Boltaspark Bók Gunnars Helgasonar „er einfaldlega hörkufín barnabók“.
Boltaspark Bók Gunnars Helgasonar „er einfaldlega hörkufín barnabók“.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Gunnar Helgason. Mál og menning gefur út. 264 bls. innb.

Á hverju sumri fyllist Heimaey í hálfa viku af knáum fótboltapeyjum í 6. flokki og það er einmitt slík Eyjaferð sem er umgjörð bókar Gunnars Helgasonar, Víti í Vestmannaeyjum. Eins og þátttaka söguhetjunnar og liðs hans sé ekki nógu taugatrekkjandi ein og sér, þá vofir yfir hættan á að Katla taki að gjósa þá og þegar. Úr verður spennandi og skemmtileg saga sem sannast sagna kemur á óvart.

Gunnar Helgason er löngu landsfrægur skemmtikraftur sem víða hefur komið við. Víti í Vestmannaeyjum er heldur ekki frumraun hans á ritvellinum heldur sú fimmta í röðinni sem hann sendir frá sér. Það verður að segjast að hér skrifar hann af nokkurri vigt. Stíllinn er strákslegur og fer efninu vel, og það sem meira er, sagan er þrusufín.

Að rekja boltaspark eitt og sér hefði dugað fyrir eldheita knattspyrnuáhugamenn í yngri kantinum, en Gunnar fléttar inn áðurnefnda gosógn ásamt hliðarsögu af heimilisofbeldi sem er býsna vel heppnuð. Þar fléttast inn lögregluþjónn sem ekki er allur þar sem hann er séður og þegar sú saga nær hámarki er spennustigið einfaldlega himinhátt. Það er ekki hlaupið að því að flétta jafn dramatískt og alvarlegt mál inn í almennt frekar hressa frásögn, en Gunnar gerir það feikivel. Sagan heldur taktinum gegnumsneitt og kímnin er aldrei langt undan þó vissulega harðni á dalnum endrum og sinnum. Höfundur gætir þess svo að halda lesandanum á tánum með því að gefa eitt og annað til kynna varðandi framhald framvindunnar gegnum mergjaðar draumfarir söguhetjunnar.

Það segir sitt um gæði bókarinnar að synir undirritaðs – annar þeirra forfallinn fótboltakappi sem þegar hefur leikið á einu móti í Eyjum og hinn tiltölulega mildur í knatttrúnni – hlustuðu báðir með sama áhuganum á upplestur sögunnar. Vitaskuld mun bókin gagnast boltapjökkum frábærlega, og er þeim hálfgerð skyldulesning, en sagan er margslungnari en svo að þeir einir geti haft gaman af. Hér er einfaldlega hörkufín barnabók sem á erindi til allra krakka, og það sem meira er, fullorðnum mun ekki leiðast að lesa hana fyrir ungviðið. Í bókarlok lofar höfundur framhaldi á næsta ári og er það vel, hann er hér í góðum gír og meira af svo góðu er vel þegið.

Jón Agnar Ólason