Tjónamál Ekki liggur fyrir hvaða listaverk eyðilögðust þegar búslóð var flutt til Bandaríkjanna síðastliðið vor.
Tjónamál Ekki liggur fyrir hvaða listaverk eyðilögðust þegar búslóð var flutt til Bandaríkjanna síðastliðið vor. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Hjörtur J. Guðmundsson hjorturjg@mbl.

Baksvið

Hjörtur J. Guðmundsson

hjorturjg@mbl.is

Bætur vegna þess tjóns sem varð á búslóð Skafta Jónssonar, sendiráðunautar við sendiráð Íslands í Washington, og eiginkonu hans Kristínar Þorsteinsdóttur þegar búslóðin var flutt til Bandaríkjanna í apríl á þessu ári, námu í heildina 80,3 milljónum króna samkvæmt heimildum Morgunblaðsins og hafa bæturnar verið greiddar út. Eins og fram kom í blaðinu í gær komst sjór í 20 feta gám sem búslóðin var flutt í með flutningaskipi Eimskips með þeim afleiðingum að miklar skemmdir urðu á henni.

Tryggingamiðstöðin greiddi út 5,3 milljónir króna í bætur vegna tryggingar sem tekin var hjá fyrirtækinu vegna flutninganna og ríkið greiddi síðan mismuninn á þeirri fjárhæð og þeirri upphæð sem tjónið á búslóðinni var metið á. Samtals voru greiddar 75 milljónir króna úr ríkissjóði í þessu skyni samkvæmt sérstökum lið á aukafjárlögum sem samþykkt voru á Alþingi á dögunum. Sú upphæð var greidd út nýverið samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu.

Enginn fulltrúi stjórnvalda

Það mat sem lagt var til grundvallar bótagreiðslna vegna tjónsins er byggt á gögnum frá bandarísku fyrirtæki sem framkvæmdi ástandsmat á innihaldi gámsins eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær. Enginn fulltrúi íslenskra stjórnvalda mun hins vegar hafa verið viðstaddur þá ástandsskoðun. Að sögn Péturs Ásgeirssonar, sviðsstjóra rekstrar- og þjónustusviðs utanríkisráðuneytisins, var umrætt fyrirtæki hins vegar kvatt til af Tryggingamiðstöðinni og því megi segja að það hafi verið fulltrúi hennar. Tryggingafélagið hafi síðan gætt hagsmuna ríkisins. Engan hafi hins vegar grunað þegar gámurinn var opnaður hversu mikið tjón hafi orðið á búslóðinni.

Tjón á þeim listaverkum sem voru í búslóðinni var metið á á fimmta tug milljóna króna samkvæmt heimildum Morgunblaðsins og var dýrasta verkið metið á 2,5 milljónir. Það var ennfremur eina verkið sem var metið á yfir tvær milljónir króna. Að sögn Péturs voru þau listaverk sem talið var að hægt væri að lagfæra ekki bætt nema sem nam viðgerðarkostnaðinum.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru ennfremur bætt húsgögn sem voru í gámnum, fatnaður og skartgripir sem þó virðast hafa verið endurheimtir samkvæmt upplýsingum blaðsins.

Óvíst hvaða verk voru bætt

Fram hefur komið í umræðum að undanförnu, bæði í fjölmiðlum og víðar að listaverkin sem skemmdust eða eyðilögðust í umræddu tjóni hafi ýmist verið ómetanleg, þjóðargersemar eða menningarverðmæti. Hins vegar hafa takmarkaðar upplýsingar fengist um það um hvaða verk hafi nákvæmlega verið að ræða. Þannig hefur Tryggingamiðstöðin ekki viljað veita þessar upplýsingar á þeim forsendum að fyrirtækið væri ekki í aðstöðu til þess vegna trúnaðar við sína viðskiptavini.

Utanríkisráðuneytið hefur að sama skapi ekki viljað upplýsa hvað hafi verið bætt með almannafé með vísan í að um sé að ræða persónulegar eigur þeirra sem urðu fyrir tjóninu og að ráðuneytinu sé ekki heimilt að veita slíkar upplýsingar.

ÁBYRGÐ Á BÚSLÓÐUM

Engin bein lagaskylda?

Svo virðist sem ekki sé beinlínis kveðið á um það í lögum að íslenska ríkinu beri skylda til þess að tryggja tjón sem verður á búslóðum starfsmanna utanríkisþjónustunnar sem fluttar eru til erlendra ríkja vegna starfa þeirra þar. Utanríkisráðuneytið vísar í ákvæði laga nr. 39/1971 um utanríkisþjónustu Íslands þar sem kveðið er á um flutningsskyldu starfsmanna hennar en ekki hins vegar rætt þar um áðurnefnda ábyrgð ríkisins á búslóðum þeirra..

Pétur Ásgeirsson, sviðsstjóri rekstrar- og þjónustusviðs utanríkisráðuneytisins, segir að ríkið hafi í áratugi fylgt þeirri stefnu að tryggja sjálft sig að segja megi af hagkvæmnissjónarmiðum sem hafi vafalaust sparað því miklar fjárhæðir í gegnum tíðina. Þá séu fá dæmi um svo alvarleg tjón á búslóðum í sögu utanríkisþjónustunnar.