— Morgunblaðið/Ómar
„Við náðum að grípa læðuna og kettlingana, koma þeim upp í búr og upp í Kattholt. Þar eru þau öll í góðu yfirlæti,“ segir Ómar F. Dabney, rekstrarfulltrúi hjá Meindýravörnum Reykjavíkurborgar.

„Við náðum að grípa læðuna og kettlingana, koma þeim upp í búr og upp í Kattholt. Þar eru þau öll í góðu yfirlæti,“ segir Ómar F. Dabney, rekstrarfulltrúi hjá Meindýravörnum Reykjavíkurborgar. Ómar segist hafa séð kettlingana í sjónvarpinu og fundist þeir vera nokkuð stálpaðir, hann hafi því farið á staðinn og beðið um að fá að sjá hvar kisurnar væru. Að sögn Ómars sá hann fljótlega tvo af kettlingunum og náði þeim, en hann hafi svo með hjálp kollega síns náð hinum tveimur kettlingunum og læðunni. Síðan hafi verið farið með kisufjölskylduna í Kattholt.

Þær upplýsingar fengust frá Kattholti að kisufjölskyldan væri hress og við góða heilsu. Að sögn starfsmanns Kattholts eru kettlingarnir óvanir fólki og því hálfvilltir en læðan virðist hins vegar vera vön því að umgangast fólk. Kattholt leitar nú að nýju fósturheimili handa kisufjölskyldunni.