Varafavegur hreinsaður í desember 2011.
Varafavegur hreinsaður í desember 2011.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Vigfús Andrésson: "Uppgröftur og flutningur á ösku úr farvegi Svaðbælisár er orðinn mikill og kostnaður hlýtur að vera mikill. Hvað er til ráða?"

Það hefur tæpast farið framhjá neinum þau vandræði sem skapast hafa við Svaðbælisá undir A-Eyjafjöllum eftir gosið í Eyjafjallajökli. Eðjuhlaupið sem kom niður ána í byrjun gossins eyðilagði jörðina Önundarhorn. Saga Svaðbælisár frá ofanverðri 19. öld er í stórum dráttum á þann veg að Þorvaldur Bjarnarson hóf fyrirhleðslu innan við bæinn Svaðbæli eftir að hann hóf búskap þar. Hann breytti nafni jarðarinnar í Þorvaldseyri. Þá færði hann einnig bæjarstæðið sem var áður á svipuðum stað og þjóðvegurinn liggur núna neðan við Þorvaldseyri. Með fyrirhleðslunni veitti hann ánni á Lambafellið og náði með því móti slægjulandi sem áður var undirlagt vatni úr ánni sem sló sér til. Um leið rýrnaði Lambafellið að sama skapi. Má segja að með þessu móti hafi Svaðbælið, sem seinna varð Þorvaldseyri, orðið að góðri bújörð. Þessari fyrirhleðslu hélt svo Ólafur Pálsson áfram eftir að hann fór að búa á jörðinni. Á seinni árum hefur garðurinn bæði verið hækkaður og lengdur, svo mjög að áin hefur sneitt vestan úr Lambafellinu. Áin rann til sjávar niður Lambfellsengjarnar neðan þjóðvegar og gegnum Yzta-Bælið, Leirnajörðina og Berjanesið út í Holtsós. Stundum var reynt að setja útfall á hana til sjávar milli Yzta-Bælis og Leirna. Á 6. áratugnum var ákveðið að færa farveg árinnar og láta hana fara austur í Bakkakotsá ofan við Önundarhorn. Ástæða þess var sú að það þurfti að bæta vegi og koma bæjum hreinlega í öruggt vegasamband á þessu svæði, sérstaklega í Miðbælishverfinu. Hringvegur var gerður sem nefnist Leirnavegur. Svo gaus Eyjafjallajökull. Fyrir utan fyrsta eðjuflóðið þá berst aska stöðugt niður með ánni, líkt og gerist einnig í Holtsá sem hefur skaðað Holtsós mjög mikið.

Sleitulaust hefur verið unnið með stórvirkum vinnuvélum að uppreftri öskunnar úr farveginum og hún bæði sett í garða ofan þjóðvegar og ekið burtu við brúna á þjóðveginum. Frá gilkjaftinum innan við Þorvaldseyri og Núpakot og að þjóðvegi er áin látin renna í hlykkjum í stað þess að taka hana beint að brúnni. Af þessu leiðir að rennslið verður hægara og hún nær ekki að bera eins mikið af ösku fram og ella væri. Vandséð er hvað er verið að verja á þessari leið því þarna eru illa grónir aurar. Þar að auki er nýtt afar stórt bjálkahús á Lambafelli mjög aðkreppt vegna hækkunar garðanna þarna. Hefur þurft að breyta frárennsli frá húsinu vegna breytinga á ánni. Hefði áin verið tekin beint að brúnni frá gilinu þá væri húsið ekki í hættu og jafnvel rýmra um það en áður. Núna er fyrirhugað að breyta farvegi árinnar neðan þjóðvegar og taka hana beint frá brú og tengja hana við Bakkakotsá ofan við túnið á bænum Rauðsbakka, skammt frá bæjarhúsunum á Önundarhorni sem Ofanflóðasjóður og Vegagerðin eiga núna. Þetta er gert til að freista þess að fá meira rennsli frá brúnni og niður úr svo það þurfi ekki að moka og flytja öskuna stanslaust burt frá henni.

Ef þetta tekst að nokkru leyti þá er hætta á að ekki verði hugað að framburðinum neðar og hann látinn valsa um lönd jarðanna á svæðinu allt til sjávar. Þetta er ekki ráð sem leysir vandann heldur færir hann til og breytir honum. E.t.v. er eina ráðið við þessum vanda, að setja ána austur í Bakkakotsá ofan við þjóðveginn (áin heitir reyndar Laugará ofan við veginn) og veita Kaldaklifsá líka þangað en talsverður halli er að Bakkakotsá bæði frá austri og vestri. Við þetta væri búið að safna öllu vatni í einn farveg sem myndi að öllum líkindum ráða við að fleyta öskuframburðinum til sjávar og halda farveginum sem hann var áður. Kostnaður við þessa framkvæmd yrði vart nema brot af því sem á undan er gengið og á eftir að kosta vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Brýr eða sver rör á tveim stöðum á sk. Raufarfellshring og nokkur hundruð metra uppgröftur á nýjum farvegi og bætur fyrir land, myndi að öllum líkindum vera brot af þeim tilkostnaði sem er kominn og er fyrirséður með því verklagi sem er fyrirhugað. Þess má geta að sveitarfélagið á jarðarhlut á Raufarfelli. Með þessu móti fengist Önundarhornið til baka sem bújörð og yrði úr hættu. Hvergi hefur sést neins konar yfirlit yfir þann kostnað sem kominn er vegna öskumokstursins við ána en hann hlýtur að vera mikill, jafnvel hlaupa á hundruðum milljóna. Það væri þörf á því að opinberir aðilar gerðu grein fyrir þessum kostnaði og hvað þeir ætla sér í náinni framtíð með þetta verk. Þetta varðar fleiri en þá sem taka ákvarðanirnar. Einnig er vert að spyrja sömu aðila hvers vegna þeir tóku ána ekki beint frá gilinu innan við Þorvaldseyri og Núpakot og niður að brú. Takið viturlegar ákvarðanir áður en þetta fer að líkjast um of endileysunni í Landeyjahöfn.

Höfundur er bóndi í Berjanesi A- Eyjafjöllum.