Steinþór Pálsson
Steinþór Pálsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigrún Rósa Björnsdóttir sigrunrosa@mbl.is Ekki virðist hafa verið lagt mat á samkeppnisleg áhrif þess að undanskilja lífeyrissjóði fyrirhuguðum fjársýsluskatti, sem lagt er til að leggja á launagreiðslur í fjármála- og vátryggingastarfsemi.

Sigrún Rósa Björnsdóttir

sigrunrosa@mbl.is

Ekki virðist hafa verið lagt mat á samkeppnisleg áhrif þess að undanskilja lífeyrissjóði fyrirhuguðum fjársýsluskatti, sem lagt er til að leggja á launagreiðslur í fjármála- og vátryggingastarfsemi. Breytingartillaga meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar sem undanskilur lífeyrissjóði greiðslu skattsins var samþykkt á Alþingi eftir aðra umræðu í gær og vísað aftur til nefndar.

Með tillögu um undanþágu hafa vaknað upp spurningar um áhrif hennar á samkeppni, verði bönkum og sparisjóðum gert að greiða 5,45% fjársýsluskatt á meðan lífeyrissjóðir eru undanþegnir skattinum.

Íþyngjandi lagaumhverfi

Bankar eiga í samkeppni við lífeyrissjóði um bæði fasteignalán og séreignarsparnað einstaklinga. Í nefndaráliti 1. minnihluta efnahags- og viðskiptanefndar kemur fram að lífeyrissjóðir eru með um 15% hlutdeild á fasteignalánamarkaði, bankar um 27% og Íbúðalánasjóður það sem eftir stendur sem eru 58%.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans segir lagaumhverfið orðið óþarflega íþyngjandi og óstöðugt. Jafnræði þurfi að ríkja á milli aðila á samkeppnismarkaði.

„Með fjársýsluskattinum er búið að setja Íbúðalánasjóð, bankana og lífeyrissjóðina í þrjú mismunandi hólf. Íbúðalánasjóður býr við ríkisábyrgð á allri fjármögnun sinni, við verðum skattlögð mikið en lífeyrissjóðirnir ekki,“ segir Steinþór.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að Samkeppniseftirlitið hafi ekki tekið afstöðu til fyrirhugaðra breytinga en muni skoða þær í framhaldinu.

Umsagnir um skattinn
» Fjármálaeftirlitið sagði 18. nóvember að engin tilraun væri gerð til að meta áhrif skattsins á fjármálafyrirtæki og neytendur.
» Bankasýslan sagði 17. nóvember mikilvægt að skoða af kostgæfni áhrif fyrirhugaðrar skattlagningar á afkomu fjármálafyrirtækja.