Birgir Ásgeirsson
Birgir Ásgeirsson
Eftir Birgi Ásgeirsson: "Börn læra fljótt að sjá góðan Guð í foreldrum sínum, náttúrinni, samvisku sinni, en líka í þeim sem reynast vel, m.a. kennurum sínum."

Fimm ára strákur fór sporléttur með foreldrum sínum upp á Esjutind, óttalaus, hönd í hönd. Furðu vekur það, hve börn eru dugleg til gangs á stuttum fótum. Á Þverfellshorni horfðu þau yfir dýrðina, hlustuðu á þögnina og önduðu að sér fersku lofti heiðríkjunnar. Á slíkum stað er auðvelt að skynja hversu himinn, haf, land og byggðir mannanna eru stórkostlega samrýmanlegar. Hughrif fjölskyldunnar voru ólýsanleg. Öll tækni er auðveld barnshuganum, en nú fann drengurinn upp á því að hringja úr farsíma í afa sinn og sagði í hrifningu sinni: „Afi, ég er kominn upp á fjall. Það er svo hátt, að ég er næstum kominn upp í himininn.“

Börn skilja margt betur en við fullorðnir ætlum. Þegar gleðin er hrein og græskulaus brosa þau í einlægni sinni og hlæja. Þegar sorgin kveður dyra gráta þau með okkur, af því að meðlíðan þeirra vaknar með hjálp þeirra, sem kenna þeim að elska. Inntaki gleði og sorgar er erfitt að finna fyrir, nema þar sé kærleikur.

Íslenskir foreldrar hafa um aldir kennt börnum sínum það, að elska og umhyggja eigi sér mikilvæga fyrirmynd í kærleiksboði Jesú Krists. „Elska skaltu Drottinn Guð þinn af öllu hjarta, huga og mætti og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Í þeim anda hafa þeir valið að gera Jesú sér að fyrirmynd og með þeim hætti eru foreldrar fyrirmynd barna sinna. Um leið vita allir foreldrar, sem þekkja sjálfa sig, að hið fullkomna er aðeins hjá Guði og Jesús er mynd hans. Annars myndi enginn velja þessa leið í uppeldi barna sinna. Börn læra fljótt að sjá góðan Guð í foreldrum sínum, náttúrunni, samvisku sinni, en líka í þeim, sem reynast vel, m.a. kennurum sínum.

Undanfarin ár hefur verið gengið nærri kirkjulegri starfsemi með miklum niðurskurði á félagsgjöldum kirkjunnar. Það hefur orðið til þess að skerða starf á meðal barna og unglinga í kirkjunum og aðra mikilvæga þjónustu. Einnig hefur Borgarráð sett reglur, sem þrengja að hefðbundnu starfi skóla og valda því m.a., að nokkrir skólar hafa fellt niður árvissa heimsókn barnanna í kirkju skólahverfisins í nánd jóla. Sú heimsókn hefur þó flestum verið tilhlökkunarefni og margir eiga dýrmætar minningar og skemmtilegar frá slíkum ferðum.

Foreldrar ráða uppeldi barna sinna, bera ábyrgð á því. Þeir hafa allan umsagnar- og ákvörðunarrétt um uppeldið, innan þess lagaramma, sem þjóðfélagið hefur komið sér saman um og í skjóli þeirra hefða, sem hafa reynst farsælar og friðflytjandi. Í því ljósi hvet ég foreldra eindregið til þess að búa sig, ásamt börnum sínum, vel undir komandi jól af gleði og kærleika og þeirri tilhlökkun, sem hátíðin gefur tilefni til.

Jólaundirbúningur er eins og að klífa gott fjall. Þegar upp er komið er hægt að njóta útsýnisins, víkka sjóndeildarhringinn, skynja hæð, dýpt og breidd sköpunar og mannlífs. Þá er hægt að segja börnum okkar í leiðinni, að Guð láti vita af sér í barni jólanna. Jesús er mynd Guðs og þess vegna fögnum við fæðingu hans og óskum hverju öðru gleðilegra jóla. Upphaflega var kveðjan svona: Guð gefi þér gleðileg jól. Kirkjuferð, einlægt samtal við eldhúsborðið, bæn við rúmstokkinn eru allt góðar aðferðir til þess að auka þroska barnsins, dýpkta samskiptin, takast á við lífið, styrkjast og gleðjast saman í kærleika.

Höfundur er prestur í Hallgrímskirkju og prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.