Póstur Það er mikið annríki hjá starfsmönnum Íslandspósts um þessar mundir og öll pósthús smekkfull af jólakortum og jólapökkum. Síðasti öruggi skiladagur fyrir bréf og böggla innanlands er mánudagurinn 19. desember.
Póstur Það er mikið annríki hjá starfsmönnum Íslandspósts um þessar mundir og öll pósthús smekkfull af jólakortum og jólapökkum. Síðasti öruggi skiladagur fyrir bréf og böggla innanlands er mánudagurinn 19. desember. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.is Íslendingar nota netið í síauknum mæli til þess að kaupa vörur og þjónustu erlendis og láta senda sér heim og nú er svo komið að fjöldi tollskyldra sendinga til landsins hefur aldrei verið meiri.

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Íslendingar nota netið í síauknum mæli til þess að kaupa vörur og þjónustu erlendis og láta senda sér heim og nú er svo komið að fjöldi tollskyldra sendinga til landsins hefur aldrei verið meiri. Þetta segja fulltrúar Íslandspósts, sem eru nú í óðaönn við að koma jólagjöfum og -kortum til skila fyrir hátíðirnar.

„Róðurinn hefur verið að þyngjast hjá okkur í þessari viku og svona verður þetta fram að jólum,“ segir Ágústa Hrund Steinarsdóttir, forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts, og notar tækifærið til að minna á að á mánudaginn, 19. desember, er síðasti öruggi skiladagur á jólakortum og jólapökkum innanlands.

Nóvember metmánuður

Ágústa segir að frá hruni hafi verið stöðug aukning í tollskyldum sendingum til landsins og að í október á þessu ári hafi fjöldi þeirra verið orðinn sá sami og allt árið í fyrra, eða vel á annað hundrað þúsund.

Halla Garðarsdóttir, deildarstjóri hjá Íslandspósti, tekur undir þetta og segir að í nóvember hafi póstverslun til landsins talið 14 þúsund sendingar en þá er átt við vörur til einstaklinga að verðmæti 30 þúsund krónur eða minna.

„Við hrunið 2008 duttu þessar sendingar alveg niður en frá þeim tíma hefur þetta verið að aukast hægt og rólega og náði toppnum í nóvember. Frá því að mælingar hófust, árið 2003, hafa aldrei komið eins margar sendingar,“ segir Halla.

Til samanburðar var tekið á móti 3-4.000 sendingum af þessu tagi í hverjum mánuði 2003 og 3.200 sendingum í nóvember 2008. Sá mánuður var nálægt því að vera sá lélegasti frá upphafi.

SMS-frímerkin vinsæl

Sé einungis litið til jólaverslunarinnar, sést að hún er einnig að aukast. Í desember í fyrra fóru 12.284 sendingar í gegnum Póstinn og að sögn Höllu stefnir í að þær verði mun fleiri í ár. „Það er alveg klárt mál að það eru fleiri farnir að kaupa jólagjafir til landsins á netinu,“ segir hún.

Halla segir að þrátt fyrir netvæðinguna hafi jólakortasendingar þó ekki minnkað en sá fjöldi hafi verið svipaður síðustu ár. Fyrstu fimmtán daga desembermánaðar hafa um 380 þúsund jólakort farið í gegnum póstmiðstöðina við Stórhöfða og er þá ekki allt talið, því 10% bréfa skila sér aðrar leiðir.

Þá segir Halla svokölluð sms-frímerki hafa vakið mikla lukku. „Sú þjónusta fór í gang fyrir jólin og er dálítið að slá í gegn,“ segir hún. „Íslendingar eru svo nýjungagjarnir.“

Póstur

19.

desember er síðasti öruggi skiladagur bréfa og böggla fyrir jól.

14.000

tollskyldar sendingar til einstaklinga bárust með pósti í nóvember.

3.200

sendingar sömu tegundar fóru um Íslandspóst í nóvember 2008.