Músíkalskt par Það voru Egill Ólafsson og Ragnhildur Gísladóttir sem sáu um að kynna tilnefningar og fórst þeim það einkar vel úr hendi.
Músíkalskt par Það voru Egill Ólafsson og Ragnhildur Gísladóttir sem sáu um að kynna tilnefningar og fórst þeim það einkar vel úr hendi. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Í gær voru tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna gerðar heyrinkunnugar. Það var ástsæla tvíeykið Egill Ólafsson og Ragnhildur Gísladóttir sem um það sá og var anddyri Gamla bíós vettvangurinn.

Í gær voru tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna gerðar heyrinkunnugar. Það var ástsæla tvíeykið Egill Ólafsson og Ragnhildur Gísladóttir sem um það sá og var anddyri Gamla bíós vettvangurinn. Jafnframt var greint frá því að Íslensku tónlistarverðlaunin verða afhent í 18. sinn í Silfurbergi Hörpu við hátíðlega athöfn miðvikudaginn 29. febrúar á því herrans hlaupári 2012. Það er Mugison sem fær flestar tilnefningar þetta árið, alls sex. Hann er tilnefndur í flokkunum plata ársins, lagahöfundur ársins, textahöfundur ársins, lag ársins, söngvari ársins og flytjandi ársins. GusGus siglir tæknilega séð upp að honum en hún er tilnefnd í flokkunum plata ársins, lag ársins og flytjandi ársins. Auk þess eru þrír söngvarar sveitarinnar, þau Högni Egilsson, Daníel Ágúst Haraldsson og Urður Hákonardóttir, tilnefnd sem söngvarar ársins.

Lay Low er þá tilnefnd í fimm flokkum og Björk í fjórum. Tilnefnt er í flokknum tónlistarviðburður ársins og eru Aldrei fór ég suður, Iceland Airwaves og Biophiliuröð Bjarkar þar á meðal.

Stórsveit Reykjavíkur fær fjórar tilnefningar í djass- og blúsflokki og er auk þess tilnefnd sem tónlistarflytjandi ársins.

ADHD fékk þá þrjár tilnefningar í djass- og blúsflokki auk þess að vera tilnefnd sem tónlistarflytjandi ársins.

Tilnefndir tónhöfundar ársins í sígildri og samtímatónlist eru svo þau Anna Þorvaldsdóttir og Áskell Másson.

Verðlaunagripur Íslensku tónlistarverðlaunanna er Ístónninn sem veittur hefur verið við afhendingu Íslensku tónlistarverðlaunanna frá árinu 2001. Nánari lista má sjá á mbl.is.