Marel hefur tekist vel upp við að sækja inn á nýmarkaði og þannig aukið áhættudreifingu fyrirtækisins, að því er fram kemur í greiningu IFS. Á það er bent að í gegnum tíðina hefur tekjustreymi Marel fylgt framleiðsluvísitölum.

Marel hefur tekist vel upp við að sækja inn á nýmarkaði og þannig aukið áhættudreifingu fyrirtækisins, að því er fram kemur í greiningu IFS.

Á það er bent að í gegnum tíðina hefur tekjustreymi Marel fylgt framleiðsluvísitölum. Þegar vísitölurnar lækkuðu hvað mest í kjölfar hruns á fjármálamörkuðum á haustmánuðum 2008 varð talsverður samdráttur í tekjum Marel.

Á síðustu misserum hafa tekjur Marel hins vegar í auknum mæli byggst á sölu til fleiri landa – ekki síst til nýmarkaðsríkja á borð við Rússland, Úkraínu, Suður-Kóreu og Kína. Þær breytingar ættu að koma félaginu til góðs.

Samfara miklum hagvexti í BRIK löndunum – Brasilía, Rússland, Indland og Kína – þá gera spár ráð fyrir því að spurn eftir svína- og kjúklingakjöti aukist umtalsvert. Marel er leiðandi fyrirtæki í þróun og framleiðslu á tækjabúnaði við meðferð og vinnslu á matvælum.

Fram kemur í greiningu IFS að rekstur Marel hafi gengið vel það sem af er árinu og pantanabók fyrirtækisins hefur stækkað jafnt og þétt þrátt fyrir óvissu í efnahagsmálum í heiminum. Í uppgjöri félagsins fyrir þriðja ársfjórðung kom fram að andvirði pantana nemur ríflega 200 milljónum evra á árinu.

Að mati IFS er hins vegar ekki útilokað að skuldakreppan á evrusvæðinu muni valda Marel skakkaföllum. „Þar sem viðskiptavinir Marels eru framleiðslufyrirtæki víðsvegar um heim gæti efnahagslægð á evrusvæðinu og viðkvæm staða lánamarkaða haft áhrif á pantanir frá svæðinu.“ hordur@mbl.is