Ágúst Þór Árnason
Ágúst Þór Árnason
Eftir Ágúst Þór Árnason: "Eftir stendur hins vegar spurningin hvort sú stjórnskipun sem stjórnlagaráð leggur til muni, í heild sinni, hvetja til eða tryggja lýðræðislega stjórnarhætti."

Hver var afstaða Íslendinga til upptöku kvóta- og veiðileyfakerfis árið 1984 eða til aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu árið 1994? Vildu íslenskir kjósendur kosta til Fljótsdalsvirkunar í þeim tilgangi að stóriðja gæti risið á Austfjörðum í lok síðasta árþúsunds? Hver var afstaða Íslendinga til einkavæðingar bankanna svo og þeirrar hugmyndar að fjármálastarfsemi yrði ein helsta uppspretta þjóðartekna við upphaf nýrrar aldar? Var það vilji þjóðarinnar að auka skuldir ríkisins um tugi hundraðshluta í því skyni að bjarga fjármála- og tryggingafyrirtækjum landsins eftir bankahrunið á haustdögum árið 2008? Svarið við öllum þessum spurningum er hið sama: Við vitum ekki hver afstaða þjóðarinnar var því hún kom aldrei fram.

Undanfari þessara ákvarðana, sem hafði áhrif á líf okkar allra, var hvorki umræða á vettvangi stjórnmálaflokka, almenn þjóðmálaumræða eða kosningabarátta og kosningaúrslit. Um þessi mál var tekin ákvörðun af þröngum hópi manna, líklega ráðherra og hagsmunaaðila, sem að því loknu var lögð fram fyrir Alþingi til afgreiðslu án þess að ætlunin væri að þar færi fram raunveruleg umræða eða ákvörðunartaka. Nýrðið „ráðherraræði“, sem oft er vísað til sem samnefnara stjórnskipulegrar kreppu Íslendinga, virðist þannig eiga betur við allar framangreindar ákvarðanir en hugtakið lýðræði. Í Stjórnskipun Íslands segir Ólafur Jóhannesson: Íslenzk stjórnskipun er lýðræðisleg. Allir þegnar þjóðfélagsins, er fullnægja tilteknum almennum skilyrðum kjósa æðstu valdhafana, þ.e. þá, sem fara með löggjafarvaldið og æðsta framkvæmdavaldið (forseta). Kosningar eru leynilegar. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á gerðum sínum og er undir eftirliti af hálfu þjóðfulltrúasamkomunnar, Alþingis. Handhöfum framkvæmdavalds ber í hvívetna að fara að lögum og eru bundnir af þeim. Þegnarnir hafa rétt til að láta í ljós skoðun sína og þeim eru í stjórnarskránni tryggð tiltekin réttindi. Dómstólarnir eru sjálfstæðir og eiga einungis að dæma eftir lögunum, en eru ekki bundnir við nein fyrirmæli af hálfu framkvæmdavaldshafa. Allt eru þetta óræk lýðræðiseinkenni. (Útgf. 1978, bls. 96.) Ekki er annað hægt en að taka undir með Ólafi um að tilgreind atriði séu „óræk lýðræðiseinkenni, a.m.k. að því gefnu að fulltrúalýðræði sé grundvöllur lýðræðislegra stjórnarhátta. Því miður eru lýðræðisleg einkenni lagalega gildandi stjórnskipunar ekki sönnun þess að lýðræðið standi undir nafni.

Nú þegar hafist hefur verið handa við heildarendurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins er brýnt að fara yfir reynslu Íslendinga af stjórnarháttum sínum síðustu áratugi, þ.á.m. fulltrúalýðræðinu. Í núgildandi stjórnarskrá er með ýmsum hætti litið á þjóðaratkvæðagreiðslur sem aðhalds- og öryggistæki gagnvart stofnunum ríkisins, einkum Alþingi sem aðal handhafa löggjafarvalds. Ekki síst er lýðræðislega kjörnum forseta ætlað það hlutverk að vísa málum til þjóðarinnar ef hann telur ástæðu til þess. Í hugmyndum stjórnlaganefndar (sbr. skýrslu stjórnlaganefndar útg. 2011) kemur fram sama meginhugmynd til þjóðaratkvæðagreiðslna þótt þar séu lagðar til víðtækar heimildir í þessu efni. Þannig má leiða að því líkum að stjórnlaganefnd hafi talið að víðtækari heimildir til þjóðaratkvæðagreiðslna gætu leitt til aukinnar ábyrgðar stjórnmálamanna gagnvart kjósendum, lagt grundvöll að lýðræðislegri umræðu og e.t.v. meiri sátt um meiriháttar ákvarðanir. Í tillögum stjórnlagaráðs er hins vegar gengið lengra, raunar svo langt að spyrja má hvort þjóðaratkvæðagreiðslum (svokölluðu beinu lýðræði) sé ætlað að leysa núverandi fulltrúalýðræði af hólmi að einhverju leyti? Tillögur stjórnlagaráðs gera hins vegar einnig ráð fyrir gerbreyttri kosninga- og kjördæmaskipan, breytingum á myndun og störfum ríkisstjórnar og samspili ríkisstjórnar þings. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru ekki töfralausn á lýðræðislegri slagsíðu. Raunar má leiða að því líkur að þjóðaratkvæðagreiðslur geti verið ein af birtingarmyndum harðstjórnar ef ákveðnar forsendur skortir. Tillögur stjórnlagaráðs eru óneitanlega til marks um vonbrigði um hvernig tekist hefur til með framkvæmd íslensks lýðræðis eftir stofnun lýðveldisins. Þessi vonbrigði ber að mínu mati að taka alvarlega. Eftir stendur hins vegar spurningin hvort sú stjórnskipun sem stjórnlagaráð leggur til muni, í heild sinni, hvetja til eða tryggja lýðræðislega stjórnarhætti. Sú spurning þarfnast ekki aðeins yfirvegaðrar og sérfræðilegrar úrlausnar heldur einnig lýðræðislegrar málsmeðferðar. Að öðrum kosti er hætti við því að ný stjórnarskrá bætist við í flokk þeirra mála sem afgreidd hafa verið með lýðræðislegri slagsíðu.

Höfundur er brautarstjóri lagadeildar Háskólans á Akureyri.