Jón Ragnar Ríkarðsson
Jón Ragnar Ríkarðsson
Eftir Jón Ragnar Ríkharðsson: "Svo þegar allt hrundi, vegna þess að fjármálamenn höguðu sér með óábyrgum og glæfralegum hætti, þá er Davíð Oddssyni kennt um það."

Sterkasta birtingarmynd fáránleikans í hinni opinberu umræðu er án efa umræðan um Davíð Oddsson sem ritstýrir þessu vandaða blaði.

Ætli ástæðan sé ekki fyrst og fremst óánægja vinstri manna, vegna þess að Davíð náði því að stjórna landinu mjög lengi, eftir að hann hafði stjórnað Reykjavíkurborg um margra ára skeið, með mun betri árangri en vinstri menn geta látið sig dreyma um að gera.

Hann sá m.a. til þess að fólk hafði frelsi til athafna og sú ákvörðun gerði það að verkum, að möguleikar þjóðarinnar voru óþrjótandi.

Margir benda á hinn óhagstæða viðskiptajöfnuð sem varð á árunum fyrir hrun, en það var hvorki Davíð né öðrum stjórnmálamönum að kenna.

Þegar þjóðin hefur frelsi, þá hefur hún val um það, hvort hún leggur meiri áherslu á útflutningsgreinarnar eða innflutning. Það var tækifæri fyrir athafnamenn að hasla sér völl í útflutningi á öllum sviðum og raunar hefði verið æskilegra að meiri kraftur hefði verið settur í að skapa gjaldeyrisaflandi starfsemi.

Stjórnvöld gerðu flest rétt, skuldir ríkissjóðs voru greiddar niður og er það að mestu leyti fyrir tilstilli Geirs H. Haarde sem nú bíður dóms fyrir engar sakir.

Allir gátu grætt ótakmarkað, þannig að stjórnvöld gerðu eins mikið og mögulegt var til að skapa hagsæld hér á landi.

Það er ekki á verksviði stjórnmálamanna að segja til um, hvers konar starfsemi á að þrífast hér, sjálfstæðismenn vita það betur en flestir hér á landi.

Svo þegar allt hrundi, vegna þess að fjármálamenn höguðu sér með óábyrgum og glæfralegum hætti, þá er Davíð Oddssyni kennt um það. Ekki hefur komið fram að einhverjir telji hann ábyrgan fyrir gosinu í Eyjafjallajökli, en miðað við fáránleika umræðunnar, þá gæti einhver bloggari sagt að Davíð hefði verið að sniglast undir Eyjafjöllum með eitthvert vafasamt ráðabrugg.

Rannsóknarskýrslan hefur verið dásömuð af mörgum, en hún telst seint vandað plagg, þótt hún geymi ýmsar athyglisverðar frásagnir af atburðum sem áttu sér stað á árunum fyrir hrun.

En sú afstaða skýrsluhöfunda, að fjalla ekki um andmæli Davíðs hlýtur að gjaldfella hana allverulega.

Í andmælunum er m.a. bent á ýmsar lagagreinar og færð rök fyrir því, að skýrsluhöfundar þekki ekki nægjanlega vel til þess lagaumhverfis sem Seðlabanki Íslands starfar eftir.

Skýrsluhöfundar hefðu átt að leitast við að hrekja andmælin, ef þeir hefðu ekki verið sammála þeim, en það var ekki gert.

Svo er hægt að tína til fjölmörg atriði, sem komið hafa fram til að sverta mannorð þess manns, sem gert hefur hvað mest fyrir íslenskt samfélag. Vera má að hann hafi tekið ákvarðanir sem reynst hafa rangar, en það hefur enginn bent á það með óyggjandi hætti.

Það getur enginn maður sinnt erfiðu og krefjandi starfi forsætisráðherra árum saman og gert allt rétt. Ákvörðun sem virðist vera rétt í dag getur orðið kolröng á morgun.

Ísland varð í fremstu röð meðal þjóða heimsins á valdatíma Davíðs. Skýrslur erlendra eftirlitsstofnana sanna það með óyggjandi hætti. Alltaf má gera betur og ekkert samfélag í mannlegum heimi er fullkomið.

En að halda því fram að Davíð hafi framið einhvern glæp eða gert hluti sem eru á dökku svæði er fjarstæða.

Hafi hann gerst sekur um eitthvað misjafnt, þá væri það fyrir löngu komið fram.

Vinstri flokkarnir, í samstarfi við ýmsa fjölmiðla, sem hafa rannsóknarblaðamenn á sínum snærum, hafa allan tímann sem Davíð starfaði í pólitík verið á fullu við að hanka hann. Það hafa fáir íslenskir stjórnmálamenn verið undir eins miklu eftirliti og Davíð Oddsson.

Miðað við alla þá vinnu sem lagt hefur verið út í, til að sanna eitthvað misjafnt á Davíð Oddsson, þá hlýtur hann að teljast í hópi heiðarlegustu manna landsins.

Nokkrar rætnar kjaftasögur bera enga sönnunarbyrði, sem betur fer.

Höfundur er sjómaður.