— Ljósmynd/Sunnefa Burgess
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Sunnefa Burgess hafði lengi haft hug á hjálparstörfum erlendis. Eftir að hafa farið á kynningu alþjóðlegu samtakanna AISEC á hjálparstörfum ákvað hún að láta slag standa.

Viðtal

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Sunnefa Burgess hafði lengi haft hug á hjálparstörfum erlendis. Eftir að hafa farið á kynningu alþjóðlegu samtakanna AISEC á hjálparstörfum ákvað hún að láta slag standa. Tansanía varð fyrir valinu, en Sunnefa taldi að þar væri mikil þörf fyrir aðstoð af þessu tagi. Þetta fór þó á nokkuð annan veg en hún hafði búist við.

„Það gekk mjög illa að fá upplýsingar frá Tansaníu áður en ég fór,“ segir Sunnefa, en hún lagði af stað í lok maí síðastliðins. „Ég vissi til dæmis ekki hvað ég átti að taka með mér og fékk lítil svör við spurningum mínum um starfið sem var framundan.“ Hún segir að þegar út var komið hafi fljótlega komið í ljós að ýmsu var ábótavant. „Ég var sótt á flugvöllinn í Dar es Salaam og farið var með mig í hús samtakann. Þar voru þrjár grátandi stelpur; frá Bandaríkjunum, Kanada og Tékklandi. Þær höfðu komið til Tansaníu í sama tilgangi og ég. Sú sem hafði verið lengst var búin að vera þarna í þrjár vikur en hafði ekkert fengið að koma nálægt hjálparstörfum allan þann tíma.“

Fékk fá svör

Sunnefa segir að sér hafi verið brugðið þegar hún sá hvernig var í pottinn búið. „Við fengum fá svör og ákváðum þá að taka málin í okkar hendur en við vissum að von var á 40 sjálfboðaliðum eftir nokkrar vikur. Þau áttu öll að vera í sama húsnæði og við, sem var þriggja herbergja íbúð. Við undirbjuggum komu þeirra, settum upp heimasíðu fyrir hjálparstarfið í Tansaníu og skipulögðum starf fyrir þau. Þannig að þegar þau komu lágu fyrir verkefni sem þau gátu tekið að sér.“

Upphaflega stóð til að Sunnefa starfaði við hjálparstörf í sex vikur, aðallega á heimili fyrir munaðarlaus börn og við fræðslu um HIV fyrir unglinga. „Það er svo mikil þörf fyrir alls konar aðstoð í þessu landi. Þarna er mikil fátækt og mörg börn munaðarlaus. Þess vegna finnst mér sorglegt að ég hafi verið komin alla leið þangað og síðan ekki fengið að gera neitt. Fyrst var ég mjög reið og vissi hreinlega ekki hvað ég átti að gera. En ég held að þetta hafi fyrst og fremst verið vegna kunnáttuleysis, að þeir sem ætluðu að skipuleggja hjálparstarfið hafi ekki þekkt aðstæður þarna úti. Til dæmis er mjög erfitt að fara í skóla og fræða unglinga um HIV-smit þegar það er bannað samkvæmt trú þeirra að tala um kynlíf og smokka.“

Áhuginn enn til staðar

Sunnefa álasar ekki AISEC á Íslandi fyrir hvernig fór, enda segir hún þau samtök eingöngu hafa staðið fyrir kynningunni. Hún var í landinu þann tíma sem til stóð og ferðaðist mikið um landið og nágrannalöndin. Sunnefa greiddi allan kostnað af ferðalaginu og uppihaldinu, ásamt því að greiða leigu.

Og reynslan hefur ekki dregið úr áhuga Sunnefu á hjálparstörfum. „Ég var auðvitað vonsvikin og fyrst fannst mér þetta hafa drepið niður allan áhuga hjá mér. Síðan ákvað ég að líta málið öðrum augum og ég er sannfærð um að ég hafi lagt ýmislegt af mörkum þarna, með því að undirbúa komu og störf fyrir fleiri sjálfboðaliða. Ég gæti vel hugsað mér að fara aftur utan í hjálparstarf en það yrði að vera á vegum samtaka sem ég gæti treyst. Ég var bara óheppin og kenni engum um.“

Var tilbúin að taka til hendinni í Tansaníu

Sunnefa Burgess fór til hjálparstarfa í Tansaníu í maí á vegum alþjóðlegra samtaka. Hún segir að vegna þekkingarleysis þeirra sem stóðu að hjálparstarfinu hafi hún ekki fengið að starfa neitt við hjálparstarf. Henni þykir það miður, þar sem mikil fátækt og neyð ríkir í landinu. Reynslan varð þó ekki til þess að Sunnefa missti áhugann á hjálparstarfi á erlendri grundu og hún segist vel geta hugsað sér að fara aftur utan.

LENTI Í SÓMALÍSKU MAFÍUNNI

Í klóm óprúttins leigubílstjóra

Sunnefa lenti í heldur óskemmtilegri lífsreynslu ásamt vinkonum sínum úr hjálparstarfinu, en þeim var rænt er þær voru á leið heim úr ferðalagi. „Við vorum að prútta við tvo leigubílstjóra og sömdum við annan þeirra. Við fórum inn í bílinn, hinn bílstjórinn kom líka og sagðist þurfa að túlka fyrir hinn. Okkur fór að finnast þetta skrýtið sögðumst vilja fara út úr bílnum. Þeir óku þá inn í húsasund, slökktu ljósin á bílnum og sögðust tilheyra sómalísku mafíunni.“ Sunnefa segir mennina hafa hótað þeim öllu illu og að þeir hafi verið vopnaðir. „Þeir tóku af okkur alla peningana okkar og annar þeirra lagðist ofan á okkur þannig að við gátum ekki hreyft okkur. Síðan ókum við á milli hraðbanka í þrjá tíma á meðan þeir voru að reyna að taka peninga út af kreditkorti einnar af okkur. Þeir leyfðu okkur síðan að fara en tóku myndavélarnar okkar og símana.“