Eyjafjallajökull Mikilvægi Veðurstofunnar fyrir alþjóðflugið kom vel í ljós í eldgosinu. Áhrif gossins voru mikil á farþegaflug víða um heim. Flugferðir voru lagðar niður og fjölmargir flugfarþegar urðu strandaglópar.
Eyjafjallajökull Mikilvægi Veðurstofunnar fyrir alþjóðflugið kom vel í ljós í eldgosinu. Áhrif gossins voru mikil á farþegaflug víða um heim. Flugferðir voru lagðar niður og fjölmargir flugfarþegar urðu strandaglópar. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Veðurstofa Íslands tekur mikinn þátt í alþjóðlegu samstarfi. Það skýrir 94 utanlandsferðir á vegum stofnunarinnar fyrstu níu mánuði ársins og ferðakostnað upp á 13 milljónir króna.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Veðurstofa Íslands tekur mikinn þátt í alþjóðlegu samstarfi. Það skýrir 94 utanlandsferðir á vegum stofnunarinnar fyrstu níu mánuði ársins og ferðakostnað upp á 13 milljónir króna. Upplýsingar um það komu fram í svari umhverfisráðuneytisins við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar alþingismanns. Samstarf Veðurstofunnar við erlendar stofnanir hefur skilað þeim kostnaði „miklu meira en margfalt“ til baka, að sögn Árna Snorrasonar forstjóra.

Árni sagði að Veðurstofan væri hlekkur í alþjóðakerfi veðurstofa sem rekið væri af 189 þjóðum.

„Við streymum okkar gögnum stöðugt um allan heim og fáum gögn til okkar,“ sagði Árni. Hann sagði mikilvægt að athuganir og gögn Veðurstofunnar í miðju Norður-Atlantshafi kæmust til skila. „Við eigum aðild að Alþjóða veðurfræðistofnuninni (WMO) og höfum gengist undir það að kerfi okkar virki, gögnin séu af viðunandi gæðum og aðferðafræðin við veður- og vatnsrannsóknir sé samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Þetta kallar á talsvert samstarf,“ sagði Árni. Þing WMO eru haldin á fjögurra ára fresti og var aðalfundurinn á liðnu vori.

Veðurstofan er hluti af innviðum Evrópusamstarfs um veðurrannsóknir og -athuganir. Samtökin eiga tvær stofnanir. Annars vegar EUMETSAT sem útvegar veðurstofum um allan heim einna bestu veðurupplýsingarnar sem aflað er úr geimnum. Hins vegar ECMWF sem m.a. annast langtímaveðurspár. Á þessu ári sótti Ísland um fulla aðild að ECMWF. Stofnunin er í fremstu röð og lykilstofnun í veðurspárgerð hér á landi, að sögn Árna.

Evrópsku veðurstofurnar mynda sameiginlega EUMETNET sem er með margháttað samstarf á sviði veðurfræði og veðurrannsókna. „Mikilvægasti hlutinn af því er að þétta mælikerfið á svæðinu. M.a. leggur stofnunin fé til þess að við getum rekið háloftastöð á Egilsstöðum, sett út veðurdufl á hafinu og margt fleira í sambandi við veðurmælikerfi,“ sagði Árni. Hann sagði þetta samstarf kalla á nærveru Veðurstofunnar á reglulegum fundum.

Fyrir þremur árum voru Vatnamælingar Orkustofnunar og Veðurstofa Íslands sameinaðar í nýrri stofnun og hefur ný forysta stofnunarinnar þurft að kynna sér málin, kynna sig og treysta samstarfið.

Þá hefur mikil spurn verið eftir sérfræðingum Veðurstofunnar bæði hjá alþjóðastofnunum og í vísindasamfélaginu til að kynna starfsemi og hlutverk Veðurstofu Íslands.

ELDFJALLAVÖKTUN

500 milljóna vöktunarkerfi

Mikilvægi þjónustu Veðurstofunnar í við alþjóðaflugið kom vel í ljós í Eyjafjallajökulsgosinu. Eftir gosið hefur Veðurstofan sótt stuðning til alþjóðaflugsins til að bæta kerfin hér svo auka meg þjónustuna.

„Á tveimur árum erum við búin að fá ákvarðanir um uppbyggingu á radarkerfi. Við erum með einn fastan radar en bætum öðrum við og fáum tvo færanlega radara til að fylgjast með eldgosum,“ sagði Árni. Veðurstofan hefur fengið um hálfan milljarð króna til uppbyggingar á innviðum frá Alþjóðaflugmálstofnuninni ICAO. Hún borgar líka rekstur kerfanna og hefur fjármagnað þrjár nýjar stöður á Veðurstofunni.

Alþjóðaflugmálastofnunin kallar þessa starfsemi State Volcano Observatory sem þýða má sem Eldfjallavöktun Íslands.