Heiðar Helguson afslappaður í matsalnum á æfingasvæði QPR í vikunni.
Heiðar Helguson afslappaður í matsalnum á æfingasvæði QPR í vikunni. — Morgunblaðið/Orri Páll Ormarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einhverjir héldu að Heiðari Helgusyni hefði verið skolað með baðvatninu niður um deildir í Englandi. Öðru nær. Dalvíkingurinn virðist eiga jafnmörg líf og kötturinn og um þessar mundir er hann einn heitasti miðherjinn í úrvalsdeildinni, 34 ára gamall.

Einhverjir héldu að Heiðari Helgusyni hefði verið skolað með baðvatninu niður um deildir í Englandi. Öðru nær. Dalvíkingurinn virðist eiga jafnmörg líf og kötturinn og um þessar mundir er hann einn heitasti miðherjinn í úrvalsdeildinni, 34 ára gamall. Hefur gert 6 mörk í 7 leikjum. Þökk sé vinnusemi og ódrepandi baráttuanda. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Kunnuglegt andlit birtist innan um öll ungmennin í matsalnum á æfingasvæði Queens Park Rangers í Lundúnum. Heiðar Helguson nikkar kumpánlega til mín og gefur mér merki um að koma afsíðis, þar sem er meira næði. Það er gauragangur í salnum, unglingaliðið að gúffa í sig hádegismatnum með tilheyrandi gjálfri. Fyrir utan er varaliðið að keppa við Tottenham. Nýbúið að bera aumingja Kieron Dyer af velli. Enn og aftur. Fátt er um aðalliðsmenn á svæðinu, æfingu er lokið og menn farnir að heimsækja skólana í borginni, eins og tíðkast fyrir jólin. Heiðar varð að vísu eftir hjá sjúkraþjálfara enda allt kapp lagt á að gera hann leikfæran fyrir helgina. Smávægileg meiðsli í nára komu í veg fyrir að Dalvíkingurinn spilaði gegn Liverpool um síðustu helgi – og það stórsá á sóknarleik Rangers.

Heiðar er afslappaður í æfingagallanum og strigaskóm eftir að sjúkraþjálfarinn sleppir honum í mínar hendur. Það er þriðjudagur og beint liggur við að spyrja hann fyrst um heilsufarið þegar við höfum komið okkur fyrir í afdrepi inn af matsalnum. „Ég verð klár í slaginn um helgina, þetta var ekkert alvarlegt,“ segir hann ákveðinn þegar fimm dagar eru til stefnu.

Góður félagsskapur

Andstæðingurinn í hádeginu dag, sunnudag, er Manchester United, meistararnir sjálfir, og finni Heiðar netmöskvana slær hann met hjá félaginu. Enginn leikmaður QPR hefur skorað í fimm leikjum í röð á heimavelli í úrvalsdeildinni. Heiðar jafnaði met Les Ferdinands í síðasta leiknum á Loftus Road, gegn West Bromwich Albion. Ferdinand er einn af dáðustu sonum QPR frá upphafi vega og Heiðar er stoltur af því að deila metinu með honum. „Það er ekki amalegur félagsskapur,“ segir hann brosandi.

Metið verður honum þó ekki efst í huga þegar flautað verður til leiks í dag. „Ég mun reyna að skora í þessum leik, eins og öllum öðrum leikjum sem ég spila, burtséð frá þessu meti. Auðvitað yrði gaman að slá það en aðalatriðið er að hjálpa liðinu að ná í þrjú stig.“

Heiðar átti drjúgan þátt í að tryggja QPR sæti meðal hinna bestu á síðustu leiktíð – í fyrsta sinn í fimmtán ár. Gerði 13 mörk í 34 deildarleikjum. Eftir að knattspyrnustjórinn, Neil Warnock, fór hamförum á leikmannamarkaði í sumar gerði hann sér aftur á móti fulla grein fyrir því að hlutverk hans hjá félaginu hafði breyst. „Þegar ég skrifaði undir nýjan samning til eins árs síðasta sumar vissi ég alveg út í hvað ég var að fara. Stjórinn keypti einhverja ellefu eða tólf nýja leikmenn, þeirra á meðal framherjana Jay Bothroyd og DJ Campbell, og sagði mér beint út að ég yrði ekki fyrsta val. Ég myndi þó örugglega fá eitthvað að spila. Ég sætti mig við þessa skilmála enda hef ég verið í þessum sporum áður og veit að hlutirnir geta verið fljótir að breytast.“

Orð að sönnu.

Þess má geta að Campbell fékk gamla númerið hans Heiðars, 9. Hann hefur að mestu verið frá vegna meiðsla.

Minni slagsmál

Að því kom að Heiðar fékk sitt tækifæri um miðjan október. Hann tók því opnum örmum og hefur ekki litið um öxl síðan. Er langmarkahæsti leikmaður félagsins, með sex mörk í níu leikjum. Þar af hefur hann aðeins byrjað inn á í sjö. „Þetta hefur gengið mjög vel að undanförnu. Það hljómar kannski undarlega en það hentar mér á margan hátt betur að spila í úrvalsdeildinni en b-deildinni. Það eru minni slagsmál og yfirleitt rýmri tími til að jafna sig milli leikja. Það kemur sér vel þegar maður er kominn á þennan aldur,“ segir Heiðar sem hélt upp á 34 ára afmæli sitt í sumar.

Síðasta úrvalsdeildarfélagið sem Heiðar lék með var Bolton, frá 2007 til 2009, en þar fékk hann afar fá tækifæri eftir að knattspyrnustjórinn sem keypti hann, Sammy Lee, var látinn taka pokann sinn. Spurður hvort hann hafi átt von á því að ferli hans í úrvalsdeildinni væri lokið þegar hann yfirgaf Bolton hugsar Heiðar sig stundarkorn um. „Maður heldur alltaf í vonina en satt best að segja átti ég ekkert frekar von á því að leika aftur í úrvalsdeildinni.“

Enda þótt Heiðar hafi fest sig í sessi í liði QPR í augnablikinu er ekkert sjálfgefið í hinum harða heimi atvinnumennskunnar. „Ég veit að það er klisja en ég get ekki leyft mér að hugsa lengra en um næsta leik. Meðan ég stend mig vel og held áfram að skora fæ ég væntanlega að spila en um leið og ég gef eftir eru aðrir tilbúnir að koma í minn stað. Þeir leikmenn sem eru núna í sömu sporum og ég var í við upphaf keppnistímabilsins.“

Þarf að ná nítján leikjum

Í núgildandi samningi Heiðars við QPR er ákvæði um að nái hann að leika nítján leiki á leiktíðinni verði samningurinn framlengdur um eitt ár. Á dögunum birtust fréttir í fjölmiðlum þess efnis að félagið vildi bjóða Heiðari nýjan samning þegar í stað en leikmaðurinn kannast ekki við það. „Ég veit ekki hvaðan þær upplýsingar koma, enginn hefur rætt við mig. Ég er hins vegar nokkuð bjartsýnn á að ná að uppfylla þetta nítján leikja ákvæði og tryggja mér þannig eitt ár til viðbótar. Lengra hugsar maður ekki í bili.“

Ekki er sjálfgefið að 34 ára gamlir menn, hvað þá framherjar, séu ennþá að spila meðal þeirra bestu í Englandi. Heiðar er hins vegar í góðu formi og á augljóslega ennþá erindi í úrvalsdeildina. „Það hefur margt breyst á undanförnum fimmtán til tuttugu árum sem hefur gert mönnum kleift að spila lengur. Þar munar líklega mest um bætt mataræði og betri endurhæfingu eftir meiðsli. Ég nýt góðs af hvoru tveggja.“

Spurður hvort líf atvinnumannsins í knattspyrnu sé algjört meinlætalíf hristir Heiðar höfuðið. „Alls ekki. Ég hef að vísu alltaf verið þokkalega skynsamur varðandi hollt líferni og sennilega bý ég að því núna. Ég hef lært margt af öllum næringarfræðingunum sem ég hef kynnst á ferlinum. Það þýðir samt ekki að ég leyfi mér ekki neitt. Í rauninni borða ég hvað sem er – svo lengi sem það er í hófi. Ég ráðlegg til dæmis engum knattspyrnumanni að borða pítsu í hvert mál,“ segir hann kíminn.

Úr einhverju þarf orkan að koma. „Þegar ört er leikið, eins og hér í Englandi um jólin, get ég borðað hvað sem er. Það er gríðarlega mikilvægt að ná að hlaða batteríin milli leikja.“

Örlagaríkur landsleikur

Heiðar Helguson fæddist árið 1977. Hann hóf ferilinn kornungur með sínu heimaliði, Dalvík, en gekk til liðs við Þrótt í Reykjavík árið 1996 og lék með liðinu tvö sumur í b-deildinni. Seinna sumarið tryggði Þróttur sér sæti í efstu deild. Þangað fylgdi Heiðar hins vegar félögum sínum ekki, hélt þess í stað í víking til Lillestrøm í Noregi.

Heiðar hafði vakið mikla athygli með Þrótti en í minningunni var það einn ákveðinn leikur sem skipti sköpum varðandi framtíð hans – leikur sem hann átti upprunalega aldrei að spila. „Ísland og Noregur mættust í 21 árs leik þarna um sumarið og ég var ekki valinn í hópinn en þegar Andri Sigþórsson meiddist hringdi Willum [Þór Þórsson, þjálfari Þróttar] í Atla Eðvaldsson, sem þá var með 21 árs liðið, og hálfpartinn skipaði honum að velja mig í staðinn,“ rifjar Heiðar upp.

Atli fór að tilmælum Willums og sá ekki eftir því. Heiðar skoraði annað markið og lagði upp hitt í 2:0-sigri. Fjölmennt lið útsendara frá norskum liðum var á vellinum og í kjölfarið kom tilboðið frá Lillestrøm. „Fyrir vikið hef ég alltaf sagt að Willum beri stóra ábyrgð á því að ég fór út í atvinnumennsku. Hann skvísaði mér inn í þennan leik.“

Í Noregi blasti allt annað umhverfi við Heiðari og það tók hann tíma að koma undir sig fótunum. „Það tók mig eiginlega árið að venjast aðstæðum, ekki síst æfingaálaginu. Það voru mikil viðbrigði að æfa allt í einu tíu sinnum í viku – allan veturinn. Síðan var leikið um helgar.“

Enda þótt Heiðar ætti erfitt uppdráttar hélt þjálfari Lillestrøm tryggð við hann og það skilaði sér á endanum. Hann fann sig mun betur annað árið og sló í gegn hjá stuðningsmönnum félagsins. „Þjálfarinn hafði trú á mér og gaf mér tækifæri til að finna mig. Það var ákaflega dýrmætt. Hann hefði hæglega getað tekið mig út úr liðinu og jafnvel skilað mér heim til Íslands. Maður stólar auðvitað fyrst og síðast á sjálfan sig í fótboltanum en á samt alltaf eitthvað undir ákvörðunum annarra. Það sýndi sig í Noregi.“

Ögraði risunum

Í stað þess að vera sendur heim til Íslands með skottið milli fótanna var Heiðar síðla árs 1999 keyptur fyrir metfé, hálfa aðra milljón sterlingspunda, til nýliða Watford í ensku úrvalsdeildinni – af gamla brýninu Graham Taylor. Hann byrjaði með látum – skoraði strax í fyrsta leik gegn Liverpool. Þegar upp var staðið var Heiðar markahæsti leikmaður Watford á leiktíðinni með sex mörk. Kom tuðrunni meðal annars líka í mark risanna Manchester United og Arsenal. Það breytti á hinn bóginn ekki því að Watford féll um vorið.

Annað tímabilið var erfiðara, Heiðar gerði að vísu átta mörk í b-deildinni en sveiflaðist upp og niður í formi. „Það var alfarið mér sjálfum að kenna. Eftir fyrsta árið hugsaði ég bara með mér: Þetta er komið! Fyrst ég gat skorað í úrvalsdeildinni, hlyti ég að geta skorað í b-deildinni. Ég fékk rækilegt spark í rassinn þennan vetur og áttaði mig á því að maður fær ekkert gefins í ensku knattspyrnunni. Til allrar hamingju lærði ég mína lexíu.“

Sumarið 2001 yfirgaf Taylor Watford og inn kom ítalska goðsögnin Gianluca Vialli. Hann hafði aðra sýn á knattspyrnuna og fékk nýja leikmenn til liðsins. „Ég áttaði mig fljótt á því að Vialli fílaði mig ekki sem leikmann. Okkur kom alls ekki illa saman en ég vissi að ég yrði aldrei meira en varamaður meðan hann væri þarna. Þá var ekki um annað að ræða en að taka því og æfa af kappi.“

Græðir ekkert á veseni

Sennilega er þessi síðasta setning dæmigerð fyrir lífsviðhorf Heiðars. Hann tekur mótlæti af æðruleysi og leggur bara ennþá harðar að sér undir þeim kringumstæðum. „Maður græðir ekkert á því að vera með uppsteyt og vesen. Ég held það hafi alla vega komið mér vel gegnum tíðina að taka bara því sem að höndum ber. Í fótboltanum þekkja allir alla og bregðist maður illa við mótlæti spyrst það fljótt út. Þá vill enginn sjá mann. Menn sem eru til vandræða hverfa yfirleitt fljótt af sjónarsviðinu – nema þeir séu þeim mun betri í fótbolta. Það eru bara svona týpur eins og Craig Bellamy sem komast upp með múður,“ segir Heiðar og glottir út í annað.

Dalvíkingurinn verður líka seint sakaður um að leggja sig ekki fram á velli. „Ég geri alltaf allt sem í mínu valdi stendur. Nægi það ekki, þá bara nægir það ekki. En ég get alla vega farið heim sáttur við mitt framlag.“

Heiðar yfirgaf Watford 2005 eftir 174 leiki og 55 mörk. Leiðin lá til Fulham í úrvalsdeildinni, þar sem hann lék í tvö ár við ágætan orðstír. Gerði 11 mörk í 57 leikjum. Sem fyrr segir varð dvölin hjá Bolton endaslepp. Þaðan var Heiðar fyrst lánaður og síðan seldur til QPR sem raunar lánaði hann aftur til Watford um tíma. Vegnaði honum vel hjá sínu gamla félagi.

Margir héldu að dagar Heiðars hjá QPR væru taldir en Neil Warnock, sem tók við stjórnartaumunum á Loftus Road vorið 2010, hafði aðrar hugmyndir. Gaf honum annað tækifæri hjá félaginu í fyrra.

Skrokkurinn hangir saman

Heiðar tekur sér stuttan umhugsunarfrest þegar hann er spurður hvað hann vonist til að geta spilað knattspyrnu lengi í viðbót. „Það er ómögulegt að segja,“ segir hann síðan. „Skrokkurinn hangir saman eins og er en maður veit aldrei hvenær hann gefur sig. Meiðsli hafa mikið að segja. Fari þau að plaga mann dregur það úr viljanum. Margir gefast upp þegar hraðinn minnkar en ég hafði aldrei neinn hraða til að missa þannig að ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því.“

Hann glottir.

Sem fyrr segir stefnir Heiðar að því að tryggja sér samning við QPR út næsta tímabil en eftir það er hann opinn fyrir öllu. Asía er í tísku, líka Bandaríkin og Heiðar útilokar alls ekki framandi slóðir. „Komi freistandi tilboð myndi maður örugglega skoða það. Fjölskyldan er alltaf opin fyrir nýjum ævintýrum. Annar kostur væri að taka slaginn í einhvern tíma hér í neðri deildum.“

Spurður hvort til greina komi að ljúka ferlinum heima, jafnvel í efstu deild, þar sem hann hefur aldrei leikið, segir Heiðar það ekki markmið í sjálfu sér. „Ég útiloka ekkert en á þessum tímapunkti finnst mér ólíklegt að ég komi til með að spila aftur heima. Taki ég tvö til þrjú ár í neðri deildunum hér verð ég örugglega orðinn of þreyttur til þess. Maður verður að geta gengið í framtíðinni!“

Það breytir ekki því að fjölskyldan hyggst setjast að á Íslandi eftir að knattspyrnuferli Heiðars lýkur. „Eins og staðan er núna er það alla vega stefnan.“

Ætli Dalvík verði jafnvel fyrir valinu? „Nei, það verður örugglega Reykjavík. Mamma er flutt suður fyrir nokkrum árum og konan mín er líka þaðan.“

Framtíðin óljós

En hvað tekur við?

„Ég hef ekki hugmynd um það,“ svarar Heiðar og hlær. „Kannski held ég áfram að vinna við fótbolta, kannski fer ég að gera eitthvað allt annað. Ég hef ekki gert upp við mig ennþá hvort ég hafi áhuga á þjálfun en færi ég út í hana yrði það sennilega í yngri flokkum. Ég hef meiri áhuga á barna- og unglingastarfi en að þjálfa fullorðna leikmenn. Reynsla mín og sambönd hér í Englandi ættu að geta nýst ágætlega á þeim vettvangi. Ég þekki einn eða tvo í fótboltanum hérna úti.“

Mál er til komið að kveðja Heiðar Helguson. Áður en ég yfirgef æfingasvæðið, sem Chelsea hafði til umráða áður, upplýsir hann mig hins vegar um að liðið muni ekki æfa þar miklu lengur, nýi eigandinn, Tony Fernandes, hafi fest kaup á nýju æfingasvæði.

Nýr eigandi, nýir leikmenn, nýtt æfingasvæði – gamall ólseigur Dalvíkingur. Framtíðin er björt hjá Queens Park Rangers.

Kann best við Bretana og Írana

Heiðar hefur leikið með ógrynni manna í ensku knattspyrnunni. Hann segir þá eins misjafna og þeir eru margir. „Mest eru þetta kunningjasambönd sem slitna þegar menn skipta um félag. Ég hef samt eignast nokkra góða vini í gegnum boltann sem ég er í góðu sambandi við og verð örugglega áfram.“

Hann á auðveldast með að vingast við Bretana og Írana. „Ég kann best við þá, lífsstílinn, húmorinn og þess háttar. Það er til dæmis erfiðara að nálgast Suður-Evrópumenn.“

Þá halda íslensku leikmennirnir í Englandi vel hópinn. „Ég er í miklu sambandi við bæði Hemma [Hermann Hreiðarsson] og Ívar [Ingimarsson] en þeir komu hingað út á svipuðum tíma og ég. Meðan ég bjó uppi í Manchester var ég líka í góðu sambandi við Jóa Kalla [Jóhannes Karl Guðjónsson]. Við hittumst oft og spilum golf. Maður verður að vera búinn að ná góðum tökum á því þegar maður hættir í fótboltanum, í einhverju þarf maður að geta keppt!“

Viðtal á tíu ára fresti

Seint verður sagt að Heiðar Helguson tröllríði fjölmiðlum með tilveru sinni. Raunar kemur í ljós að hann hefur ekki farið í viðtal af þessari stærðargráðu síðan hann var hjá Lillestrøm – fyrir tólf árum. „Ég hef farið í einhver fréttaviðtöl og tala alveg við blöðin hér í London og heima biðji þau um það, til dæmis eftir leiki, en ég hef lítið verið í þessum stærri viðtölum. Það er fínt að gera þetta á tíu ára fresti,“ segir hann kíminn. Þess má geta að Heiðar veitir ekki sjónvarpsviðtöl.

„Ég sækist ekki eftir sviðsljósinu,“ útskýrir hann, „kýs frekar að láta verkin tala inni á vellinum. Þannig er ég bara gerður. Ég vil líka geta gengið óáreittur um götur og þess vegna kann ég afskaplega vel við mig hérna í London. Borgin er svo stór að maður fellur auðveldlega inn í fjöldann.“

Hann segir tvennt ólíkt að tala við blöð heima og í Englandi. „Heima getur maður gengið að því vísu að það sem maður segir skilar sér á prenti. Hérna þarf maður að passa sig betur, blöðin eru mjög flink að snúa út úr og slíta hluti úr samhengi. Eru alltaf að leita eftir einhverju sláandi. Það er engin tilviljun að PR-menn frá klúbbnum eru yfirleitt viðstaddir viðtöl svo þeir geti hlustað á það sem sagt er, verði snúið út úr því síðar.“

Það er til einskis fyrir kynningarfulltrúa QPR að sitja yfir okkur Heiðari – þeir skilja ekki norðlensku.

Hættur í landsliðinu

Heiðar Helguson lýsti því yfir fyrr á þessu ári að hann væri hættur að leika með íslenska landsliðinu. Nokkur umræða hefur orðið um þá ákvörðun hér heima, sérstaklega eftir að Heiðar fór að láta aftur til sín taka í ensku úrvalsdeildinni í haust. Ákvörðunin stendur.

„Þessum kafla í mínu lífi er lokið. Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari kom hingað til London um daginn og hitti mig að máli eftir leik gegn Tottenham. Við áttum gott spjall og hann skildi afstöðu mína. Ég er orðinn 34 ára og þarf meiri hvíld nú en áður. Eins skemmtilegt og það er að leika fyrir Íslands hönd þýðir það meira leikjaálag og ferðalögin geta verið lýjandi. Ætli ég að verða einhver ár til viðbótar í atvinnumennsku er þetta skynsamlegt skref.“

Hann segir þetta líka góðan tímapunkt í ljósi þess að ný kynslóð sé að taka við kyndlinum í landsliðinu. „Við eigum fullt af leikmönnum á aldrinum 20 til 23 ára sem eru þegar orðnir stálpaðir atvinnumenn og eru að hasla sér völl í liðinu,“ segir Heiðar og nefnir menn eins og Gylfa Þór Sigurðsson, Aron Gunnarsson, Kolbein Sigþórsson, Eggert Gunnþór Jónsson og Jóhann Berg Guðmundsson. „Þessir strákar hafa burði til að vera fastamenn í landsliðinu næstu tíu árin. Ég er mjög bjartsýnn fyrir hönd íslenskrar knattspyrnu og hlakka til að fylgjast með landsliðinu á komandi árum.“

Spurður hvort hann sé sáttur við sinn feril með landsliðinu hugsar Heiðar sig stuttlega um.

„Bæði og,“ svarar hann síðan. „Fyrstu árin fannst mér ég ekki spila eins vel og ég átti að geta. Ég kann enga skýringu á því, þannig var það bara. Undanfarin tvö til þrjú ár hef ég hins vegar verið þokkalega sáttur. Mínir bestu leikir með landsliðinu hafa komið á þeim tíma.“

Hann dregur enga dul á að gengi liðsins hefði mátt vera betra. „Það hafa margir frábærir leikmenn verið í landsliðinu á þessum tíma en af einhverjum ástæðum, sem ég kann ekki að skýra, hefur gengið ekki verið nægilega gott. Eitt veit ég þó fyrir víst: Það var ekki vegna þess að menn legðu sig ekki fram.“

Heiðar mun sakna landsliðsins. „Það var meiriháttar gaman að leika með landsliðinu og ég hefði alls ekki viljað missa af þeirri lífsreynslu. Andinn í liðinu hefur verið frábær allan þennan tíma og alltaf jafngaman að hitta strákana. Síðan hefur maður auðvitað fengið tækifæri til að ferðast út um allar trissur – til staða sem maður hefði aldrei komið á annars.“

Ekki 1,78 – heldur 1,82

Eitt beittasta vopnið í búri Heiðars Helgusonar er skallatæknin. Enda þótt hann sé ekki með hæstu mönnum á velli á hann auðvelt með að vinna einvígi við mun hærri andstæðinga í loftinu – og skila tuðrunni í netið. Enginn stekkur auðveldlega norður yfir Heiðar!

„Fyrst þú minnist á þetta má ég til með að leiðrétta misskilning. Ég er ekki 1,78 metrar á hæð, eins og allsstaðar kemur fram, heldur 1,82,“ segir hann kíminn.

Og hananú!

„Annars get ég ekki útskýrt þetta með skallann,“ heldur hann áfram. „Ég hef alltaf getað hoppað sem nýttist mér líka ágætlega í körfubolta þegar ég var strákur.“

En það er ekki nóg að geta hoppað. „Auðvitað er þetta líka spurning um „tæmingu“ og sem betur fer hef ég alltaf haft hana, mér gengur yfirleitt ágætlega að tímasetja hoppin,“ segir Heiðar og bætir við að hann hafi aldrei æft þessar loftárásir sérstaklega og enginn þjálfari séð ástæðu til að vinna sérstaklega með þær.

Sumt er bara eins og það er.

Indæll eða illskeyttur?

Heiðar Helguson þykir harður í horn að taka á velli – með þeim alhörðustu sem fæðst hafa hér við nyrstu voga. Hann er iðulega einbeittur, jafnvel grimmur á svip meðan á leik stendur. Það er allt önnur gerð af manni sem situr andspænis mér á æfingasvæði QPR þetta miðdegi. Sá er afslappaður og ljúfur á manninn.

„Svona er ég dags daglega. Vinir mínir geta staðfest það,“ upplýsir hann hlæjandi.

„Ég skil hvað þú ert að fara. Fólk sem sér mig spila, en þekkir mig ekki, heldur örugglega að ég sé afar illskeyttur náungi. Ég er samt ekkert einn um þetta. Sjálfur hef ég spilað á móti mörgum mönnum sem ég er sannfærður um að séu algjörar skepnur, rífandi kjaft og með olnbogana út um allt. Síðan endum við kannski í sama liðinu og í ljós kemur að þetta eru frábærir gaurar, ekkert nema almennilegheitin. Svona er þetta skrýtið. Menn fara bara í einhvern ham á vellinum.“

Það orð fer af Heiðari að drepleiðinlegt sé að spila á móti honum, varnarmenn fái ekki flóarfrið allan leikinn. „Ég lít á það sem hrós,“ segir hann. „Ég læt engan eiga neitt inni hjá mér og ætlast ekki til þess að eiga neitt inni hjá öðrum. Á knattspyrnuvelli passar enginn upp á þig nema þú sjálfur. Svo einfalt er það.“

Glott færist yfir varir Heiðars þegar hann er spurður hvort hann hafi aldrei farið yfir strikið. „Það var kannski ein og ein villt tækling þegar ég var yngri en ég hef aldrei reynt að meiða nokkurn mann. Þetta hefur lagast í seinni tíð – kannski er það bara vegna þess að ég næ þeim ekki lengur!“

Samkvæmt orðabók merkir karlmannsnafnið Heiðar „heiðvirður hermaður“. Það má rétt eins hafa mynd af okkar manni við hliðina á þeirri skýringu.

Stjórinn keypti skynsamlega

Heiðar kveðst sáttur við gengi QPR það sem af er leiktíð en liðið er í 13. sæti úrvalsdeildarinnar með 16 stig eftir 15 leiki. „Þetta hefur gengið þokkalega en við þurfum að vinna fleiri leiki á heimavelli, þar hefur aðeins einn sigur komið í hús. Okkur hefur gengið betur úti, erum þar með þrjá sigra.“

Hann segir nýju leikmennina upp til hópa hafa staðið sig vel. „Stjórinn keypti skynsamlega í sumar, mestmegnis vana úrvalsdeildarleikmenn. Það skiptir miklu máli enda hafa nýliðar ekki tíma til að bíða eftir því að nýir leikmenn aðlagist hraðanum í deildinni. Luke Young hefur verið frábær í bakverðinum, líka Armand Traoré. Miðverðirnir hafa verið traustir, Anton Ferdinand og Danny Gabbidon, og Shaun Wright-Phillips og Joey Barton hafa styrkt miðjuna. Það sama á við um þá eins og aðra góða leikmenn, þeir gera meðspilarana betri.“

Sá síðastnefndi er einn umdeildasti leikmaður deildarinnar og þótt víðar væri leitað. Sat meira að segja bak við lás og slá um tíma. Spurður hvernig manneskja Joey Barton sé svarar Heiðar því til að hann hafi fallið vel inn í hópinn. „Joey er fínn náungi. Eldhress. Maður brosir reglulega að uppátækjunum hjá honum. Hann er vissulega óhræddur við að viðra skoðanir sínar, hvort sem það er á vellinum, í blöðunum eða á Twitter og kemur sér fyrir vikið stundum í vandræði. En þetta er bara Joey. Hann axlar ábyrgðina á endanum,“ segir Heiðar og bætir við að Barton fái stundum að heyra það sjálfur. „Blessaður vertu, við látum hann alveg heyra það eigi hann það skilið.“

Leggur ekki aftur munninn

Annar litríkur náungi er knattspyrnustjórinn, Neil Warnock. Myndavélarnar hvíla jafnan á honum á hliðarlínunni enda eins og sjálft lífið sé í húfi þegar leikur er í gangi. „Stjórinn er búinn að vera lengi í þessu, kominn á sjötugsaldur en samt er ástríðan svo sannarlega ennþá fyrir hendi. Hann leggur ekki aftur munninn á hliðarlínunni. Warnock er mjög hreinskiptinn stjóri, lætur menn heyra það líki honum ekki það sem þeir eru að gera – en er líka fyrstur til að hrósa mönnum standi þeir sig vel.“

Síðustu ár hafa verið hálfgerð rússíbanareið fyrir QPR. Félagið lenti í fjárhagsvanda og eignarhaldið fór á flot. Formúlu eitt-frömuðirnir Bernie Ecclestone og Flavio Briatore eignuðust það árið 2007 og ýmsir fleiri komu að málum, þeirra á meðal milljarðamæringurinn Lakshmi Mittal. Lítið fé var þó lagt til leikmannakaupa og raunar komst ekki skriður á þau mál fyrr en malasíski kaupsýslumaðurinn Tony Fernandes eignaðist ráðandi hlut í QPR í sumar. Hann opnaði budduna upp á gátt og er víst hvergi nærri hættur.

Kennir sig stoltur við móður sína

Þegar Heiðar kom fyrst fram á sjónarsviðið í íslenskri knattspyrnu var hann Sigurjónsson. Átján ára gamall tók hann hins vegar ákvörðun um að kenna sig framvegis við móður sína, Helgu Matthíasdóttur frá Dalvík. „Mamma átti skilið að ég kenndi mig við hana. Hún hefur alla tíð stutt geysilega vel við bakið á mér og var óþreytandi við að skutla mér og sækja á æfingar þegar ég var yngri. Ég er stoltur af því að kenna mig við hana.“

Eiginkona Heiðars er Eik Gísladóttir. Þau kynntust meðan hann lék með Þrótti í Reykjavík og fluttu saman til Noregs þegar Heiðar réð sig til starfa hjá Lillestrøm.

Heiðar og Eik eiga þrjá syni, Aron Dag, tólf ára; Óliver tíu ára og Ómar Þór fjögurra ára. Synirnir eru allir farnir að æfa knattspyrnu með hverfisliðum í Lundúnum en líklega er ruglingslegt að tala um eplið og eikina í þessu tilviki!

„Sá elsti er senter og miðjumaður en sá næstelsti er frammi – fer helst ekki aftur fyrir miðju,“ upplýsir Heiðar hlæjandi.

Hvaðan í ósköpunum hefur hann það? „Ekki frá mér,“ flýtir Heiðar sér að segja, „ég var alltaf á miðjunni í yngri flokkunum heima á Dalvík.“

Hann skellir upp úr.

Heiðar varast að setja pressu á drengina sína en hafi þeir áhugann og getuna til að gerast knattspyrnumenn mun hann styðja þá með ráðum og dáð. „Frumkvæðið verður að koma frá þeim, ég myndi aldrei ýta þeim út í eitthvað sem þeir ekki vilja sjálfir. Verði þeir ekki knattspyrnumenn geta þeir alltaf farið í lækninn. Einhver þarf að hugsa um slitinn skrokkinn á mér!“

Heiðar segir mestan tíma utan boltans fara í fjölskylduna og er þakklátur fyrir að vera í starfi sem tryggir honum rúman tíma með sínum nánustu. Oft nær hann til að mynda að skutla sonum sínum og sækja þá á æfingar. Og horfa á þá æfa og spila. Það munar um minna.