Friðrik Ólafsson
Friðrik Ólafsson
Átta stórmeistarar taka þátt í Friðriksmóti Landsbankans – Íslandsmótinu í hraðskák, sem fer fram í útibúi Landsbankans við Austurstræti 11 sunnudaginn 18. desember.

Átta stórmeistarar taka þátt í Friðriksmóti Landsbankans – Íslandsmótinu í hraðskák, sem fer fram í útibúi Landsbankans við Austurstræti 11 sunnudaginn 18. desember. Mótið er langsterkasta innlenda skákmót ársins og er haldið Friðriki Ólafssyni, fyrsta stórmeistara Íslendinga til heiðurs.

Meðal skráðra keppenda má nefna Jóhann Hjartarson, Helga Ólafsson, Jón L. Árnason og Íslandsmeistarann í skák, Héðin Steingrímsson. Einnig tekur þátt okkar nýjasti stórmeistari Stefán Kristjánsson og hinn ungi og efnilegi Hjörvar Steinn Grétarsson, sem náði sínum fyrsta stórmeistaraáfanga á EM landsliða fyrir skemmstu þar sem hann lagði m.a. sjálfan Alexei Shirov að velli. Flestir okkar sterkustu skákmenn af yngri kynslóðinni taka þátt og má þar nefna þau Vigni Vatnar Stefánsson (8 ára) og Nansý Davíðsdóttir (9 ára) sem þarna fá tækifæri til að kljást við sterkustu skákmenn þjóðarinnar. 80 skákmenn taka þátt og komust færri að en vildu.

Tefldar verða 11 umferðir með 7 mínútna umhugsunartíma á mann og er reiknað með að mótið standi á milli 13.00 og 16.30. Gestir og gangandi eru velkomnir á staðinn og er boðið upp á kaffi og með því. Hægt verður að fylgjast með helstu skák hverrar umferðar á risatjaldi.

Núverandi Íslandsmeistari í hraðskák er Jón Viktor Gunnarsson en hann sigraði á mótinu í fyrra ásamt Þresti Þórhallssyni.

Þetta er áttunda árið í röð sem Landsbankinn og Skáksamband Íslands standa fyrir Friðriksmótinu í skák.