Óslitinn þráður: Brynjólfur Bjarnason, formaður Kommúnistaflokks Íslands 1930-1938, Einar Olgeirsson, formaður Sósíalistaflokksins
1939-1968, og Lúðvík Jósepsson, formaður Alþýðubandalagsins 1977-1980. Myndin er tekin á landsfundi Alþýðubandalagsins.
Óslitinn þráður: Brynjólfur Bjarnason, formaður Kommúnistaflokks Íslands 1930-1938, Einar Olgeirsson, formaður Sósíalistaflokksins 1939-1968, og Lúðvík Jósepsson, formaður Alþýðubandalagsins 1977-1980. Myndin er tekin á landsfundi Alþýðubandalagsins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svar við athugasemdum Kjartans Ólafssonar Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Kjartan Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins og ritstjóri Þjóðviljans, gerir í Morgunblaðinu 11. desember 2011 ýmsar athugasemdir við bók mína, Íslenska kommúnista 1918-1998. Ekki eru þær þó um neitt, sem ég hafi beinlínis missagt, heldur um hitt, hvernig túlka skuli heimildir og líta á liðna tíð.

Kommúnistaflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn

Kjartan viðurkennir, að tveir forystumenn íslenskra sósíalista, þeir Einar Olgeirsson og Lúðvík Jósepsson, hafi alla tíð viljað náin tengsl við Ráðstjórnarríkin. Þetta „gefur ekki til kynna“, segir Kjartan hins vegar, „að þeir hafi verið „erindrekar erlends valds“ eins og nýlega var fullyrt, enda verður hvergi séð að þeir hafi verið líklegir til að ganga erinda Sovétríkjanna gegn íslenskum hagsmunum.“

Ekki verður um það deilt, að gamli kommúnistaflokkurinn (1930-1938) rak erindi erlends valds, enda var hann deild í Komintern, Alþjóðasambandi kommúnista, og laut reglum þess. Engar heimildir hafa fundist um, að flokkurinn hafi fengið undanþágur frá þeim verkefnum, sem byltingarflokkur skyldi sinna. En ég skal hér nefna nokkur dæmi þess, að forystumenn Sósíalistaflokksins (1938-1968) hafi í erindrekstri fyrir hina alþjóðlegu kommúnistahreyfingu gengið gegn íslenskum hagsmunum.

Gengu gegn íslenskum hagsmunum

Í stríðsbyrjun upplýsti blað sósíalista, Þjóðviljinn, sem var þá undir ritstjórn Einars Olgeirssonar, um strangleynilegt samkomulag Breta og Íslendinga um viðskipti, sem tók mið af hafnbanni Breta á Þýskalandi Hitlers. Þetta var stórhættulegt íslenskum hagsmunum: Með því egndu sósíalistar Þjóðverja til árása á íslenska skipaflotann og til hefndarráðstafana að stríði loknu. Sósíalistar fylgdu þá þeirri línu frá Moskvu, að stríðið væri aðeins stríð tveggja jafnvondra auðvaldsríkja og Chamberlain engu betri en Hitler. Þá höfðu Stalín og Hitler skipt með sér Mið- og Austur-Evrópu.

Annað dæmi er, að Þjóðviljinn hamaðist gegn breska hernámsliðinu, svo að sumum forystumönnum Sósíalistaflokksins þótti nóg um, til dæmis Áka Jakobssyni. Börðust Einar Olgeirsson og aðrir sósíalistar fyrir því vorið 1941, að fiskflutningum til Bretlands yrði hætt, en þeir voru lífsnauðsynlegir Bretum, sem þá stóðu nær einir síns liðs gegn Hitler, en einnig mikilvægir Íslandi. Einnig reyndu sósíalistar að efna til illinda milli breska herliðsins hér og íslenskra verkamanna. Þeir hvöttu breska hermenn jafnvel til að óhlýðnast fyrirmælum yfirmanna sinna.

Þriðja dæmið er, þegar Einar Olgeirsson hafði tal af sendimanni ráðstjórnarinnar í Reykjavík í ársbyrjun 1947 og lagði til, að ekki yrði samið um viðskipti milli Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, enda gæti það orðið til að fella þáverandi ríkisstjórn, sem Sósíalistaflokkurinn var í andstöðu við.

Fjórða dæmið er, þegar sósíalistar börðust harkalega gegn því, að Íslendingar fengju aðild að Marshall-áætlun Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja, sem var mikilvæg til að auðvelda milliríkjaviðskipti, jafnframt því sem Bandaríkjastjórn lagði fram stórfé til framkvæmda á Íslandi.

Fimmta dæmið er, þegar þingmenn Sósíalistaflokksins fengust ekki 1961 til að mótmæla kjarnorkuvopnatilraunum Moskvumanna í Norður-Íshafi, en veruleg hætta var talin stafa af þessum tilraunum.

Fylgdu línunni frá Moskvu

Ég kann aðeins eitt dæmi um það, að Sósíalistaflokkurinn hafi ekki farið eftir línunni frá Moskvu: Hann var ófáanlegur til að fordæma þá valdaflokka kommúnista, sem fallið höfðu í ónáð í Moskvu, til dæmis hinn júgóslavneska, albanska og kínverska, en allir héldu þeir uppi grimmilegri harðstjórn. Má segja, að þar hafi Sósíalistaflokkurinn verið kommúnískari en sjálfur móðurflokkurinn í Moskvu.

Síðan má bæta við sjötta dæminu að Sósíalistaflokknum gengnum: Alþýðubandalagsmenn héldu því iðulega fram á níunda áratug, eftir að Kremlverjar höfðu stóraukið vígbúnað sinn í Evrópu, að í Keflavík væri árásar- og kjarnorkustöð. Með því egndu þeir Kremlverja í raun gegn Íslandi svipað og sósíalistar höfðu egnt Þjóðverja í stríðsbyrjun.

Eftir innrásina í Tékkóslóvakíu 1968 hættu flestir talsmenn Alþýðubandalagsins að verja Kremlverja opinberlega. En eins og Kjartan Ólafsson rifjar sjálfur upp, tóku þeir þá sumir til bragðs að leggja Kremlverja að jöfnu við Bandaríkjastjórn, svipað og sósíalistar höfðu gert í upphafi stríðs, þegar þeir töldu engan mun á Hitler og Chamberlain. Slík misnotkun jafnaðarmerkisins er ekki aðeins röng sögulega, heldur líka siðferðilega.

Jafnframt börðust sömu menn jafnan gegn hagsmunum Vesturveldanna á alþjóðavettvangi. Enn fremur má minna á ofsafengin skrif Magnúsar Kjartanssonar, ritstjóra Þjóðviljans, til stuðnings kommúnistum í Víetnam og Kambódíu.

Hvor er trúverðugri: Einar eða Kjartan?

Kjartan Ólafsson telur, að ekki eigi að taka mark á skýrslu 1972 frá austurþýskum sendimanni, sem skrifaði það upp eftir Einari Olgeirssyni, að ýmsir nafngreindir forystumenn Alþýðubandalagsins, þar á meðal Svavar Gestsson, vildu endurnýja tengsl við Ráðstjórnarríkin og önnur ríki Varsjárbandalagsins, sem slitnað hefðu 1968.

Vissulega sagði Einar Olgeirsson ekki alltaf satt. Hann fullyrti til dæmis í blaðaviðtölum 1979, að íslenskir kommúnistar hefðu aldrei tekið við fé frá Moskvu, eins og Þór Whitehead hafði þá skýrt frá í bók. Í ótal skjölum frá Moskvu kemur hins vegar fram, að Einar tók sjálfur oft við fé þaðan.

En ef hæpið er að treysta Einari Olgeirssyni þegar árið 1972, eins og Kjartan Ólafsson segir, hvað má þá segja um tveggja binda minningar, sem skráðar voru eftir honum 1980 og 1983? Hér læt ég nægja að benda á, að deilan er ekki á milli mín og Kjartans Ólafssonar, heldur á milli Einars Olgeirssonar og Kjartans. Í þeirri deilu hef ég ekkert dómsvald og því tilgangslaust að reka hana gegn mér í Morgunblaðinu.

Afstaða Svavars Gestssonar

Þótt Alþýðubandalagið sliti opinberlega tengsl við Ráðstjórnarríkin og önnur ríki Varsjárbandalagsins 1968, héldu ýmsir forystumenn þess, þar á meðal formaður þess 1977-1980, Lúðvík Jósepsson, góðu sambandi við valdhafa þessara ríkja, eins og Kjartan Ólafsson viðurkennir. Getur Kjartan trútt um talað, þar eð hann var einmitt varaformaður Alþýðubandalagsins í formannstíð Lúðvíks.

Kjartan Ólafsson telur hins vegar, að formaður flokksins 1980-1987, Svavar Gestsson, hafi ólíkt Lúðvík ekki viljað endurnýja tengslin við Varsjárbandalagsríkin. Heimsókn hans til Moskvu 1981, sem ég nefni í bók minni, hafi verið kurteisisheimsókn. En Kjartan getur þess ekki, sem fram kemur í bók minni, að þetta var samkvæmt skjölum í Moskvu flokksboð undir yfirskini opinberrar heimsóknar. Miðstjórn kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna ákvað 29. ágúst 1980 að bjóða Svavari austur, og þekktist hann boðið. Hvernig kemur það heim og saman við fullyrðingu Kjartans um andstöðu Svavars við endurnýjuð tengsl austur fyrir? Skyldi Einar Olgeirsson vera trúverðugri heimildarmaður um afstöðu Svavars en Kjartan vill vera láta?

Kjartan segir líka, að Svavar Gestsson hafi hætt námi í marxískum fræðum í Austur-Þýskalandi vorið 1968 vegna óánægju með stjórnarfar þar. En hvers vegna kemur allt annað fram í austurþýskum skjölum, eins og ég rek í bók minni? Og hvers vegna sagðist Svavar í sjónvarpsviðtali 1995 hafa forðum verið í Humboldt-háskólanum, þegar sannleikurinn var sá, að hann var í æðsta flokksskóla miðstjórnar austurþýska kommúnistaflokksins?

Meira máli skipti þó, að Svavar Gestsson hafði eftir 1968 tengsl við ýmsa valdaflokka kommúnista, til dæmis kommúnistaflokk Rúmeníu. Lét Svavar meira að segja þá von í ljós opinberlega, að einræðisherrann alræmdi, Nicolae Ceausescu, yrði til að sameina hina alþjóðlegu kommúnistahreyfingu. Svavar hafði ekki áhyggjur af hinum kúguðu, heldur af sundrungu í röðum kúgaranna.

1989 sagði friðarsinninn Svavar Gestsson á samkomu, að helst vildi hann fara suður til Afríku eða Níkaragva til að „berjast með félögunum“. Og 1998 þekktist Svavar heimboð kúbverska kommúnistaflokksins ásamt fleiri áhrifamönnum í Alþýðubandalaginu. Þá voru Kúba og Norður-Kórea einu hreinræktuðu kommúnistaríkin eftir í heiminum. Talið er, að um 30 þúsund manns hafi beinlínis týnt lífi af völdum kúbverskra kommúnista, tugþúsundir manna hafa þar setið í fangelsi af stjórnmálaástæðum, um eitt hundrað þúsund manns hefur reynt að flýja sjóleiðina frá Kúbu til Bandaríkjanna, og um tvær af ellefu milljónum Kúbverja búa í útlegð.

Næg rök eru því fyrir þeirri niðurstöðu minni, að afstaða Alþýðubandalagsins til kommúnismans hafi verið tvíræð, þótt ekki beri að telja það kommúnistaflokk.

Hvert rann Rússagullið?

Kjartan Ólafsson viðurkennir, að Sósíalistaflokkurinn tók við stórfé frá Moskvu, en telur, að það hafi mestallt runnið til Máls og menningar. Þar eru áreiðanlega ekki öll kurl komin til grafar. Sum skjalasöfn í Moskvu eru enn lokuð. Raunar gerir það hlut íslenskra sósíalista í sögu Íslands enn verri, ef hin miklu áhrif þeirra í menningarlífinu voru aðallega í krafti Rússagulls. Verður þjóðernistal þeirra Kristins E. Andréssonar, forstjóra Máls og menningar, og Einars Olgeirssonar þá heldur ámáttlegt.

Ég bendi á það í bók minni, að gamli kjarninn úr kommúnistaflokknum, sem stjórnaði Sósíalistaflokknum og síðar Alþýðubandalaginu, réði yfir fjórum stórhýsum í Reykjavík, ekki aðeins Laugavegi 18, sem var kallað „Rúblan“, heldur líka Skólavörðustíg 19, Þingholtsstræti 27 og Tjarnargötu 20. Ég trúi því ekki, að þessi hús hafi verið keypt eingöngu fyrir fé úr sigggrónum verkamannahöndum.

Kjartan Ólafsson gleymir einnig öllu því Rússagulli í mynd boðsferða og námsstyrkja, sem hann úthlutaði sjálfur á sjöunda áratug, á meðan hann var framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins. Hann getur þess ekki heldur, sem fram kemur í bók minni, að hinn austurþýski „bræðraflokkur“ (eins og kommúnistaflokkur Austur-Þýskalands var jafnan nefndur) sá um það fyrir Sósíalistaflokkinn að koma íslenskum stúdentum í Austur-Þýskalandi á kjörstað í Vestur-Þýskalandi í að minnsta kosti tvennum kosningum. Einnig héldu austurþýskir kommúnistar sérstakan skóla fyrir Sósíalistaflokkinn sumarið 1960, þótt hann leystist að vísu upp í óreglu. Með fádæmum er, að erlend einræðisstjórn kosti þannig flokksstarf í öðru landi.

Því síður minnist Kjartan á það, sem upplýst er í bók minni, að Kremlverjar fjármögnuðu að minnsta kosti tvisvar vinnudeilur á Íslandi, 1952 og 1961. Dagsbrún, sem fékk þá stóra styrki að austan, var eins og Mál og menning ein aðalstoðin í valdakerfi Sósíalistaflokksins.

Óslitinn þráður

Tuttugasta öldin var öld alræðisstefnunnar, nasisma og kommúnisma. Um eitt hundrað milljón manns týndi lífi af völdum kommúnismans, og líf hundruða milljóna annarra var eyðilagt. Hér á Íslandi gekk áhrifamikill hópur fram undir merki kommúnismans. Kjartan Ólafsson skrifaði í Þjóðviljann á 75 ára afmæli Einars Olgeirssonar 1977: „En gæfa Þjóðviljans og stjórnmálasamtaka íslenskra sósíalista hefur verið sú, að þráðurinn frá því fyrsta til þessa dags er þrátt fyrir sitt hvað, sem á milli ber, óslitinn. Þótt framtíðin sé verkefnið, lifir fortíðin í okkur og við í henni.“ Ég skil vel, að Kjartan Ólafsson láti nú svo sem þráðurinn hafi slitnað, tæpum áratug áður en hann mælti þessi orð, en hann fær ekki breytt staðreyndum sögunnar.