Störf Langtímaatvinnuleysi virðist vera að festa sig í sessi hér á landi. Því hefur VR mótmælt síðustu daga með ýmsum táknrænum aðgerðum og fleiri láta til sín taka í þessu málefni.
Störf Langtímaatvinnuleysi virðist vera að festa sig í sessi hér á landi. Því hefur VR mótmælt síðustu daga með ýmsum táknrænum aðgerðum og fleiri láta til sín taka í þessu málefni. — Morgunblaðið/Golli
Atvinnuleysi mældist 7,1% í nóvember sl. sem er, að mati greiningardeildar Íslandsbanka, í takti við það sem reiknað var með. Frá október hefur skráð atvinnuleysi aukist um 0,3% sem er í samræmi við bundna árstíðarsveiflu. Að meðaltali voru 11.

Atvinnuleysi mældist 7,1% í nóvember sl. sem er, að mati greiningardeildar Íslandsbanka, í takti við það sem reiknað var með. Frá október hefur skráð atvinnuleysi aukist um 0,3% sem er í samræmi við bundna árstíðarsveiflu. Að meðaltali voru 11.348 manns án atvinnu í nóvember og fjölgaði um 430 manns frá fyrri mánuði. Í sama mánuði í fyrra voru að meðaltali 12.363 án atvinnu, eða um 7,7% af vinnuafli. Hefur því bótaþegum fækkað á milli ára og atvinnuleysi minnkað. Frá hruni hefur atvinnuleysi almennt verið mun meira á meðal karla en kvenna. Nú hefur þetta snúist við. Í nóvember mældist skráð atvinnuleysi kvenna 7,3% en hjá körlum 6,9%.

Í nóvember sl. hafði rúmlega helmingur þeirra sem var á atvinnuleysisskrá verið án atvinnu í hálft ár eða lengur. Er þetta nokkuð lægra hlutfall en á undanförnum mánuðum. „Ekki er ósennilegt að þetta hlutfall haldi áfram að lækka og nái þá lágmarki í janúar næstkomandi eins og oftast er raunin. Er þar árstíðarsveiflan aftur á ferðinni sem felur í sér að atvinnuleysi eykst oftast eftir því sem líður á veturinn,“ segir Íslandsbanki.

Þeir sem eru skilgreindir langtímaatvinnulausir hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur. Í nóvember átti það við um 4.549 einstaklinga á skrá, eða sem nemur um 37% atvinnulausra. „Sé tekið mið af þeim hópi sem hefur verið atvinnulaus í tvö ár eða lengur þá voru þeir 2.066 talsins í nóvember, eða sem nemur um 17% atvinnulausra, en þessi hópur hefur aldrei verið fjölmennari en nú,“ segir Íslandsbanki sem telur langtímaatvinnuleysi eitt helsta vandamálið eftir hrun.