Viðurkenning Tónlistarmennirnir sem verk eiga á Kraumslistanum í höfuðstöðvum Kraums í gær.
Viðurkenning Tónlistarmennirnir sem verk eiga á Kraumslistanum í höfuðstöðvum Kraums í gær. — Morgunblaðið/Ómar
Sex hljómplötur hafa verið valdar á Kraumslistann og fá þar með viðurkenningu frá Kraumi tónlistarsjóði í formi kynningar, plötukaupa og -dreifingar.

Sex hljómplötur hafa verið valdar á Kraumslistann og fá þar með viðurkenningu frá Kraumi tónlistarsjóði í formi kynningar, plötukaupa og -dreifingar. Markmið Kraumslistans er að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra hljómsveita og listamanna með sérstöku tilliti til þeirra sem yngri eru og viðurkenna og vekja sérstaka athygli á þeim verkum sem skarað hafa fram úr í gæðum, metnaði og frumleika á árinu.

Eftirfarandi plötur eru á listanum í ár, nafn tónlistarmanns og hljómsveitar birt á undan plötutitli: ADHD - ADHD2, Lay Low - Brostinn Strengur, Reykjavík! - Locust Sounds, Samaris - Hljóma þú (EP), Sin Fang - Summer Echoes og Sóley - We Sink.

Listinn var kynntur við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum Kraums í gær að viðstöddum fyrrnefndum tónlistarmönnum og hljómsveitum.

„Ég kaupi diska af listamanninum fyrir ákveðna upphæð, þetta hefur verið upphæð í kringum hundrað þúsund krónur, og dreifi þessum plötum áfram, til fólks í bransanum. Það kemur fólk á Airwaves sem maður þekkir og hittir og ég er með mína kontakta eftir að hafa verið að vinna í plötuútgáfu og síðan er stjórnin með sína kontakta,“ segir Jóhann Ágúst Jóhannsson, framkvæmdastjóri Kraums, spurður að því hvað viðurkenningin feli í sér. Jóhann segir að plötunum sé komið til fólks erlendis í bransanum, m.a. skipuleggjenda tónlistarhátíða og plötuútgáfna og það kynningarstarf hafi skilað sér.

20 manna dómnefnd valdi plöturnar sex af 20 platna úrvalslista en dómnefndina skipar fólk sem hefur mikla reynslu af því að hlusta á og fjalla um íslenska tónlist á ýmsum sviðum fjölmiðla.

helgisnaer@mbl.is