetta er ríkisstjórn sem til skamms tíma var með samgönguráðherra að nafni Kristján Möller og enn nýtur stjórnin óskoraðs stuðnings hans. Hann lofaði á fleiri en einum fundi hér fyrir kosningar að Norðfjarðargöng kæmu á yfirstandandi kjörtímabili og að hafist yrði handa eigi síðar en 2012. Hann og aðrir þingmenn Norð-austurkjördæmis hafa með bleyðuskap orðið þess valdandi að ekki er útlit fyrir þessa sjálfsögðu samgöngubót á komandi árum. Fjarðabyggð á undir högg að sækja varðandi íbúaþróun. Mikið er af farandverkafólki á staðnum og eru jafnvel leigðar íbúðir undir tæknimenntað fólk sem dvelur hér á virkum dögum en fer til síns heima um helgar á höfuðborgarsvæðið. Af hverju vilja fáir búa hér? Jú ástæðan er frekar einföld. Hér eru nokkrir byggðakjarnar af óhagstæðri stærð og stærsti kjarninn er einangraður með bröttum fjallvegi og úrsérgengnum jarðgöngum. Einnig er snjómokstri á fjölfarnasta vegi fjórðungsins á milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar sinnt með pínulitlum pallbíl í eigu Vegagerðarinnar og eru jafnan klaki og hjólför á veginum að vetri til og útafkeyrslur tíðar. Samgöngur innan svæðis eru ekki nægilega greiðar til að hér þrífist t.d. afþreyingarþjónusta o.fl. Á Norðfirði er mjög gott sjúkrahús með færu starfsfólki en að fara þangað er ekki alltaf heiglum hent. Þar er einnig Verkmenntaskóli sem berst fyrir tilveru sinni. Hvers vegna? Jú það eru margir foreldrar sem ekki langar beint til þess að börnin þurfi yfir skarð daglega allan veturinn í rútu hvað þá á Yarisnum sínum. Fyrir Norðfirðinga sjálfa sem sækja vinnu t.d. í álverið er skarðið tálmi og getur tekið langan tíma að komast úr og í vinnu.

Það eru flutt þúsundir tonna af fiski yfir Oddskarð á hverju ári, enda eitt stærsta og best rekna sjávarútvegsfyrirtæki landsins staðsett þar. Ríkisstjórnin hefur auðvitað reynt að gera það fyrirtæki órekstrarhæft með tillögum sínum um stjórn fiskveiða, beinlínis til höfuðs fyrirtækinu og þar af leiðandi smám saman að gera göngin óþörf. Ég hef stundum á tilfinningunni að Steingrím J. myndi hlakka í sinni ef ekki væri hægt að reka stóriðjurna í Fjarðabyggð sökum mannaflaskorts, hann teldi það efalaust sönnun á hversu vonlausar stóriðjur eru og áfangasigur fyrir veruleikafirrta Vinstri-græna.

Fjarðabyggð er góður staður sem hægt og bítandi er verið að eyðileggja með aðgerðaleysi og svikum stjórnvalda. Ef eðlileg stjórnvöld héldu hér um stjórnartaumana myndu þau halda á lofti þessari byggð og gera hana að vinsælum stað til búsetu í stað þess að hvetja til Noregsferða og styrkja norska vinnuveitendur í leit að vinnuafli á Íslandi og neita síðan að viðurkenna tölur Hagstofunnar um fjölda brottfluttra.

Þetta er ömurleg staða, verandi með fyrsta þingmann kjördæmisins valdagráðugan fjármálaráðherra og aðra þingmenn kjördæmisins duglausa og þá sérstaklega stjórnarþingmennina þótt hinir séu slappir líka. Það eru ekki margir mánuðir síðan þingmannaskari kjördæmisins kom hérna og sagði okkur hversu mikla áherslu hann legði á samgöngubætur í Fjarðabyggð. Verður fróðlegt að heyra bullið í þeim næst þegar þeir koma hingað ef þeir þá þora. Þeim er kannski alveg sama um okkur, við erum sennilega ekki nógu mörg? Allavega höfum við vel getað þverfótað fyrir þeim undanfarin ár og þeir treysta væntanlega á að næst þegar kosið verður geti þeir lofað öðrum íbúum fjórðungsins vegabótum sem svo er hægt að draga 1-2 kjörtímabil. Ég skora á þingmenn kjördæmisins að berjast nú eins og menn fyrir Oddsskarðsgöngum sem eru hreint og beint lífsspursmál fyrir íbúa Fjarðabyggðar og framtíð svæðisins.

Höfundur er framkvæmdastjóri.