Sushi mæðgur Rósa og dóttir hennar Margrét Lovísa Jónasdóttir dunda sér saman við sushigerðina.
Sushi mæðgur Rósa og dóttir hennar Margrét Lovísa Jónasdóttir dunda sér saman við sushigerðina. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rósa Guðbjartsdóttir er mikil áhugamanneskja um sushigerð og deilir áhuganum með fjölskyldunni. Rósa segir sushi vera tilvalda leið til að fá unga fólkið til að borða meiri fisk en hún hefur nú þýtt kennslubók í sushigerð yfir á íslensku.

María Ólafsdóttir

maria@mbl.is

Rósa Guðbjartsdóttir, blaðamaður og bæjarfulltrúi, er mikil áhugamanneskja um sushigerð. Hún hefur nú þýtt bók sem á íslensku kallast Einfaldara sushi. Í bókinni eru öll helstu undirstöðuatriði sushigerðar kennd en bókin kemur í kassa með dvd-diski og helstu áhöldum til sushigerðar.

Sushineysla hefur fjórfaldast

„Ég er mikil mataráhugamanneskja og skrifaði bæði fyrir Gestgjafann í rúm 10 ár og hef gefið út matreiðslubók. Ég hef talsvert verið að búa til sushi sjálf fyrir fjölskylduna og erum við afskaplega hrifin af því. En ég sá fljótt að ekki væri til bók um sushigerð á Íslandi. Það þótti mér bagalegt enda hefur sushineysla fjórfaldast hér síðastliðin fimm ár samkvæmt nýjustu rannsóknum Matís. Hér hafa sprottið upp sushiveitingastaðir og hægt er að fá hráefni í sushi og sækja námskeið. Mér fannst því kjörið, þar sem ég vinn við bókaútgáfu, að taka að mér að finna góða leiðbeiningabók. Þá rekur á fjörur mínar þessa bók og kennslumyndband sem spila mjög vel saman. Myndbandið er tilvalið fyrir fólk sem er hikandi og heldur að þetta sé svo mikið mál. Þarna sýnir sushikokkurinn Steven Pallet sushigerð á einfaldan hátt. Ég held að það sé mikilvægt fyrir þá sem eru að fikra sig áfram að sjá á aðgengilegan hvernig eigi að bera sig að,“ segir Rósa.

Réttu handtökin

Í bókinni er farið í gegnum öll þau undirstöðuatriði sem þarf að hafa á hreinu til að sushiið verði ljúffengt. Til þess segir Rósa að þurfi að gera hlutina rétt í upphafi eins og að meðhöndla hrísgrjónin rétt. Þau þurfi að loða saman en ekki vera of klístruð. Þetta sé ekki mikið tilstand en kunna þurfi réttu handtökin. Í bókinni eru kennd ýmis tilbrigði eins og hvernig eigi að gera úthverfar rúllur. Rósa segir mestu furðu hversu gott úrvalið af fiski sé hér. Einhverjar fisktegundir fáist ekki en hún fékk Sigurð Karl Guðgeirsson, eiganda og yfir matreiðslumann sushiveitingastaðarins suZushii, til að staðfæra uppskriftir að íslenskum aðstæðum. Þang, edik, wasabi og engiferrót fæst í matvöruverslunum en fólk getur síðan notað hvað það sem það vill með.

Notaleg fjölskyldustund

Hér á landi er laxinn mest notaður í sushi og ýmiss konar vatnafiskur, lúða, þorskur, risarækja og jafnvel makríl. Rósa notar það grænmeti sem hún á til hverju sinni og kryddjurtir. Hún segir að á sínu heimili séu í uppáhaldi hálfgerð kramarhús eða upprúllað sushi sem sýnt er í bókinni. Í því verði þangblöðin svo stökk og fín en þau eru í uppáhaldi hjá Rósu. „Það er líka heillandi við sushi að unga fólkið er mjög hrifið af því. Þetta er frábær leið til þess að fá þann aldurshóp til að borða meiri fisk. Á mínu heimili hefur þetta einmitt reynst vel þannig. Þau eru ekkert alltaf hrifin af því að fá fisk í matinn en þetta er algjört uppáhald og þeim finnst sérstaklega skemmtilegt að fá að búa það til. Það veit ég að er orðið víða á heimilum að fjölskyldan býr þetta til saman á föstudegi í staðinn fyrir að búa til pítsu. Ég heyri mikið um svona og að 10 ára krakkar séu að panta þennan pakka í jólagjöf finnst mér mjög skemmtilegt,“ segir Rósa.

RANNSÓKN

Jákvæðar breytingar

Í frétt Matís um niðurstöður rannsóknar um viðhorf og fiskneyslu Íslendinga árið 2001 segir að jákvæðar breytingar hafi átt sér stað í fiskneyslu og viðhorfum fólks á aldrinum 18-26 ára á síðustu fimm árum. Þessi hópur sé nú meira fyrir fisk og fiskneyslutíðni hafi aukist nokkuð sem skýrist helst af aukinni fiskneyslu utan heimilis. Lýsisneysla og fjölbreytni í vali sjávarfangs virðist hafa aukist. Í þessum aldurshópi hefur orðið aukning í neyslu á ferskum fiski, sushi, saltfiski og á kældum hálftilbúnum réttum. Fréttina og niðurstöður rannsóknarinnar má lesa á www.matis.is.