[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jakob Smári Magnússon, bassaskáldið eina og sanna (líkt og hann titlar sig í símaskránni), fylgir hér eftir plötu sinni frá 2003, Bassajól. Á henni var að finna hin og þessi jólalög, eingöngu leikin á ýmsa bassa.

Jakob Smári Magnússon, bassaskáldið eina og sanna (líkt og hann titlar sig í símaskránni), fylgir hér eftir plötu sinni frá 2003, Bassajól. Á henni var að finna hin og þessi jólalög, eingöngu leikin á ýmsa bassa. Það sem leit hálffáránlega út á pappírunum reyndist svo vera hið merkilegasta verk. Að klæða lögin í þennan búning fól í sér eitthvað meira en nett flipp eða athyglisverða tilraun. Hátíðleg lög eins og „Heims um ból“, „Guðs kristni í heimi“ („O Come All Ye Faithfull“), „Hvít jól“ („White Christmas“) og „Bjart er yfir Betlehem“ öðluðust nýtt og annars konar líf, svo sannarlega „dýpra“ líf svo ég leyfi mér smávegis kerskni. Djúpur bassahljómurinn fól í sér bæði helgi og þægilega höfgi og maður datt í dágóða – og einkar ljúfa – jólastemningu. Tónlistin, eðlis síns vegna, var hreinlega afstressandi, um það sáu mjúkar, feitar og þægilegar línur hins geðþekka bassaskálds.

Hugmyndinni er fram haldið hér og er árangurinn sá sami. Betri ef eitthvað er. Fyrir það fyrsta er hljómur til muna betri, bassinn er ríkur og hljómmikill og það var stórkostlegt að keyra um í gærkvöldi í bíl sem nötraði af ágengum en umfaðmandi jólabassahljómi! Jakob beitir þá oft sniðugum lausnum ef ég má kalla það svo, bandalausi bassinn setur t.d. ákveðna áferð á lögin, sumum lögum er lyft með áslætti og Jakobi er lagið að beita smekklegum og oft á tíðum óvæntum brögðum í þessu verkefni sínu. Hvað get ég annað sagt en: Hafið það nú djúpt um jólin!

Arnar Eggert Thoroddsen