Sigurgeir Gunnar Ingvarsson fæddist á Minna-Hofi, Rangárvöllum 18. júlí 1914 og lést á Ljósheimum, Selfossi 28. nóvember 2011.

Útför Sigurgeirs Ingvarssonar fór fram frá Selfosskirkju laugardaginn 10. desember 2011.

Elsku besti langafi minn. Nú er víst komið að kveðjustund og með sorg í hjarta kveð ég þig fallegi afi minn.

Ég veit að þótt þú sért farinn frá okkur taka á móti þér svo margir sem elska þig.

Þegar ég sit og hugsa um allar minningarnar sem ég á um þig og ömmu, þá er svo margt sem kemur upp í hugann. Öll árin sem við mamma bjuggum í Múla þar sem ég þurfti aðeins að hlaupa upp hringstigann til að koma í heimsókn. Þar stóðuð þið amma með opna arma og tókuð alltaf svo vel á móti mér. Einnig eyddi ég ófáum stundum með ykkur í búðinni á meðan mamma var að vinna. Og í hvert skipti sem ég kom var alltaf nóg að gera en samt var ávallt tími til að sinna litlu skotti sem hafði óbilandi áhuga á öllu því sem gera þurfti, hvort sem það var að mæla efni, búa til tölur eða fá að stimpla verðið inn í búðarkassann. Og alltaf varst þú tilbúinn að kenna mér og leyfa mér að hjálpa þér.

Ég var svo heppin að fá að fylgjast með samskiptum ykkar ömmu og get ég með sanni sagt að ég horfi mikið upp til ykkar í mínu hjónabandi. Það var yndislegt að sjá hversu hamingjusöm og glöð þið voruð og sást það langar leiðir hversu ástfangin af hvort öðru þið voruð. Mín von er sú að við hjónin upplifum slíka ástarsögu eins og hjónaband ykkar var í mínum augum. Á hverju ári er haldin grillveisla þar sem fjölskyldan safnast saman og eigum við þá góðar stundir en sumarið eftir að þú lokaðir búðinni var haldin grillveisla sem er mér mjög minnisstæð þar sem við komum saman í garðinum í Múla. Við frænkurnar komumst í gamlan kassa af fötum sem eitt sinn voru til sölu hjá þér og héldum tískusýningu fyrir ykkur. Þú brostir út að eyrum og klappaðir hátt og mikið fyrir okkur, tókst svo þéttingsfast utan um okkur og kysstir á kinn og sagðir hversu ríkur þú værir að eiga svona myndarlegar afastelpur.

Þú varst alltaf svo duglegur að ferðast til útlanda og í hvert skipti sem þið amma komuð heim úr sólinni komuð þið alltaf færandi hendi. Það var alltaf svo spennandi og gaman að fá pakka frá útlöndum. Í eitt skiptið vorum við mamma svo heppnar að fá að koma með ykkur til Mallorka og er ég svo glöð að hafa fengið að upplifa það með þér. Þar varð ég rosa hrifin af því að spila billjard og þú varst duglegur að gefa mér peseta, eftir að mamma vildi ekki láta mig fá fleiri, svo ég gæti nú spilað sem mest.

Það var yndislegt sumarið sem þú komst í heimsókn til Noregs og áttum við frábærar stundir saman fjölskyldan á Hole. Ég veit að mömmu þótti svo vænt um það sumar rétt eins og mér.

Ég er heppnari en margir að hafa átt langömmu og langafa og þakka ég fyrir hvert ár sem þú varst hér hjá okkur. Lánsöm var ég að hafa þig viðstaddan er ég gifti mig síðasta vor og met ég það mikils.

Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín. (Kahlil Gibran)

Gæfusöm hef ég verið að fá að þekkja þig og mun ég ávallt eiga góðar minningar um þig. Ég kveð þig með ást og hlýju í hjarta mínu.

Íris Hödd.