Ernir Hrafn Arnarson
Ernir Hrafn Arnarson
Ekkert verður af því, alltént að sinni, að Ernir Hrafn Arnarson handknattleiksmaður gangi til liðs við TV Emsdetten í þýsku 2. deildinni frá HSG Düsseldorf.

Ekkert verður af því, alltént að sinni, að Ernir Hrafn Arnarson handknattleiksmaður gangi til liðs við TV Emsdetten í þýsku 2. deildinni frá HSG Düsseldorf. Nokkrar líkur voru á að hann skipti um félag í fyrradag en Düsseldorf á í miklum fjárhagserfiðleikum um þessar mundir. Félagið þarf að draga úr kostnaði og fá um leið inn tekjur en lið þess situr í 17. sæti af 20 liðum deildarinnar þegar keppni í henni er nær hálfnuð.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins vilja forráðamenn Düsseldorf fá 50.000 evrur fyrir Erni Hrafn, jafnvirði um átta milljóna króna. Ekkert félag í 2. deildinni er tilbúið að greiða þá upphæð, í viðbót við laun, næsta hálfa árið.

Frank Thünemann, framkvæmdastjóri TV Emsdetten, sagði í samtali við vefútgáfu Emsdettener Volkszeitung í gær, að Ernir Hrafn kæmi ekki á næstunni til TV Emsdetten miðað við kröfur forráðamanna Düsseldorf. Ernir væri heldur ekkert endilega sá sem félagið hefði í sigtinu í leit sinni vegna meiðsla tveggja leikmanna liðsins. iben@mbl.is