Deilt Frumvarp ríkisstjórnarinnar um 37,2 milljarða aukið framlag til AGS var harðlega gagnrýnt á Alþingi í gær.
Deilt Frumvarp ríkisstjórnarinnar um 37,2 milljarða aukið framlag til AGS var harðlega gagnrýnt á Alþingi í gær. — Morgunblaðið/Golli
Ómar Friðriksson omfr@mbl.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

„Það er vegleg jólagjöf sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur færir bákninu í Washington þessi jólin, bákninu sem reyndi að þvinga okkur til að borga Icesave,“ sagði Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um hækkun á kvóta Íslands af stofnfé Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við umræður á Alþingi í gær.

Önnur umræða um frumvarpið fór fram á þinginu í gær en skv. því mun kvóti Íslands hækka úr 117,6 milljónum SDR í 321,8 milljónir SDR, sem jafngildir um 58,3 milljörðum króna. Framlagið myndar sérstaka gjaldeyrisinnstæðu hjá AGS en nýtt framlag Íslands til sjóðsins verður 37,2 milljarðar kr.

Níu milljarðar fluttir á innistæðureikning hjá AGS

Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, benti á það við umræðurnar að fjórðungur fjárhæðarinnar yrði lagður fram í erlendum gjaldeyri með þeim hætti, að af innistæðu Íslendinga í gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans, á erlendum bankareikningum, verða níu milljarðar fluttir á innistæðureikning hjá AGS.

Tryggvi Þór sagði hins vegar að ríkisstjórnin ætlaði að framkvæma óhæfuverk á lokadögum þingsins með þessu frumvarpi, sem virtist eiga að lauma í gegn án umræðu.

Fáir þingmenn stjórnarmeirihlutans tóku þátt í umræðunni en Tryggvi Þór og fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar bentu á að hækkun stofnfjárframlagsins væri m.a. gerð til að standa straum af fjárhagsaðstoð við fallvölt aðildarríki AGS og fæli í sér mikla áhættu.

Guðlaugur Þór Þórðarson Sjálfstæðisflokki mælti fyrir nefndaráliti minnihluta efnahags- og viðskiptanefndar sem telur málið allt of seint fram komið. Það varði mikla fjárhagslega hagsmuni þjóðarinnar og óskiljanlegt sé að vinna mál sem varða tugi milljarða með þessum hætti.

Pétur H. Blöndal Sjálfstæðisflokki minnti á að AGS væri alltaf að taka áhættu og gæti tapað þeim peningum sem hann veitti ríkjum sem hefðu leitað ásjár hans í miklum vanda. Ef um stór ríki væri að ræða gæti AGS lent í því að stofnféð dygði ekki til. „Þetta er áhætta vegna þess að Seðlabankinn er að kaupa stofnbréf í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gæti farið á hausinn. Þá lendir Seðlabankinn í því að eiga ekki lengur þessa eign og þarf að afskrifa hana og þar af leiðandi hjá ríkissjóði sem tap,“ sagði hann og bætti við að ef svo færi þá lentu tugir milljarða á íslenskum skattgreiðendum.

Sjálfstæðsimenn lögðu til að málinu yrði aftur vísað til nefndar og skoðað þar þegar þing kemur aftur saman í lok janúar.

Helgi Hjörvar sagði nánast útilokað að sjá fyrir sér að AGS yrði gjaldþrota. Ef svo ólílega vildi til þá væri allur heimurinn í kaldakoli. „Þá yrði þessi inneign hluti af því vandamáli sem við þyrftum þá að glíma við. Hins vegar skapar aðild okkar að sjóðnum, eins og við þekkjum, okkur líflínu, möguleika á því að ef við verðum fyrir áfalli þá getum við leitað þangað og fengið stuðning til að rísa á fætur á ný, eins og við höfum góða reynslu af.“

Birgir Ármannsson Sjálfstæðisflokki sagði að í sér væri nokkur óhugur að samþykkja málið í ljósi vinnubragða stjórnarmeirihlutans.

SEGIR HNEYKSLI AÐ LAUMA MÁLINU Í GEGN

Efasemdir í öðrum löndum

Ásmundur Einar Daðason, Framsóknarflokki, sagði hneyksli að hér væri reynt að lauma frumvarpi um framlag Íslands til AGS í gegn rétt fyrir þinglok. Þessu væri öfugt farið í öðrum löndum. Í Þýskalandi varaði t.d. seðlabankinn mjög við sambærilegu frumvarpi um aukið framlag til AGS og óvíst væri hvernig því reiddi af í þýska þinginu. Miklar efasemdir og deilur væru líka á bandaríska þinginu og í Bretlandi um stóraukin fjárframlög til AGS.