Gylfi Zoega
Gylfi Zoega
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Í tímaritinu Vísbendingu ritaði Gylfi Zoëga, prófessor við Háskóla Íslands, nýlega grein þar sem hann m.a.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Í tímaritinu Vísbendingu ritaði Gylfi Zoëga, prófessor við Háskóla Íslands, nýlega grein þar sem hann m.a. bendir á að þrátt fyrir aukningu í hagvexti að undanförnu sé enn langur vegur frá því að atvinnulífið hafi náð sér að fullu eftir þá miklu fjármálakreppu sem landið hefur þurft að glíma við.

Umbreyting atvinnuleysisbóta

Í greininni segir Gylfi m.a. að þau viðbrögð sem viðhöfð voru hér á landi í upphafi kreppunnar; að vernda þá er lentu í því að missa atvinnu sína, séu skiljanleg en nú sé brýnt að hvetja einstaklinga aftur til vinnu og einnig að hvetja fyrirtæki til að búa til fleiri störf. Segir hann mikilvægt að bótakerfið virki bæði sem hvati fyrir einstaklinga til að sækjast eftir vinnu og hvati fyrir vinnuveitendur að ráða til sín nýtt fólk sem hefur verið án atvinnu til lengri tíma. Segir hann það geta reynst gagnlegt á tímum sem þessum að beita óhefðbundnum ráðum en eitt þeirra er að ríkið taki á sig þann kostnað sem oft hlýst af ráðningu og þjálfun nýs starfsfólks og greiði þannig fyrir minnkun atvinnuleysis.

Í því samhengi nefnir Gylfi kerfi sem hagfræðingurinn Dennis Snower hefur löngum mælt fyrir en þar gefst atvinnulausum færi á að umbreyta atvinnuleysisbótum sínum í styrk til vinnuveitenda en markmiðið með því er að stuðla að framtíðarráðningu viðkomandi ásamt því að kosta þjálfun hans. Að auki nefnir Gylfi í grein sinni að slík umbreyting bóta hafi að auki þann kost í för með sér að ekki séu taldar líkur á því að þörf verði á auknum fjárveitingum af hálfu ríkissjóðs.